Manifesto/Stefnulýsing Samfylkingarinnar

Samþykkt á stofnfundi Samfylkingarinnar í Borgarleikhúsinu 4. – 5. maí árið 2000.

Samfylkingin er stjórnmálaflokkur sem aðhyllist markmið og leiðir jafnaðarstefnunnar. Stefna flokksins og störf byggjast á frelsi og lýðræði, kvenfrelsi, jafnrétti og samábyrgð. Í samræmi við stefnu sína hyggst flokkurinn og eiga náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og frjáls félagasamtök, og vinna með öðrum jafnaðarflokkum á alþjóðavettvangi.

Það er grundvallarsjónarmið Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.

Við viljum frelsi einstaklingsins sem frelsi allra einstaklinga, óháð kyni, kynþætti, trúar- og stjórnmálaskoðunum, félagslegum uppruna eða öðrum mun manna.

Við teljum að frelsi fylgi ábyrgð gagnvart frelsi annarra, ábyrgð sem ber að tryggja með mótun heilbrigðra félagstengsla. Við viljum samfélag sem geri sérhverjum einstaklingi kleift að njóta fjölbreyttra lífstækifæra og að læra um leið að veita öðrum slíkt hið sama.

Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða. Einstaklingar, samtök á vinnumarkaði og frjáls félagasamtök hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt.

Við viljum að jöfnuður verði tryggður með samhjálp. Allir þegnar samfélagsins eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri samfélagslegri þjónustu óháð efnahag. Öllum þarf að tryggja mannsæmandi lífsviðurværi óháð möguleikum til eigin tekjuöflunar. Samhjálp á aldrei að vera ölmusa og á ekki að gera þá sem hana þiggja að annars flokks samfélagsþegnum, heldur efla sérhvern einstakling til að nýta hæfileika sína sér og öðrum til hagsbóta.

Við leggjum áherslu á jafnræði kynja á vinnumarkaði, í fjölskyldulífi og hvarvetna á vettvangi samfélagsmála. Við viljum vinna gegn núverandi misrétti og skapa samfélag þar sem bæði kyn geta tekið fullan þátt í atvinnulífi og sinnt um leið uppeldi og öðru fjölskyldulífi af eðlilegri ábyrgð og ánægju.

Við viljum beita almannavaldinu með hófsemd, með áherslu á að tryggja mannréttindi og lífstækifæri allra einstaklinga og gegn hvers konar misrétti.

Fyrirheit um að hver einstaklingur geti notið sín á samleið með áherslu á efnahagslegar framfarir. Mannauður er nú lykilatriði í atvinnulífi sem og á öðrum sviðum samfélagsins. Menntun verður því leiðin til farsældar hjá einstaklingum, fyrirtækjum og þjóðum. Við viljum að menntakerfi framtíðarinnar þjóni hlutverki nýs jöfnunartækis.

 

Opin sýn til umheimsins

Tuttugasta og fyrsta öldin felur bæði í sér mikil tækifæri og miklar hættur að varast. Spilling umhverfis, fátækt, vaxandi misrétti milli þjóða og innan þeirra ásamt framleiðslu gereyðingarvopna ógna lífi fólks á jörðinni. Um leið skapa ný framþróun og ný tækni stóraukin tækifæri til þess að auðga mannlífið og bæta lífshamingju, auka jöfnuð og bæta kjör.

Þjóðir heims verða sífellt háðari hver annarri. Þær ná mestum árangri með því að vinna saman. Þess vegna verður í vaxandi mæli að byggja ákvarðanir sem varða þjóðir jafnt sem einstaklinga innan þeirra á samstarfi og samvinnu. Þetta hefur í för með sér að sérhver þjóð og samtök innan þjóða – stjórnmálaleg eða fagleg – verða að axla réttmætan hluta sameiginlegrar ábyrgðar mannkynsins alls og taka þátt í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að tryggja öryggi fólks og félagslega velferð. Sterkastur er ekki sá sem stendur einn, heldur sá sem viðurkennir að öll erum við hvert öðru háð og að öll eigum við jafnan rétt því við búum öll í einum heimi. Við verðum að þróa hæfileika okkar til þess að vinna saman og læra hvert af öðru.

Samfylkingin leggur áherslu á að Íslendingar taki virkan þátt í því fjölþjóða- og alþjóðasamstarfi sem á hverjum tíma er líklegast til þess að stuðla að friði og öryggi jafnt í nágrenni okkar og í heiminum öllum. Forsenda öryggis og friðar er lýðræði, jafn réttur allra þjóða og þjóðarbrota, vinsamleg samskipti og gagnkvæm virðing, frjáls viðskipti og frjáls för fólks. Samfylkingin vill þátttöku Íslendinga í samstarfi þjóða sem stuðlað getur að framþróun þessara stefnumála, hvort heldur er í okkar heimshluta eða á alþjóðlegum vettvangi. Samfylkingin bendir á að ýmis brýn hagsmunamál Íslendinga, til dæmis í umhverfismálum, verða ekki leyst nema í nánu alþjóðasamstarfi.

 

Jafnrétti

Allir menn eru fæddir jafnir og eiga jafnan rétt til að öðlast þroska, hagsæld og lífshamingju. Jafn réttur allra merkir ekki að alla eigi að steypa í sama mót. Þvert á móti á hver og einn rétt til þess að fá að þroska hæfileika sína, tjá skoðanir sínar, þróa með sér eigin sýn á lífið og njóta virðingar fyrir framlag sitt sem og sögu og menningararfleifð þjóðar sinnar.

Til þess að geta tryggt öllum jafnan rétt og sambærilega möguleika er nauðsynlegt að jafna skiptingu veraldlegra gæða og skapa öflugt lýðræðislegt stjórnkerfi sem getur veitt efnahagslegt og félagslegt öryggi. Samfara ber að virða frelsi einstaklingsins sem er nauðsynleg forsenda réttláts samfélags. Einstaklingurinn og samfélagið eru háð hvort öðru.

Samfylkingin leggur áherslu á jafnræði kynja á vinnumarkaði, í fjölskyldulífi og hvarvetna á vettvangi samfélagsmála. Með markvissum aðgerðum ber að vinna gegn núverandi misrétti með það markmið að skapa samfélag þar sem bæði kyn geta tekið fullan þátt í atvinnulífi og um leið sinnt uppeldi og öðru fjölskyldulífi af eðlilegri ábyrgð og ánægju. Hreyfing kvenna hefur ekki aðeins vakið athygli á kynjamisrétti heldur líka á mikilvægum gildum sem tengst hafa stöðu kvenna og því verið skipaður óæðri sess. Þau gildi viljum við hefja til virðingar í samfélaginu öllu og láta sjónarmið jafnréttis móta allar aðgerðir á vinnumarkaði og annars staðar á vettvangi þjóðmála.

Jafnrétti felur ekki aðeins í sér kvenfrelsi og jafnrétti kynja heldur einnig jafnan rétt þjóða og þjóðarbrota til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða samtíð og framtíð, — rétt einstakra hópa innan hvers samfélags, svo sem barna, aldraðra og öryrkja, til þess að njóta verndar og öryggis fyrir tilstuðlan samfélagsins og til þess að njóta virðingar og sama réttar til áhrifa og aðrir, — sömu réttarstöðu fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða og sömu félagslegu, menntunarlegu og menningarlegu réttindi fyrir nýbúa á hverjum stað og aðrir þegnar njóta.

Jafnrétti kallar líka á lýðræðislega uppbyggingu stofnana og félaga og á gegnsætt og opið stjórnkerfi. Ný tækni getur einnig stóraukið möguleika þegnanna til þess að láta í ljós vilja sinn í mikilsverðum málum, svo sem með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frelsi

Frelsi einstaklingsins er forsenda lýðræðis. Í samfélagi við aðra frjálsa einstaklinga er það réttur hvers og eins að taka ákvarðanir sem snerta eigið lífsumhverfi og þróun samfélagsins. Jafn atkvæðisréttur, trúfrelsi, málfrelsi og fundafrelsi eru nauðsynleg skilyrði þess að tryggja öllum rétt til áhrifa þegar ákvarðanir eru teknar. Raunverulegt lýðræði krefst frelsis, samfélagslegs jafnréttis og réttlætis. Til að geta nýtt frelsi sitt og geta tekið þátt í lýðræðissamskiptum þarf hver einstaklingur að hafa notið tiltekinna frumgæða. Það er samfélagsins að tryggja hverjum og einum þessi frumgæði, meðal annars með velferðarþjónustu og menntakerfi. Í okkar huga er frelsi eisntaklingsins órjúfanlega tengt samfélagi samábyrgðar.

Frelsi hvers og eins verður að skoða með tilliti til hagsmuna allra hinna. Samfylkingin styður frjálsa og heilbrigða samkeppni og aðhyllist markaðsbúskap en hlutverk ríkisvaldsins er að setja markaðsöflunum þær leikreglur sem tryggja að almannahagsmunir ríki en sérhagsmunir víki. Ríkisvaldinu ber að setja almennar leikreglur og sinna eftirliti með að þær séu virtar með almannahagsmuni fyrir augum. Það á ekki að hafa bein afskipti af eðlilegri atvinnustarfsemi einstaklinga, samtaka eða fyrirtækja – hvorki með óeðlilegum boðum og bönnum né með rekstri á samkeppnismarkaði. Í almennum atvinnurekstri er hagur neytenda best tryggður með heilbrigðri samkeppni í frjálsu markaðshagkerfi sem lýtur almennum leikreglum og opinberu eftirliti. Margs konar starfsemi er hins vegar þess eðlis að hún verður ekki seld sem vara eða þjónusta á markaði svo vel fari. Flest félagsleg þjónusta, heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir eru meðal þeirra verkefna sem um fyrirsjáanlega framtíð eru betur komin hjá ríki, sveitarfélögum og almannasamtökum en í samkeppnisrekstri einkaaðila.

Samábyrgð

Samábyrgð er hugsjón um bræðralag – vilji til þess að axla ábyrgð á högum annarra. Í því felst að skipta þannig veraldlegum gæðum að öllum sé tryggt öryggi og frelsi til farsæls lífs. Í samábyrgðinni felst hvorki forsjárhyggja né ölmusuframfærsla.

Þvert á móti þau viðhorf, að öll séum við háð hvert öðru og samfélaginu eins og samfélagið er háð hverju okkar. Samfélag, sem grundvallað er á samábyrgð og réttlátri skiptingu efnislegra gæða er í þágu hvers og eins einstaklings.

Fátækt er ógnun við frið og öryggi í heiminum, og siðferðilegur ljóður á sérhverju því samfélagi sem lætur hana viðgangast.

Fátækt og félagsleg öngstræti eiga að vera bannorð frá fyrstu dögum aldarinnar. Meginhlutverk hvers samfélags, hvort heldur samfélags þjóðar eða þjóða, er að útrýma fátækt og tryggja afkomu og öryggi allra. Nú fer bilið breikkandi milli hinna efnuðu og þeirra sem búa við fátækt og umkomuleysi. Sú öfugþróun hefur einnig orðið á vettvangi ríkustu þjóða, svo sem okkar Íslendinga.

Hlutverk Samfylkingarinnar er eins og annarra flokka jafnaðarmanna um heim allan er að snúa þessari öfugþróun við. Til þess þarf ekki aðeins að beita aðgerðum á sviði löggjafar- og framkvæmdavalds heldur einnig að hafa áhrif á hugsunarhátt fólks og gera stöðugt fleiri meðvitaða um að grundvöllur sérhvers siðaðs samfélags er samkenndin; gagnkvæm ábyrgð. Því aðeins verður manngildi í hávegum haft að mannúð sé með í för.

Auðlindir og umhverfi – Framtíðin krefst svara

Fátt ræður fremur örlögum um framtíð okkar og komandi kynslóða en hvernig staðið er að vernd umhverfis og nýtingu auðlinda. Mengun og rányrkja hafa sett framtíð mannkyns og lífríkis í hættu. Umhverfismál eru einhver allra mikilvægustu viðfangsefni samtímans.

Samfylkingin vill að Íslendingar verði öðrum þjóðum fordæmi í umgengni við landið og auðlindirnar. Hún leggur áherslu á vernd ósnortinna víðerna landsins, minja og landslags, fjölgun þjóðgarða, almannarétt og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði náttúruverndar. Samfylkingin telur að Íslendingar eigi að beita sér af alefli í alþjóðlegri baráttu gegn mengun sjávar.

Einsýn iðnvæðingarstefna fyrri tíma er úrelt. Auðlindir jarðar verður að nýta á sjálfbæran hátt með það að leiðarljósi að sem best sé fullnægt þörfum núlifandi jarðarbúa án þess að gengið verði á möguleika komandi kynslóða.

Samfylkingin telur að sameiginlegar auðlindir Íslendinga, svo sem nytjastofnar sjávar og orkan í fallvötnum og á jarðhitasvæðum, skuli vera ævarandi þjóðareign. Eðlilegt endurgjald fyrir afnot af þeim á að renna til þjóðarinnar.

Mannauður – Tímar einstaklingsfrelsis og félagshyggju

Á okkar tímum er mannauður að verða ein helsta uppspretta efnahagslegra framfara. Í flóknu markaðssamfélagi framtíðarinnar tekur framleiðslan í æ ríkari mæli mið af upplýsingabyltingunni og byggist á háþróuðu hugviti. Farsæld einstaklinga jafnt sem samfélaga byggist þessvegna á menntunarstiginu. Menntun verður því höfuðlykill að velmegun og félagslegu réttlæti. Hin hefðbundnu jöfnunartæki sem felast í arfleifð jafnaðarhreyfingarinnar, húsnæðiskerfið, almannatryggingarnar og skattkerfið, munu ekki duga ein og sjálf til þess að tryggja raunverulega jöfnun.

Leiðin til að tryggja sem flestum jöfn tækifæri í lífinu byggist því á aðgangi að menntun, og í flóknu þekkingarsamfélagi framtíðarinnar verður menntakerfið því helsta jöfnunartækið.

Ríkisvald, atvinnulíf og samtök almennings verða að sameinast um grettistak á sviði menntunar. Á Íslandi hefur mun minni hluti uppvaxandi kynslóða lokið fullgildu framhaldsnámi en í nágrannalöndum okkar, og rannsóknir og þróunarstarf hafa einnig dregist aftur úr. Ekki er síst nauðsynlegt að efla símenntun og endurmenntun. Samfylkingin stefnir að víðtæku samstarfi almannavaldsins við fyrirtæki, samtök á vinnumarkaði og önnur almannasamtök um að atvinnulífið og þjóðlífið almennt verði vettvangur sóknar til að auka þekkingu og nýta hana.

Jafnaðarmenn hafa frá öndverðu lagt áherslu á að hugsjónir manngildis skyldu ná til allra. Á fyrri tímum gátu hugmyndir um mannauð sem grundvallargildi í atvinnulífi einungis verið hugsýn um mikinn hluta samfélagsþegnanna. Þeir tímar eru liðnir. Nú eru allar forsendur til þess að almenn velferð og efnahagslegar framfarir fari saman, og í sívaxandi mæli verður frjáls þróun hvers einstaklings skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar.

Grunngildi á nýjum tímum

Jafnaðarstefnan er stjórnmálastefna í stöðugri þróun. Grundvallarviðhorf jafnaðarmanna – baráttan fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi – eru æ hin sömu en úrræði og baráttuaðferðir taka mið af aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma. Endanlegu markmiði verður aldrei náð en hvert stigið spor er spor í átt til aukinna réttinda, meira jafnréttis og aukins öryggis fyrir alþýðu manna.

Samfylkingin mun móta aðferðafræði sína og afstöðu í einstökum atriðum í samræmi við aðstæður, framfarir í þekkingu, vísindum og tækni og samkvæmt tiltækum úrræðum hverju sinni. Grunngildi okkar verða hins vegar ávallt þau sömu.

Samþykkt á stofnfundi Samfylkingarinnar í Borgarleikhúsinu 4. – 5. maí árið 2000.