[Ályktun] Yfirvofandi flótti ungs fólks

,,Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórnin stefni að inngöngu í Evrópusambandið, það er lykillinn að endurreisn Íslands. Skorað er á alþingismenn – sama í hvaða flokki þeir eru – og allan almenning að tala fyrir þessum sjónarmiðum. Sérstaklega er skorað á aðrar ungliðahreyfingar að taka þessari áskorun.“
Yfirvofandi flótti ungs fólks – UJ krefst aðgerða

Ísland hefur átt við tvöfaldan vanda að stríða, alþjóðlega lausafjárkreppu og íslenska krónu. Mikið gengisfall krónunnar hefur sett fyrirtæki og allan almenning í gríðarlegan vanda. Ofan á það bætist að Seðlabankinn var ekki nógu sterkur bakhjarl fyrir íslenska fjármálakerfið. Þessum augljósu vandamálum hefðu allir skynsamir stjórnmálamenn átt að gera sér grein fyrir en á þeim var ekki tekið. Forystumenn stjórnmálaflokka, annara en Samfylkingarinnar, höfðu ekki hugrekki og kjark til þess að mæla fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru.

Ábyrgð hinna svokölluðu útrásarvíkinga er ekki minni og hana verða þeir að axla. Endurskoða verður allt regluverk fjármálakerfisins til að koma í veg fyrir að þessar hörmungar geti endurtekið sig. Kerfið á ekki að þjóna auðvaldinu heldur vinna í þágu almennings. Mikilvægt er að kerfið sé gegnsætt og komi í veg fyrir krosseignatengsl og samtryggingarkerfi stjórnmálamanna og auðmanna. Ungt fólk og konur eiga að gegna lykilhlutverki í nýju kerfi.

Verkefni dagsins í dag er að gera sem mest úr eignum ríkisbankanna og koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum. Mikilvægt er að stjórnvöld upplýsi um hversu mikið tjón Ísland þarf að bera vegna hruns fjármálakerfisins, það er nauðsynlegt svo að endurreisn Íslands geti hafist. Staða heimilanna er slæm vegna mikilla hækkana húsnæðislána og sértækar aðgerðir eru nauðsynlegar til að stemma stigu við þeirri slæmu þróun. Þegar til lengri tíma er litið verður að frelsa almenning undan verðtryggingunni og það verður gert með upptöku evru.

Til að Ísland nái fyrri styrk er mikilvægt að opna landið svo að þekking og mannauðurinn í landinu nýtist sem allra best. Ungir jafnaðarmenn leggja mikla áherslu á að umhverfið og fiskistofnar verði ekki misnotaðir af stjórnmálamönnum sem leita að skammtímalausnum. Búa verður til fleiri stoðir undir íslenskt efnahagslíf og því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun.

Mikilvægt er að Ísland verði virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna. Einstaklingar í landinu eiga að hafa tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu hins vestræna heims í kjölfar lausafjárkreppunnar. Við megum ekki einangrast og mikilvægt er að losna við allar viðskiptahindranir bæði inn og út úr landinu. Nauðsynlegt er að eignast trúverðugan gjaldmiðil til að auðvelda fyrirtækjum að koma á viðskiptasamböndum og laða að erlenda fjárfestingu. Þessum markmiðum verður náð með inngöngu í Evrópusambandið.

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórnin stefni að inngöngu í Evrópusambandið, það er lykillinn að endurreisn Íslands. Skorað er á alþingismenn – sama í hvaða flokki þeir eru – og allan almenning að tala fyrir þessum sjónarmiðum. Sérstaklega er skorað á aðrar ungliðahreyfingar að taka þessari áskorun þar sem framtíð Íslands er undir og fólksflótti ungs fólks fyrirsjáanlegur verði ekkert að gert.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið