Lög Ungs jafnaðarfólks

I. Nafn, tungumál og varnarþing

1. grein
Nafn samtakanna er Ungt Jafnaðarfólk og eru samtökin ungliðahreyfing Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. Opinber tungumál Ungs jafnaðarfólks eru íslenska og enska. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík. 

II. Tilgangur

2. grein
Samtökin aðhyllast lýðræðislegt þjóðskipulag sem byggt er á virkri þátttöku almennings, valddreifingu, félagslegu réttlæti og að fyllstu mannréttindum sé framfylgt.

Tilgangur samtakanna er

 • að vera opinn og lýðræðislegur vettvangur fyrir skapandi umræður um málefni ungs fólks og jafnaðarstefnu, byggðum á grunnhugmyndum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti, og samstöðu.
 • að efla samskipti og samkennd meðal ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks um allt land,
 • að vinna að því að hagsmunir ungs fólks séu virtir í stefnumótun Samfylkingarinnar
 • að vinna að því að ungt fólk hafi fulltrúa sem víðast í starfi Samfylkingarinnar og að rödd ungs fólks heyrist á vettvangi flokksins og
 • að halda uppi samskiptum við samtök ungs jafnaðarfólks og ungra sósíalista á Norðurlöndum, í Evrópu og á alþjóðavísu.

3. grein
Manifesto Ungs Jafnaðarfólks lýsir grunngildum hreyfingarinnar. Innihaldi þess verður ekki breytt nema á landsþingi með samþykki 2/3 landsþingsfulltrúa.

III. Aðild að Ungu Jafnaðarfólki

4. grein
Aðild að samtökunum geta átt öll félög og málefnahópar ungs fólks á aldrinum 16 – 35 ára sem vilja vinna að framgangi félagshyggju og jafnaðarstefnu og gangast undir lög þessi.

Þau félög eða málefnahópar sem óska þess að gerast aðilar skulu senda inn inntökubeiðni sem skulu fylgja afrit af lögum og félagaskrá. Landsþing skal taka afstöðu til inntökubeiðni og samþykkja hana eða hafna.

Til að félög eða málefnahópar fái inngöngu í Ungt jafnaðarfólk þarf tvo þriðju hluta atkvæða á landsþingi. Meðan beðið er úrskurðar landsþings um inntökubeiðni félags getur framkvæmdastjórn samþykkt, með einföldum meirihluta, að veita félaginu aukaaðild fram að landsþingi. Félagsfólk hins nýja félags geta þá starfað innan samtakanna en hafa ekki atkvæðisrétt á landsþingi nema landsþing samþykki inngöngubeiðni félagsins, sbr. 12. gr

5. grein
Hvert aðildarfélag, það er félag eða málefnahópur, hefur rétt til að skjóta ágreiningsmálum til miðstjórnar, enda hafi ágreiningsmálið verið rætt á félagsfundi og atkvæðagreiðsla gengið um málið.
Úrskurður miðstjórnar er bindandi fyrir alla aðila en honum má áfrýja til landsþings.
Úrskurður miðstjórnar gildir þangað til landsþing úrskurðar í málinu.

6. grein
Aðildarfélög skulu senda miðstjórn skýrslu um starfsemi sína, uppfærða félagatölu og fjárhag að loknum hverjum aðalfundi. Aðildarfélög skulu jafnframt senda miðstjórn uppfærða félagatölu fjórum sólarhringum fyrir landsþing.

Miðstjórn getur óskað eftir slíkum gögnum á öðrum tímum ef þurfa þykir.

7. grein
Brjóti aðildarfélag reglur, samþykktir eða lög samtakanna eða geri eitthvað það sem landsþing telur til vansa fyrir samtökin skal landsþing heimilt að víkja því úr samtökunum.

Miðstjórn getur fellt úrskurð um brottvikningu fram að landsþingi ef meira en þrír mánuðir eru fram að landsþingi.

8. grein
Félagar geta verið í fleiri en einu félagi eða málefnahóp. Félaga skal þó aldrei telja oftar en einu sinni í félagaskrá samtakanna. Félagsfólk getur ekki haft meira en einfaldan atkvæðisrétt óháð fjölda þeirra félaga og málefnahópa sem viðkomandi er aðili að.

9. grein
Hvert aðildarfélag hefur rétt til að svipta félaga sinn félagsréttindum og víkja honum úr félaginu um óákveðinn tíma ef hann hefur á einhvern hátt gert sig sekan um brot á lögum eða reglum félags, samtaka eða stjórnmálaflokks samtakanna.

Viðkomandi skal ávallt gefinn kostur á að leggja fram málsvörn og getur hann skotið máli sínu til miðstjórnar samtakanna sem kveður upp endanlegan úrskurð.

Þá getur miðstjórn svipt félaga í Ungu jafnaðarfólki félagsréttindum sínum og eða vikið úr hreyfingunni um óákveðinn tíma ef viðkomandi hefur á einhvern hátt gert sig sekan um brot á lögum eða reglum hreyfingarinnar eða Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. Ákvörðun um brottvísun úr hreyfingunni þarf samþykki 2/3 miðstjórnar.

IV. Landsþing

10. grein
Landsþing fer með æðsta vald í málefnum Ungs jafnaðarfólks. Reglulegt landsþing skal halda árlega og skal að jafnaði halda eigi síðar en 15. október.

11. grein
Landsþing skulu boðuð af framkvæmdastjórn, minnst tíu sólarhringum áður en þau eru haldin, með opinberum og sannanlegum hætti, t.d. með tölvupósti til félaga eða fréttatilkynningu á samfélagsmiðlum. Dagskrá landsþings og fundargögn skulu auglýst a.m.k. þremur sólarhringum fyrir landsþing.

Aukalandsþing skal halda ef meirihluti miðstjórnar eða fimmtíu fullgildir félagar í hreyfingunni telja ástæðu til. Landsþing telst löglegt ef það er löglega boðað.

12. grein
Allir félagar Ungs jafnaðarfólks hafa rétt til að skrá sig sem landsþingsfulltrúa. Fulltrúar skulu hafa verið skráðir til mætingar a.m.k. fjórum dögum fyrir landsþing. Framkvæmdastjórn tekur ákvörðun um innheimtu landsþingsgjalds og auglýsir það með sanngjörnum fyrirvara. Heimilt er að gera greiðslu landsþingsgjalds forsendu fyrir fullum réttindum á landsþingi. Einnig er heimilt að innheimta gjald til jöfnunar ferðakostnaðar.

13. grein
Dagskrá landsþings skal að jafnaði innihalda eftirfarandi dagskrárliði:

 • Afhending þinggagna og greiðsla þinggjalda.
 • Setning.
 • Samþykkt fundarskapa.
 • Kosning starfsfólks þingsins, forseta, þingritara og uppstillingarnefnd telji miðstjórn þörf á því.
 • Afstaða tekin til inntökubeiðni nýrra félaga eða málefnahópa.
 • Skýrsla stjórnar og umræður.
 • Skýrsla gjaldkera, framlagning og umræður umreikninga.
 • Umræða og afgreiðsla ályktana
 • Lagabreytingar.
 • Kosningar í embætti í eftirfarandi röð:
  1. Kosning forseta (ef við á), sbr. 14. gr.
  2. Kosning framhaldsskólafulltrúa í miðstjórn og framkvæmdastjórn                       
  3. Kosning meðstjórnenda í framkvæmdarstjórn, sbr. 14. gr.                                       
  4. Kosning tólf miðstjórnarfulltrúa og fjögurra til sex varafulltrúa í miðstjórn
 • 5. Kosning tveggja endurskoðenda reikninga.
 • Önnur mál.
 • Þingslit.


14. grein

Úrslitum mála á landsþingi ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.

Framkvæmdastjórn skipar 2-4 einstaklinga í kjörstjórn minnst 2 vikum fyrir landsþing. Kjörstjórn skal sjá um undirbúning og framkvæmd kosninga á landsþingi.

Framboð skulu hafa borist kjörstjórn fyrir hádegi á fyrsta þingdegi landsþings nema annað sé auglýst. Framboðsfrestur til stjórnar skal þó aldrei renna út fyrr en fimm dögum fyrir landsþing.
Komi ekki fram fleiri framboð en kjósa þarf til teljast viðkomandi sjálfkjörin til starfa. Við kosningar eru þau réttkjörin sem flest atkvæði fá. Verði atkvæði jöfn í framboðskosningum þá ræður hlutkesti. Þó skal forseti vera kosinn með meira en helming greiddra atkvæða. Hljóti enginn slíkan atkvæðafjölda við forsetakosningu skal kosið á ný milli tveggja efstu frambjóðanda. Auðir seðlar teljast greidd atkvæði.

Kosningar í embætti á landsþingi skulu vera leynilegar.

Í miðstjórn og framkvæmdastjórn skal hlutfall kvenna ekki vera undir 40%.

15. grein
Forseta skal kjósa á reglulegu landsþingi til tveggja ára í senn.

Í framkvæmdastjórn eiga sæti sex meðstjórnendur auk forseta. Á hverju reglulegu landsþingi skal kjósa þrjá meðstjórnendur í framkvæmdastjórn til tveggja ára í senn. Hafi meðstjórnandi sem þá var á fyrra starfsári sínu í framkvæmdastjórn látið af embætti á tímabilinu og varafulltrúi tekið sæti hans, skal kosið í það embætti á næsta reglulega landsþingi, og skal sá meðstjórnandi aðeins vera kjörinn til eins árs.

Á hverju reglulegu landsþingi skal kjósa framhaldsskólafulltrúa til eins árs í senn.

Á hverju reglulegu landsþingi skal kjósa tólf miðstjórnarfulltrúa. Auk þeirra skulu kjörnir varafulltrúar. Þeir skulu vera að lágmarki fjórir en að hámarki sex. Þá skulu einnig kjörnir tveir skoðunaraðilar reikninga.

V. Miðstjórn og framkvæmdastjórn

17. grein
Miðstjórn Ungs jafnaðarfólks fer með æðsta vald samtakanna milli landsþinga.
Í miðstjórn eiga sæti allir fulltrúar í framkvæmdastjórn Ungs jafnaðarfólks og tólf miðstjórnarfulltrúar kosnir á landsþingi. Að auki hafa fulla aðild að miðstjórn allir forsetar aðildarfélaga Ungs jafnaðarfólks

Varafulltrúar taka sæti á miðstjórnarfundum í forföllum kjörinna aðalfulltrúa. Atkvæðafjöldi á landsþingi ræður því í hvaða röð varafulltrúar taka sæti í stjórn. Hafi varafulltrúar verið sjálfkjörnir skal dregið um það á fyrsta fundi nýrrar miðstjórnar í hvaða röð varafulltrúar taka sæti á fundum miðstjórnar.

Miðstjórn ber ábyrgð á ályktunum félagsins, málefnastarfi þeirra milli landsþinga hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjórnar. Miðstjórn getur falið framkvæmdastjórn að sinna þeim verkefnum sem talin eru nauðsynleg hverju sinni.

18. grein
Miðstjórnarfundi skal að jafnaði halda a.m.k. einu sinni í mánuði. Forseti fer með oddaatkvæði ef atkvæði verða jöfn. Miðstjórnarfundi skal að jafnaði boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Óski fjórðungur miðstjórnar eftir fundi ber að halda hann innan viku frá því forseta berst slík ósk skriflega.

Miðstjórn er auk þess frjálst að veita trúnaðarfulltrúum samtakanna og öðrum gestum aðgang að fundum sínum með málfrelsi og tillögurétti.

Miðstjórn sker úr um deilumál sbr. 4. grein og 6. grein, tekur stefnumál til meðferðar og skipar í þau embætti sem kunna að losna á milli landsþinga.

Miðstjórn getur sent frá sér ályktanir um málefni sem eru í anda samþykktrar stefnu samtakanna. Miðstjórn skal á fyrsta fundi sínum eftir reglulegt landsþing samþykkja verklagsreglur um meðferð ályktana á milli miðstjórnarfunda.

19. grein
Framkvæmdastjórn sér um daglegan rekstur samtakanna, annast tengsl við aðildarfélög, vinnur að eflingu starfsins um land allt og ber ábyrgð á þeim verkefnum sem einstökum fulltrúum framkvæmdarstjórnar er falið að sinna. Framkvæmdarstjórn skal einnig sinna þeim verkefnum sem henni eru falin af miðstjórn.

Í framkvæmdastjórn eiga sæti forseti og sex meðstjórnendur og framhaldsskólafulltrúi. Á fyrsta fundi framkvæmdastjórnar eftir reglulegt landsþing skiptir stjórnin með sér verkum. Framkvæmdastjórn skal að minnsta kosti skipta með sér eftirfarandi embættum: varaforseti, ritari og gjaldkeri

Framkvæmdarstjórn er heimilt að skipa nefndir fyrir innra starf hreyfingarinnnar.

Forseti og varaforseti skulu ekki vera af sama kyni.

Á fyrsta fundi miðstjórnar eftir reglulegt landsþing skulu kjörnir fjórir varafulltrúar framkvæmdastjórnar úr hópi þeirra tólf fulltrúa sem kosnir voru á landsþingi. Varafulltrúar þessir skulu taka sæti á framkvæmdastjórnarfundum í forföllum kjörinna aðalfulltrúa. Atkvæðafjöldi á fyrsta fundi miðstjórnar ræður því í hvaða röð varafulltrúar taka sæti í framkvæmdastjórn.

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á verkum sínum gagnvart miðstjórn og skal lúta eftirliti miðstjórnar með störfum sínum.

20. grein
Framkvæmdastjórnarfundi skal að jafnaði halda tvisvar í mánuði. Forseti fer með oddaatkvæði ef atkvæði verða jöfn.
Framkvæmdastjórn er frjálst að veita stöku félagsfólki Ungs Jafnaðarfólks aðgang að fundum sínum með málfrelsi og tillögurétt.

Framkvæmdastjórn getur skuldbundið samtökin fjárhagslega vegna daglegs reksturs þeirra. Allar meiri háttar fjárhagsskuldbindingar skulu bornar undir miðstjórn.

Framkvæmdastjórn er heimilt að ráða starfsfólk sér til aðstoðar. Skal ráðning framkvæmdastjóra staðfest af miðstjórn áður en hún tekur gildi.

21. grein
Á landsþingi er kosinn fulltrúi framhaldsskólanema sem á fulla aðild að framkvæmdastjórn og miðstjórn. Fulltrúi framhaldsskólanema þarf að vera í framhaldsskóla þegar viðkomandi hlýtur kjör. 

Fulltrúi framhaldsskólanema er undanskilinn kynjahlutfalli stjórna samkvæmt 14. grein.

VI. Útgáfumál

22. grein
Samtökin skulu halda úti vefsíðunni politik.is og gefa út árlega a.m.k. eitt tölublað af blaði Ungs jafnaðarfólks – Jöfn og frjáls.

Miðstjórn er heimilt að fela framkvæmdastjórn að standa að frekari útgáfu í nafni samtakanna.
Öll útgáfa Ungs jafnaðarfólks skal endurspegla markmið og stefnu samtakanna sbr. 2. gr.

VII. Lagabreytingar og gildistaka

23. grein
Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á landsþingi.

Tillögur til lagabreytinga skulu berast framkvæmdastjórn minnst fjórum sólarhringum fyrir upphaf landsþings og skulu þær vera aðgengilegar á heimasíðu samtakanna síðustu tvo sólarhringa fyrir landsþing.

Tvo þriðju hluta atkvæða á landsþingi þarf til að lagabreytingatillögur fái samþykki.

24. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Lög síðast uppfærð á Landsþingi UJ 23. september 2023.