[SamViskan] Nýjar línur í Reykjavík

Í nýjustu útgáfu SamViskunnar er viðtal við Andrés Jónsson formann Ungra jafnaðarmanna um framboðsmál Samfylkingarinnar í höfuðborginni. Andrés var einn þriggja fulltrúa Samfylkingarinnar í viðræðunefnd flokkanna sem standa að Reykjavíkurlistanum um framboðsmál listans. Í nýjustu útgáfu SamViskunnar er viðtal við Andrés Jónsson formann Ungra jafnaðarmanna um framboðsmál Samfylkingarinnar í höfuðborginni. Andrés var einn þriggja fulltrúa Samfylkingarinnar í viðræðunefnd flokkanna sem standa að Reykjavíkurlistanum um framboðsmál listans.

_ _ _ _ _

Nýjar línur í Reykjavík

Andrés Jónsson sat í viðræðunefnd Samfylkingarinnar um framboðsmál Reykjavíkurlistans. Mikið hefur verið fjallað um þessa vinnu í fjölmiðlum en skv. Andrési þá hefur sú umfjöllun að miklu leyti byggst á getgátum og misskilningi. SamViskan leitaði til Andrésar um að skýra lesendum SamViskunnar í stuttu máli frá störfum þessarar
margumtöluðu nefndar.

Hverjir sátu í þessari nefnd og hvernig kom það til að þú varst valinn í hana?
Það er fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík sem er hinn formlegi aðili að Reykjavíkurlistanum og fer með með framboðsmál Samfylkingarinnar í borginni. Það var stjórn fulltrúaráðsins sem skipaði mig, ásamt Jóhönnu Eyjólfsdóttur og Páli Halldórssyni í þessa nefnd upphaflega til að taka þátt í könnunarviðræðum. Það var síðan fulltrúaráðið sem fól okkur þremur að fara fyrir sína hönd í formlegar viðræður þegar umboð hafði verið gerð til slíks af fulltrúaráðinu 15.júní sl.

Nú hafðir þú eins og margir fleiri ungir jafnaðarmenn lýst þeirri skoðun að Samfylkingin ætti að bjóða fram undir eigin merkjum í næstu borgarstjórnarkosningum. Var ekkert erfitt að samræma þessa skoðun þína því að starfa í nefnd sem átti að reyna að ná saman sameiginlegu framboði?
Nei. Það var nú reyndar ekki eins erfitt og ég átti von á. Páll Halldórsson, formaður fulltrúaráðsins óskaði eftir því við mig að ég kæmi með þeim í þessa viðræðunefnd þar sem að hann taldi það vera fyrir bestu að hafa einhvern málsvara okkar sjónarmiða inni á viðræðufundunum frekar en að menn færu að slást um þetta eftir á. Hinir flokkarnir ákváðu einnig að fá fulltrúa úr sínum ungliðahreyfingum inn í viðræðurnar þannig að þetta var ágætis jafnvægi í þessu. Ég hafði það að leiðarljósi í þessum viðræðum að virða það traust sem fulltrúaráðið sýndi mér og fór í það af heilum hug að kanna möguleika á R-lista framboði. Enda finnst mér að þrátt fyrir að maður hallist að sjálfstæðu framboði þá sé ekki hægt annað en að kanna fyrst hug manna til áframhaldandi samstarfs áður en það er slegið út af borðinu. Niðurstaðan var á endanum sú að VG treysti sér ekki til að koma í þetta sameiginlega framboð núna nema með því að tryggt yrði að þeirra hlutur yrði aukinn úr tveim í þrjá borgarfulltrúa eða í öllu falli að þeir fengju jafn marga fulltrúa og Samfylkingin. Reyndar virðist mér þegar ég skoða ferlið í heild að meirihluti VG hafi einfaldlega verið orðinn of óþreyjufullur gagnvart R-listanum og hefði burtséð frá mönnun listans á endanum alltaf kosið að fara sér.

Nú hefur mikið verið gert úr því í fjölmiðlum að þessar viðræður hafi staðið allt of lengi. Hvað segir þú um þetta?
Það er reyndar mjög orðum aukinn sá tími sem hefur farið í þessa fundi. Við ákváðum í upphfi. að hafa fundina stutta og snarpa. Við hittumst jafnan í 60-75 mínútur í senn, oftast vikulega. Við tókum reyndar tvisvar lengra hlé og svo voru fyrstu fjórir fundirnir svona meira kynningar- og könnunarfundir. Mér skilst að við höfum hist í allt í 13 skipti og höfum við þá líklega eytt í þetta
rúmum 20 klst. í heildina þegar talinn er með maraþonfundurinn undir lokin. Það segir mér reyndara fólk í svona viðræðum að það þyki nú ekki mikið. Viðræður um stofnun Samfylkingarinnar og Reykjavíkurlistans á sínum tíma tóku víst miklu lengri tíma. Bara stofnun fulltrúaráðs flokksins kostaði lengri viðræður en við fórum í núna.

Hvernig líst þér á framhaldið? Nefnt hefur verið að Samfylkingin fari í kosningabandalag með Framsóknarflokknum og fleiri aðilum.
Mér líst vel á þau tækifæri sem bíða okkar í kosningunum. Mín tillaga er sú að Samfylkingin bjóði fram eigin lista í kosningunum, undir nafninu Samfylkingin og óháðir og með listabókstafnum S. Til að velja á þennan lista haldi Samfylkingin opið prófkjör meðal borgarbúa. Allir mega bjóða sig fram sem eru annaðhvort í Samfylkingunni, eða eru í engum öðrum stjórnmála.okki. Allir Reykvíkingar mega hins vegar kjósa í prófkjörinu. Ég tel fráleitt að fara að púkka sérstaklega upp á Frjálslynda.

Frjálslyndir hafa ekkert fylgi í Reykjavík (eru t.d. ekki með neinn þingmann í Reykjavík og mælast með kringum 1-2% oft í könnunum hér). Ef frjálslyndir vilja koma til liðs við Samfylkinguna, þá bara ganga þeir í Samfylkinguna, eða gerast óháðir og skrá sig í prófkjörið. Svo einfalt er það að mínu viti.

Hvað framsóknarmenn varðar þá held ég að það sé Samfylkingunni ekki til framdráttar að fara að bjóða fram með þeim einum (og kannski óháðum). Skil ekki almennilega hverju bættari við yrðum við það. Framsókn er óvinsæli flokkurinn þessa dagana. Afhverju ættum við að fara að binda trúss okkar við hann með þessum hætti, umfram alla aðra flokka? S+B framboð yrði líka alltaf stimplað sem hræðslubandalag, sbr. Alþýðu- og Framsóknarflokkur 1956. Fyrir utan að ég held að B+S-framboð myndi aldrei fá hreinan meirihluta í borginni, nema eitthvað verulega undarlegt gerðist. Hver er þá tilgangurinn með sameiginlegu framboði þessara tveggja flokka? Myndi skapa óþægilega stöðu eftir kosningar við hugsanlega meirihlutamyndun. Og auk þess myndi slíkt sameiginlegt framboð væntanlega verða fyrir hörðum skotum frá VG, sem væru þá að reyna að sanna að það hafi verið rétt hjá þeim að bjóða fram sjálfir. Miklu harðari skotum en ef S og B færu fram hvor í sínu lagi.

Nú er að verða uppstokkun í borgarpólitíkinni. Ég held að við ættum að taka þátt í þeirri uppstokkun til fulls og láta reyna á okkar eigið fylgi. Smyrja okkar eigin maskínu. Virkja hverfafélögin og nýtt Samfylkingarfólk. Ná hámarksfjölda Samfylkingarfólks inn í borgarstjórn. Ekki fórna sætum fyrir framsókn eða frjálslynda, sem annars hefðu verið skipuð Samfylkingarfólki. Ekki binda hendur okkar um of í meirihlutamyndun.

Nú hefur það komið ítrekað fram hjá forystumönnum R-listans að enginn málefnaágreiningur sé uppi milli flokkanna þriggja. Getur þetta staðist?
Jú, vissulega veldur það manni nokkrum áhyggjum ef kjörnir fulltrúar treysta sér ekki til að benda á neinn áherslumun milli þessara flokka. Þetta eru jú ólíkir flokkar með ólíkar stefnu. Þeir aðhyllast hver sína stjórnmálastefnu eins og sést meðal annars á því að þeir eru aðilar að ólíkum alþjóðasamtökum stjórnmálaflokka. Það á að mínu mati ekki að vera hægt að rugla saman þeim grundvallargildum sem aðskilja þessa þrjá flokka. Ég held að það sem átt sé við sé að málefnaágreiningur um þau verkefni sem Reykjavíkurlistinn hefur sett á dagskrá hafi ekki verið teljanlega mikill. En hvað þá um verkefnin sem ekki hafa komist á dagskrá?

Heldur þú að framboð Samfylkingarinnar undir eigin merkjum breyti þar einhverju um? Nú hefur þú einmitt sagst vilja stefna að áframhaldandi félagshyggjustjórn eftir kosningar?
Jú, það er rétt. En ég sé einmitt að með því skapist tækifæri til ákveðinnar hugmyndafræðilegar endurnýjunar. Sumir vilja meina að nú verði hægt að endurskoða og forgangsraða upp á nýtt þessum málum. Einnig hefur sú skoðun komið fram að í sumum málum hafi t.d. verið gerðar of miklar málamiðlanir milli R-listaflokkana, t.d. má þar nefna flugvallarmálið. Þar er um ræða mál sem Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík hafa t.d. gagnrýnt að hafi ekki verið rekið af nógu miklum krafti. Afstaða framsóknarmanna spilar þar að okkar mati talsvert inn í enda er stór meirihluti þeirra andvígur því skv. könnunum að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkur. Það má líka spyrja hver sé þáttur framsóknarmanna í því að hrúga niður bensínstöð, samgöngumiðstöð o.fl. mannvirkjum inn á það svæði sem við höfum stefnt að skipuleggja í heild, þ.e.a.s. Vatnsmýrina. Ungir jafnaðarmenn hafa undanfarin tvö ár bent á ýmis fleiri atriði þar sem þeir eru ósammála stefnu Reykjavíkurlistans. UJR taldi t.d. á sínum tíma að fara ætti aðra leið við færslu Hringbrautarinnar, UJR gerði einnig athugasemdir við hækkanir á leikskólagjöldum sem komu hart niður á skólafólki, gagnrýndi fjáraustur í ýmir gæluverkefni Orkuveitunnar og kallaði eftir lausnum á umferðarvandanum. Við höfum viljað að skólafólk fái ókeypis í Strætó, að raunverulegt íbúalýðræði verði aukið og að komið verði til móts við húsnæðisvanda ungs fólks. Það er því óhætt að segja að málefnaágreiningur sé nokkur innan R-listans, þ.e. ef menn vilja telja unga jafnaðarmenn með í þeim hópi.

Nú hefur verið sagt að málefnin hafi alls ekkert verið rædd á fundum viðræðunefnda flokkana? Hefði ekki verið full ástæða til þess?
Jú, enda er þetta beinlínis rangt að við höfum ekki verið að ræða málefnin. Það er eins og þetta sé eitthvað sem fjölmiðlar hafi bitið í sig að við höfum verið í einhverjum endalausum hrossakaupum. Það var ekki svo. Ef ég man rétt þá fóru fjórir fyrstu fundirnir í það að ræða málefni og kynnti ég þar meðal annars áherslur ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Síðan var farið á sérstökum fundum yfir málefnasamninginn sem gerður var fyrir síðustu kosningar og sérstök og umfangsmikill umræða var jafnframt um lýðræðismál og skort á virku baklandi fyrir Rlistann. Menn voru ekki sammála um allt.

Það hefði þó án efa verið hægt að komast að einhverri niðurstöðu um þennan málefnágreining við hina flokkana í aðdraganda kosningabaráttunar. Það kom þó ekki til þess þar sem að Vinstri grænir treystu sér ekki til að bjóða fram undir þeir formerkjum sem við settum sem skilyrði, þ.e. að borgarbúar kæmu þar að með virkum hætti að vali listans og uppröðun.

Hvað missum við með andláti Reykjavíkurlistans?
Það eru ýmsir kostir við það að hafa tvo skýra valkosti í borgastjórn og Reykjavíkurlistinn var jú stofnaður til að vera valkostur við Sjálfstæðisflokkinn. En það er líka hollt og lýðræðislegt eftir 12 ára valdatíma eins kosningabandalags að gefa kjósendum kost að kjósa milli flokkana sem staðið hafa að R-listanum og að þeir geti þá gefið borgarfulltrúum skýrari skilaboð um hvaða stefnuáherslur þeir vilja í borginni. Eins og menn sjá í löndum með tveggja flokka kerfi (eins í BNA t.d.) þá leiðir slík staða óneitanlega til aukinna málamiðlanna, miðjumoðs og stundum verður jafnvel erfitt fyrir kjósendur að sjá mun á milli þessara stjórnmálafylkinga. Það er hins vegar staðföst trú mín að ef Samfylkingin fer af krafti í þessa kosningabaráttu með öfluga forystu og endurnýjaðan málefnapakka þá verði það tveir turnar sem berjast muni um borgina, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Það verður þá jafnaðarstefnan í skarpri og ómengaðri mynd sem ná mun eyrum reykvískra kjósenda næsta vor og það getur ekki verið slæmt fyrir framtíð Samfylkingarinnar. Ekki síst þegar litið er til Alþingiskosninga vorið 2007.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand