Hátt í hundrað ungir leiðtogar norrænna jafnaðarflokka á alþjóðlegum viðburði í Reykjavík 


Hátt í hundrað ungir leiðtogar norrænna jafnaðarflokka á alþjóðlegum viðburði í Reykjavík

Nú um helgina 15. – 17. september fer fram milliþing FNSU, Förbundet Nordens Socialdemokratiske Ungdom eða Samband ungs jafnaðarfólks á Norðurlöndunum í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum. Viðburðurinn er árlegur en í ár er það Ungt jafnaðarfólk sem heldur hann í Reykjavík.

Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrum stjórnarmeðlimur í FNSU árin 1980-1986 setti viðburðinn fyrr í dag. Aðrir þekktir aðilar sem tóku þátt í starfi FNSU á sínum tíma eru meðal annars Magdalena Andersson, Sanna Marin og Jens Stoltenberg sem eiga það öll sameiginlegt að hafa verið forsætisráðherrar og formenn flokkanna sinna.

Þetta er stór alþjóðlegur viðburður og sá stærsti sem Ungt jafnaðarfólk hefur haldið í fleiri ár. Á viðburðinn mæta um 70 leiðtogar sem eru í fararbroddi í ungliðahreyfingum jafnaðarflokka* á Norðurlöndunum og Eistlandi.

Þemað í ár er einfaldlega: „Hvað getum við lært af hverju öðru?“ og verða allar hreyfingar með erindi um stefnumál og aðferðir jafnaðarfólks sem hafa skilað árangri í hverju landi fyrir sig sem og þær áskoranir sem ögra samfélögum okkar í dag. Alþjóðasamstarf og samráð hefur sjaldan verið mikilvægara en nú þegar aukin pólarísering er áberandi og hart bakslag í réttindabaráttu mismunandi hópa á sér stað um allan heim.

Meðal þeirra leiðtoga sem staddir eru hér á landi um helgina er Astrid Willa Eide Hoem forseti AUF, ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins í Noregi og einn eftirlifenda hryðjuverkaárasarinnar í Útey. Það verður áhugavert að heyra innslag AUF, meðal annars í ljósi þess að í vikunni voru sögulegar kosningar í Noregi þar sem í fyrsta skipti í 100 ár var Verkamannaflokkurinn ekki stærsti flokkurinn í kosningum. Það mætti segja að það sé í andstöðu við þá þróun sem hefur átt sér stað í könnunum á Íslandi þar sem Samfylkingin hefur ítrekað mælst stærsti flokkurinn hér á landi með um 30% fylgi.

Ungliðahreyfingarnar eru, Ungt jafnaðarfólk frá Íslandi, Arbeidernes Ungdomsfylking frá Noregi, Sveriges Socialdemokratiska Ungdomsförbund frá Svíþjóð, Danmarks Socialdemokratiske Ungdom frá Danmörku, Sosialidemokraattiset Nuoret frá Finnlandi og Noored Sotsiaaldemokraadid frá Eistlandi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand