[Ályktun] fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík

Fundur fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík 17. ágúst telur að með þeirri ákvörðun, sem tekin var á félagsfundi Vinstri-Grænna þann 15. ágúst, hafi verið bundinn endir á farsælt samstarf félagshyggjufólks um framboð í Reykjavík sem staðið hefur í nærfellt 12 ár. Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík kom saman í gær og ræddi framboðsmál flokksins. Á fundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma:

Fundur fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík 17. ágúst telur að með þeirri ákvörðun, sem tekin var á félagsfundi Vinstri-Grænna þann 15. ágúst, hafi verið bundinn endir á farsælt samstarf félagshyggjufólks um framboð í Reykjavík sem staðið hefur í nærfellt 12 ár.

Tillagan sem Samfylkingin lagði fram og Vinstri-Grænir höfnuðu tók mið af þeim grundvallarhugmyndum sem Reykjavíkurlistinn byggði á þegar í upphafi – ákveðnu jafnræði milli flokkanna, sameiginlegum borgarstjóraframbjóðanda og aðkomu stuðningsfólks sem stendur utan flokka. Með þessari tillögu var undirstrikað að Reykjavíkurlistinn er ekki bara kosningabandalag þriggja flokka heldur samstarf félagshyggjufólks um lífsgæði og samstöðu í borgarsamfélaginu.

Þegar Reykjavíkurlistinn bauð fyrst fram markaði hann söguleg tímamót í stjórnmálum á Íslandi og braut á bak aftur áratuga flokksræði Sjálfstæðisflokksins í borginni. Undir stjórn Reykjavíkurlistans voru lífsgæði í borgarsamfélaginu sett í öndvegi, þjónusta og fjárfesting í þágu fjölskyldna hafði forgang og lýðræðislegir stjórnarhættir og jafnrétti borgaranna voru leiðarljós í öllum ákvörðunum. Lagður hefur verið grunnur að lífsgæðum í Reykjavík sem jafnast á við það sem best gerist í öðrum borgum.

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík æskir þess að borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans starfi saman af fullum heilindum út kjörtímabilið.

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík er staðráðið í að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í borginni undir stjórn Reykjavíkurlistans. Á þeim grunni sem hann lagði munum við byggja hið reykvíska samfélag framtíðarinnar og takast á við ný verkefni með skipulögðum og þróttmiklum hætti. Sóknarfæri blasa við á flestum sviðum borgarrekstursins og okkar góða borg getur orðið enn betri. Samfylkingin í Reykjavík er staðráðin í að blása til nýrrar sóknar og mun stuðla að því að borgarbúum bjóðist skýr valkostur í næstu borgarstjórnarkosningum. Upphaf þeirrar vinnu verður á borgarmálaráðstefnu í byrjun september og hvetur fulltrúaráðið Samfylkingarfólk og aðra, sem vilja stuðla að öflugri og félagslega sinnaðri höfuðborg, að taka þátt í þeirri málefnavinnu. Þá samþykkir fulltrúaráði að fela stjórn fulltrúaráðsins að móta hugmyndir um hvernig standa skuli að framboðsmálum Samfylkingarinnar í borginni og leggja þær fyrir fulltrúaráðsfund í september.

Deila

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur