Ungir Jafnaðarmenn skora á ríkistjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu, af því umræðan um aðild verður að byggja á raunverulegum aðildarsamningum. Ungir Jafnaðarmenn skora á ríkistjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu, af því umræðan um aðild verður að byggja á raunverulegum aðildarsamningum. Í ljósi þess að umsjónarmaður stækkunarmála ESB hefur gefið út að samningar tækju aðeins fáeina mánuði, þar sem Ísland hafi þegar tekið upp rúmlega 75% reglugerða ESB í gegnum EES samninginn, telja Ungir jafnaðarmenn ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórn Íslands sæki um og fái þannig úr því skorið hverjir raunverulegir valkostir landsins verða.
Ef skoðaðir eru aðildarsamningar annarra þjóða og stefna ESB, er ljóst að Ísland mun sitja eitt að fiskveiðum hér við land, en eina leiðin til að loka þeirri umræðu er að fá það endanlega staðfest í okkar aðildarsamningum. Óskir forseta framkvæmdastjórnar ESB, um að Ísland komi að endurskoðun sjávarútvegsstefnu sambandsins, gefa góða hugmynd um hvaða áhrif við gætum haft á hana sem fullgildir aðilar.
Peningamálastefna Íslands virkar einfaldlega ekki. Ljóst er að upptaka evru meðfram aðild að ESB væri besta langtímalausnin á einu stærsta vandamáli íslensks efnahags, sem er íslenska krónan. Evra myndi draga úr þeim óstöðugleika sem bitnar á atvinnulífinu og auka kaupmátt íslenskra heimila. Að auki myndi hún stuðla að auknum utanríkisviðskiptum. Meirihluti þjóðarinnar er hlynntur samningaviðræðum – þar á meðal margir sem eru andvígir aðild Ísland að Evrópusambandinu. Ungir Jafnaðarmenn telja það hagsmunamál bæði þeirra sem eru fylgjandi og andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu að samningsmarkmið verði skilgreind, sótt um aðild og landsmönnum öllum gefinn kostur á að kjósa um aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.