Menntun er bæði hagur einstaklingsins og alls samfélagsins. Hún er undirstaða framfara í landinu og stuðlar að auknum hagvexti. Með tilkomu upplýsingasamfélagsins og alþjóðavæðingarinnar verður menntun helsta vopnið í baráttunni við að auka velferð okkar og víðsýni. Við viljum því stuðla að háu menntunarstigi þjóðarinnar. Tekjumissir og aumingjaleg námslán hafa sem slík nógu letjandi áhrif á fólk til að fara í háskólanám þó að skólagjöld bætist ekki líka við. Nær væri að menntamálaráðherra yki framlög til háskóla landsins þeim til eflingar. Um leið er að sjálfsögðu nauðsynlegt að skoða hvort hagræða megi betur innan þeirra. Nýlega birtist grein á frelsi.is, sem ber heitið ,,Hef ég rétt til að brjóta á þér?” Greinin er í anda Heimdellinga, í anda ýktrar og skammsýnnar einstaklingshyggju. Sú einstaklingshyggja felst í því að hver og einn eigi aðeins að hugsa um sjálfan sig án þess að taka tillit til þess hvað er til hagsbóta fyrir aðra og samfélagið. Þar er sagt að fólk sem kýs að eignast ekki börn sé neytt til að borga oft á tíðum háar upphæðir, í formi skatta, svo að foreldrar geti verið hjá börnunum sínum og er þá verið að vísa til fæðingarorlofs. Einnig er talað um að fólk sem hafi ekki áhuga á að stunda háskólanám sé neytt til að borga nám annarra. Á svipuðum nótum er ályktun Heimdallar frá því í mars sl. Þar segir að ,,eðlilegt [er] að fólk greiði fyrir menntun sína þar sem ábatinn er einstaklingsins”. Í ályktuninni kemur fram afar þröngt sjónarhorn sem margir sjálfstæðismenn virðast sekir um. Þeir virðast ekki átta sig á að gott samfélag fer saman við hag einstaklingsins. Segja má að í greininni birtist í hnotskurn sú hugsun, sem margir hafa áhyggjur af, að sumt ungt fólk sé svo heltekið af hugtakinu ,,frelsi” í formi einstaklingshyggju að samlíðan þeirra og umhyggja fyrir velferð þegna samfélagsins víkur.
Menntun er samfélaginu öllu til hagsbóta
Menntun er bæði hagur einstaklingsins og alls samfélagsins. Hún er undirstaða framfara í landinu og stuðlar að auknum hagvexti. Með tilkomu upplýsingasamfélagsins og alþjóðavæðingarinnar verður menntun helsta vopnið í baráttunni við að auka velferð okkar og víðsýni. Við viljum því stuðla að háu menntunarstigi þjóðarinnar. Tekjumissir og aumingjaleg námslán hafa sem slík nógu letjandi áhrif á fólk til að fara í háskólanám þó að skólagjöld bætist ekki líka við. Nær væri að menntamálaráðherra yki framlög til háskóla landsins þeim til eflingar. Um leið er að sjálfsögðu nauðsynlegt að skoða hvort hagræða megi betur innan þeirra.
Hlúum að þegnum framtíðarinnar
Sívaxandi einstaklingshyggju fylgja auknar kröfur og álag á fólk sem of margt virðist farið að forgangsraða þannig að uppeldið gleymist. Sumar fjölskyldur eru í upplausn og það dregur stöðugt úr barneignum á Íslandi. Engri þjóð farnast vel sem ekki leggur rækt við börnin. Þau eru framtíðin, jafn klisjukennt og það kann að hljóma. Það kostar sitt fyrir fjölskyldur og einstaklinga að ala upp börn í dag og því er nauðsynlegt að veita þeim margvíslegan stuðning (t.d. fæðingarorlof, barnabætur og niðurgreidda dagvist). Það að samfélagið fjárfesti í börnum og ungmennum er fjárfesting sem skilar miklum arði þegar til lengri tíma er litið, hvort sem sú fjárfesting er í formi menntunar eða í að auðvelda foreldrum að ala upp börn sín.
Leit að jafnvægi á milli einstaklingshyggju og samfélagshyggju
Ég hef mikla trú á frelsi einstaklingsins til orða og athafna og rétti hans til að velja og taka ákvarðanir um líf sitt. Það er bæði honum og samfélaginu til hagsbóta. En öllu frelsi fylgir ábyrgð. Einstaklingshyggjan má ekki ein ráða ríkjum enda hefur hún leitt til efnishyggju og sjálfhverfu hjá ungu fólki sem samkvæmt rannsóknum, m.a. í Þýskalandi og Bandaríkjunum, helst í hendur við minna umburðarlyndi gagnvart öðrum, s.s. útlendingum, innflytjendum og öðrum minnihlutahópum.
Ljóst er að skapa þarf næringarríkan jarðveg svo einstaklingurinn fái að rækta sjálfan sig, nýta hæfileika sýna til fullnustu og taka virkan þátt í samfélaginu með virðingu og tillitssemi fyrir öðrum að leiðarljósi. Það er m.a. gert með því að búa vel að fjölskyldunum í landinu og tryggja auðveldan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Með því fær sérhver einstaklingur tækifæri til að sýna hvað í honum býr og til að njóta andlegra og efnislegra gæða óháð efnahag fjölskyldu sinnar. Þetta hefur Samfylkingin að leiðarljósi með því að leita jafnvægis á milli einstaklingshyggju og samfélagshyggju sem er öllum þegnum samfélagsins til hagsbóta.