Ödipusardómur

Enginn þóttist vita eitt né neitt og studdu hvorn annan í því að allt væri þetta löglegt og ákærurnar misskilningur einn sem byggðist á rangtúlkunum fáfróðs almúgans sem skipti sér af málum sem honum kæmi ekki við. Til vitnis kölluðu þeir hóp misfróðra manna eins og Hannes Hólmstein, Jón Steinar og Þór Vilhjálmsson. Allir báru þeir vitni um að þjóðin væri of heimsk til þess að taka ákvarðanir sjálf og að lýðræði væri aðeins í gildi ef því bæri saman við skoðanir Davíðs og félaga. Saksóknari kallaði engan til vitnis en lét þess í stað verk mannanna þriggja tala sínu máli. Eftir lokaávörp og örstutt hlé kom Ödipus aftur inn í salinn og gerði sig tilbúinn til að lesa upp dómsúrskurð sinn. Ödipus
Þar sem ég ligg og nýt útfjólublárra geisla sólarinnar við strendur S-Portúgals hef ég stytt mér stundir við að rifja upp kynni mín af einum mesta snillingi 20.aldar bókmennta, Milan Kundera. Þar sem ég lá á ströndinni og reyndi að útiloka óþægindin sem fylgdu því að sandurinn gerði innrás upp á bekkinn minn, ofan á handklæðið mitt og inn í fötin mín, naut ég þess að lesa bókina: Óbærilegur léttleiki tilverunnar.

Þeir sem til bókarinnar þekkja muna eflaust eftir bréfinu/greininni sem Tómas, aðalpersóna sögunar, skrifaði. Bréfinu sem reyndist honum og lífi hans svo afdrifaríkt. Í þessu bréfi sem því miður kemur aldrei orðrétt fram í sögunni ber hann saman söguna um Ödipus, sem flestir þekkja nú í megindráttum, og réttarhöld yfir yfirmönnum tékkneska kommúnistaflokksins sem selt höfðu sjálfstæði Tékklands til Stalíns en héldu því allir fram að þeir hefðu ekki áttað sig á því hvað þeir voru að gera, þeir hefðu bara fylgt skipunum frá Moskvu. Lesandinn, í þessu tilviki ég, er skilinn eftir í óvissu um hvað stóð í þessu bréfi. Ég get mér þess þó til, að hann hafi borið saman annarsvegar, samviskusemi og eða réttlætiskennd Ödipusar, sem knúði hann til að stinga úr sér augun þegar hann komst að því hvaða glæp hann hafði framið, sem eins og Freud gerði ódauðlegt var að drepa föður sinn og giftast móður sinni. Svo ímynda ég mér að hann hafi borið þetta saman við samviskuleysi og heigulhátt yfirmanna tékkneska kommúnistaflokksins sem ekki voru nógu miklir menn til að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Á sakabekk
Það var með þetta í huga sem ég féll í djúpann svefn með sjávarnið og köll fótbolta stuðningsmanna í eyrum. Í draumi mínum sá ég réttarhöld en það voru ekki yfirmenn tékkneska kommúnnistaflokksins sem sátu á sakabekk og tíminn var ekki miðbik 20. aldar. Á bekknum sátu Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og Halldór Ásgrímsson, árið 2004. Ödipus stóð upp og kvað sér hljóðs. Hann las upp ákærurnar eina af annarri og voru þær gróflega svona:

– Davíð var ákærður fyrir að kasta hlutleysi Íslendinga fyrir lítið, fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð, fyrir að stuðla að morðum á óbreyttum borgurum, fyrir brot á Genfarsáttmálanum, fyrir að svíkja öryrkja, fyrir grófa tilraun til að afnema málfrelsi, fyrir vanvirðingu og skeytingarleysi gagnvart sjálfstæðum embættum og stofnunum og fyrir valdhroka.
– Björn var ákærður fyrir stuðning við afnám málfrelsis, fyrir að ógna öryggi hins almenna borgara, fyrir að grafa undan dómsvaldinu, fyrir kynþáttafordóma, fyrir brot á friðhelgi einkalífsins, fyrir almenna heimsku og hroka.
– Halldór var ákærður fyrir að kasta hlutleysi Íslendinga fyrir lítið, fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð, fyrir að stuðla að morðum á óbreyttum borgurum, fyrir brot á Genfarsáttmálanum, fyrir að kokgleypa einkafrumvörp forsætis- og dómsmálaráðherra, fyrir að selja sannfæringu sína og loforð fyrir valdastól.

Ha, ég?
Enginn þóttist vita eitt né neitt og studdu hvorn annan í því að allt væri þetta löglegt og ákærurnar misskilningur einn sem byggðist á rangtúlkunum fáfróðs almúgans sem skipti sér af málum sem honum kæmi ekki við. Til vitnis kölluðu þeir hóp misfróðra manna eins og Hannes Hólmstein, Jón Steinar og Þór Vilhjálmsson. Allir báru þeir vitni um að þjóðin væri of heimsk til þess að taka ákvarðanir sjálf og að lýðræði væri aðeins í gildi ef því bæri saman við skoðanir Davíðs og félaga. Saksóknari kallaði engan til vitnis en lét þess í stað verk mannanna þriggja tala sínu máli. Eftir lokaávörp og örstutt hlé kom Ödipus aftur inn í salinn og gerði sig tilbúinn til að lesa upp dómsúrskurð sinn.

,,Jafnvel þótt blindur sé, sé ég þó að þið hafið brotið landslög, stjórnarskrá, leikreglur lýðræðis og síðast en ekki síst hafið þið brotið gegn vilja þjóðar ykkar og þar með brugðist þeirri siðferðislegu skildu sem þið berið sem ráðherrar í ríkisstjórn lýðræðisríkis.

Að sinna refsingu við hæfi var ærin þraut þar sem fátt eða ekkert getur bætt fyrir brot ykkar. Það að stinga úr ykkur augun væri allt of væg refsing þar sem þið eruð fyrir löngu orðnir blindir.”

Áður en hann náði að ljúka máli sínu hrökk ég upp við það að strandbolti skaust í hausinn á mér. Þetta hafði þá bara verið draumur eftir allt saman, eða hvað?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið