[Ályktun] UJ ítreka andstöðu við álver í Helguvík og lýsa stuðningi við umhverfisráðherra

Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna á landsvísu og stjórn Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum, vilja ítreka andstöðu sína við byggingu álvers í Helguvík Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna á landsvísu og stjórn Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum, vilja ítreka andstöðu sína við byggingu álvers í Helguvík og taka þar undir með Náttúruverndarsamtökum Íslands og Græna netinu, samtökum umhverfissinnaðra jafnaðarmanna. Jafnframt er lýst hundrað prósent stuðningi við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra, sem hefur gert alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu af hálfu bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs.

Í fyrsta lagi hafna Ungir jafnaðarmenn frekari uppbyggingu mengandi áliðnaðar á Íslandi og telja að landsmenn ættu að einbeita sér að því að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs í stað þess að hlaða áfram í hina yfirfullu álkörfu.

Hvað varðar Helguvík sérstaklega eru engin tæk rök fyrir að hefja þar framkvæmdir og því sýna sveitarstjórnirnar mikið ábyrgðarleysi. Mikið vantar upp á að orka til framkvæmdanna og flutningur hennar sé tryggður og í því sambandi óljóst um afstöðu nágrannasveitarfélaga. Þá hefur umhverfisráðuneytið ekki lokið við að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat fyrir álverið, orkuöflun og orkuflutninga til þess. Þessar framkvæmdir á suðvesturhorninu núna verða ekki til þess að auðvelda fyrir öðrum byggðum landsins og verða síst til þess að hraðar gangi að lækka hina fáránlegu háu vexti, verðbólgu og gengissveiflur sem íslensk heimili og fyrirtæki búa við.

Síðast en ekki síst hefur ekki verið aflað losunarkvóta fyrir mengunina frá álveri í Helguvík en Ísland hefur þar afar lítið rými til viðbótar. Það beinlínis blasir við að þarna þarf að taka í taumana og er þeim orðum beint jafnt til hlutaðeigandi sveitarstjórna, ríkisstjórnar og Alþingis.

Að lokum vilja Ungir jafnaðarmenn taka skýrt fram að þeir hafna alfarið þeirri afstöðu að gera megi Ísland að nýlendu fyrir mengandi stóriðju, á þeim forsendum að landið búi yfir endurnýjanlegum orkugjöfum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand