Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 2009

Stjórnmálaályktun af Landsþingi UJ.

Ný tækifæri á jöfnum grunni

Ýtið á lesa meira til að sjá stjórnmálaályktunina.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tekur við slæmu búi. Frjálshyggjutilraun gróðahyggjuafla undanfarinna ár endaði með ósköpum. Bankarnir voru einkavæddir í hendur útvaldra og skattkerfinu var skipulega breytt til að hygla þeim ríku á kostnað þeirra sem minnst hafa milli handanna. Yfirgangur  stjórnvalda var slíkur að frændhygli og valdahroki þóttu orðið eðlilegir eiginleikar stjórnmálamanna. Afraksturinn var hrun fjármálakerfisins, gjaldmiðilsins og heimilanna. Skuldir almennings hækka, launin lækka og fólk hefur gripið til þess ráðs að flýja land.

Með jafnaðarstefnuna og lýðræði að leiðarljósi má byggja nýtt samfélag úr rústum frjálshyggjunnar, samfélag á grunni jöfnuðar, jafnréttis og frelsis. Hornsteinn jafnaðarmanna í forystu ríkisstjórnar verður að vera baráttan fyrir almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að sjálfbærri atvinnusköpun, jöfnum aðgangi að menntun og heilbrigðum fjármálamarkaði. Útrýma þarf misrétti gagnvart konum, tryggja völd þeirra í hinu opinbera lífi til jafns á við karla og berjast af alvöru gegn kynbundnu ofbeldi. Síðast en ekki síst verður að tryggja heiðarlegt stjórnmálaumhverfi, byggt á fagmennsku, heilindum og gegnsæi.

Ríkisstjórnin, fyrsta hreina félagshyggjustjórn Íslandssögunnar, má engan tíma missa. Stórar og erfiðar ákvarðanir eru framundan í ríkisfjármálum, sem eru óumflýjanlegar vegna þeirrar stöðu sem óheft frjálshyggja og græðgi auðjöfra hefur steypt þjóðarbúinu í. Ungir jafnaðarmenn styðja ríkisstjórnina í þessum erfiðu aðgerðum í trausti þess að þær séu nauðsynlegur liður í að reisa Ísland við á ný. Ríkisstjórnin hefur nú þegar lyft grettistaki við erfiðustu pólitísku aðstæður frá lýðveldisstofnun.

Það vill Íslendingum til happs að á landinu er hefð fyrir sterku velferðarkerfi að Norrænni fyrirmynd. Ungir jafnaðarmenn munu berjast fyrir því að félagslegum gæðum verði ekki fórnað til frambúðar vegna þrenginganna. Hætta er á að örbirgð og skortur festist í sessi og verða stjórnvöld á þessum tímum fyrst og fremst að tryggja að þau fátækustu njóti mannsæmandi framfærslu, réttinda og lífsgæða.

Rétturinn til atvinnu er þungamiðja jafnaðarstefnunnar. Atvinnumál á Íslandi brenna nú á þjóðinni, ekki síst ungu fólki sem er stór hluti atvinnulausra. Ungir jafnaðarmenn  leggja áherslu á að stutt verði við ungt fólk án atvinnu. Um leið þarf að horfa til framtíðar. Ungir jafnaðarmenn vilja að Íslendingar setji sér markmið um að vera kolefnishlutlaust samfélag innan nokkurra ára og verndi óspillta náttúru. Ísland á að vera sjálfbært þekkingarþjóðfélag og taka forystu í alþjóðlegu baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Uppbygging fleiri álvera samræmist ekki þeirri stefnu. Þá þarf að endurskoða styrkjakerfi atvinnuvega, einfalda og samræma það þannig að verkefni í sjávarútvegi og landbúnaði lúti sömu lögmálum og verkefni úr öðrum atvinnugreinum.

Sveitarstjórnarkosningarnar 2010 eru afar mikilvægar. Umhverfissjónarmið og félagshyggja eiga að ráða för þegar mikilvægar ákvarðanir sem varða daglegt líf almennings eru teknar. Bæta þarf almenningssamgöngur og standa við loforð um að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaga. Þá leggja Ungir jafnaðarmenn áherslu á aukna fjarkennslu sem leið til að tryggja jafnrétti til náms um allt land.

Ljúka þarf því verki að semja Íslandi stjórnarskrá í fyrsta skipti í stað þeirra leifa af gamalli danskri stjórnarskrá sem nú er notast við. Landið á að verða eitt kjördæmi með jöfnu atkvæðavægi allra og ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi. Flýta á sameiningu ráðuneyta. Persónukjör hefur mikla kosti í för með sér og Ungir jafnaðarmenn styðja grunnhugmyndina. Tryggja þarf þó að ekki verði tekið upp kerfi sem dregur úr jafnrétti kynja í stjórnmálum eða veldur á annan hátt afturför eða ójafnrétti. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Stórt skref í endurreisn Íslands var stigið í sumar þegar ríkisstjórnin sótti um aðild að Evrópusambandinu. Nánara samstarf við vinaþjóðir okkar í Evrópu er lykilatriði í að komast upp úr þeim vanda sem þjóðin glímir við. Upptaka evru sem gjaldmiðils verður grundvöllur stöðugs efnahagslífs, framsækinnar atvinnustefnu og betri lífskjara almennings. Með aðild getur Ísland tryggt fullveldi sitt til frambúðar og verið þjóð meðal þjóða, virkur þátttakandi í ákvarðanatöku á alþjóðavísu.

Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika þurfa Íslendingar að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og styðja pólitískt við bakið á þeim sem mest þurfa á að halda, svo sem á herteknum svæðum í Palestínu. Reynslan undanfarið ár hefur kennt Íslendingum hversu þungbært er að standa ein í erfiðleikum.

Ríkisstjórnin hefur þegar stigið skref í átt að betra samfélagi með aðgerðum sem taka á skuldavanda heimilanna, sem hækka námslánin og auðvelda fólki að fara af atvinnuleysisbótum og í nám. Mikilvægt er að unnið verði áfram að lausn Icesave vandans í samstarfi við þjóð og þing.

Í kjölfar erfiðleikanna hefst ný sókn Íslands með kröftugu og samkeppnishæfu atvinnulífi, traustu velferðarkerfi og skynsamri nýtingu auðlinda landsins. Jafnaðarmenn eru best til þess fallnir að leiða þá sókn og byggja samfélag frelsis, jafnréttis og samstöðu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið