Ýmsu enn ósvarað

,,Hér ber að fagna því sem vel er gert. Miðað við framkomu stjórnvalda á undanförnum árum gagnvart menntun almennings á öllum stigum, fer þetta fram úr björtustu vonum þeirra sem hvað best hafa fengið að kynnast viðmóti stjórnvalda, eða öllu heldur viðmótsleysi. Ég ítreka að fjárveitingar af þessu tagi eru stjórnvöldum til fyrirmyndar. Þó er mörgum spurningum enn ósvarað.“ Segir Dagbjört Hákonardóttir í grein dagsins á Pólitík.is.

Segja má að það hafi komið mörgum að óvörum að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, svaraði kalli HÍ um frekari fjárframlög, en fjárskortur hefur verið skólanum þungur baggi í ótalmörg ár, en sjaldan jafn mikill og nú. Eins og flestum er nú kunnugt var rannsóknar- og kennslusamningur ritaður af ráðherra og rektor HÍ, Kristínu Ingólfsdóttur, sem tryggði Háskóla Íslands 300 milljón króna hækkun á fjárframlögum til skólans fyrir árið 2007, auk þess sem til ársins 2011 munu framlög til skólans hækka um 3,5% til að mæta fjölgun nemenda, sem og á sama tíma munu fjárveitingar til rannsókna hækka um 640 milljónir.


Hér ber að fagna því sem vel er gert. Miðað við framkomu stjórnvalda á undanförnum árum gagnvart menntun almennings á öllum stigum, fer þetta fram úr björtustu vonum þeirra sem hvað best hafa fengið að kynnast viðmóti stjórnvalda, eða öllu heldur viðmótsleysi. Ég ítreka að fjárveitingar af þessu tagi eru stjórnvöldum til fyrirmyndar. Þó er mörgum spurningum enn ósvarað.


Í fyrsta lagi hefur menntamálaráðherra ekki lýst eindreginni afstöðu sinni gagnvart upptöku skólagjalda við Háskóla Íslands og vel mætti túlka fyrrnefnda fjárveitingu sem staðfestingu á því að stjórnvöld hyggjast leita annarra leiða en að seilast í vasa stúdenta þegar kemur að fjármögnun HÍ. Þó hafa engin svör komist í dagsljósið, né heldur áform um að lækka hið ólögmæta skráningargjald sem stúdentar HÍ borga árlega, sem í dag er um 45 þúsund þúsund krónur og gerir júní-launaseðla ófárra stúdenta heldur magurri en þeir ættu að vera.


Ennfremur eru málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í ólestri að því er t.d. varðar nauðsynlega hækkun á grunnframfærslu námsmanna. Sem stendur er nauðsynlegt að staðfesta vilja stjórnvalda um að létta stúdentum vinnubyrði á meðan námi stendur, en formaður stjórnar LÍN, Gunnar I. Birgisson, hefur ítrekað lýst því yfir að það sé æskilegt fyrirkomulag að stúdentar vinni meira með námi til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Enn finnast hvergi blikur á lofti að því er snertir hækkun námslána eða frekari hlunninda gagnvart stúdentum.


Það er þó fagnaðarefni að sjá áþreifanlegan árangur hagsmunabaráttu stúdenta, sem í krafti aðferðafræða Rösku hafa þrýst á stjórnvöld með miklum mætti og um leið lagt forystu HÍ lið að því er snertir einarða kröfu um frekari fjárframlög. Það gekk og eftir, sem hlýtur að vera staðfesting á því að hin pólitíska grasrót stúdenta hefur þýðingarmikla rödd sem kemst til eyrna stjórnvalda.


Það er fjarri lagi að fullyrða, að menntamál séu góðum horfum á Íslandi. Sem fyrr segir er mikilvægt að hrósa stjórnvöldum fyrir þann stuðning sem þau veita Háskóla Íslands með áðurnefndum fjárveitingum, en jafnframt minna á að víða er pottur illa brotinn. Ef ætlunin er að koma Háskóla Íslands í fremstu röð er þörf á langtímamarkmiðum sem horfa lengra en til 2011.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand