Reykjavík, 04.12.2020
Yfirlýsing Ungra jafnaðarmanna vegna dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi
Ungir jafnaðarmenn kalla eftir því að Sigríður Á. Andersen segi af sér formennsku í utanríkismálanefnd Alþingis í ljósi niðurstöðu dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Guðmundar A. Ástráðssonar.
Í einróma niðurstöðu dóms yfirdeildar MDE er skýrt kveðið á um að íslenska ríkið hafi brotið 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um að skipan dómstóls skuli ákveðin lögum samkvæmt. Niðurstaða þessi staðfestir að í starfi sínu sem dómsmálaráðherra gróf Sigríður Á. Andersen alvarlega undan íslensku réttarríki með ólögmætri ákvörðunartöku ráðherra við skipan dómara.
Sú staða sem dómurinn dregur skýrlega fram, er að þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins braut lög og í kjölfarið samþykkti löggjafinn í umboði Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks ólögmætar tillögur hennar. Valdabrölt Sigríðar Á. Andersen er ekki einungis skattgreiðendum dýrkeypt, heldur hefur það grafið undan trausti almennings á íslensku dómskerfi, skapað réttaróvissu og niðurlægt íslenskt stjórnkerfi á alþjóðavettvangi. Sem dómsmálaráðherra breytti Sigríður Á. Andersen ferlinu um skipan Landsréttardómara í óafsakanleg pólitísk hrossakaup og braut þannig grundvallarreglu réttarríkisins með vafasömum pólitískum afskiptum.
Á tímum þegar réttaröryggi, þrískipting ríkisvalds og sjálfstæði dómsvaldsins eiga undir högg að sækja er það fullkomlega óboðlegt að ráðherra sem gerðist brotlegur í starfi með þeim hætti sem Sigríður Á. Andersen gerði sé formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Þá hafa viðbrögð hennar við dómnum verið óásættanleg enda grafa þau ekki aðeins undan Mannréttindadómstólnum og mikilvægi hans fyrir réttarvernd íslenskra borgara, heldur hefur hún einnig grafið undan gildi dóma Hæstaréttar sem staðfestu að hún hafi brotið gegn íslenskum lögum við skipunina. Slík orðræða kjörinna fulltrúa, fulltrúa löggjafarvalds og fyrrum fulltrúa framkvæmdavalds er beinlínis hættuleg í lýðræðisríki og verður að fordæma. Dómurinn staðfestir að Sigríður Á. Andersen sé ófær um að starfa í þágu almannahagsmuna og sé ekki treystandi sem valdhafa.
Allt frá samþykki þáverandi stjórnarflokka á umdeildum tillögum Sigríðar Á. Andersen hefur staða, ímynd og sjálfstæði íslensks dómskerfis hlotið álitshnekki, en Mannréttindadómstóllinn sá sérstaka ástæðu til að tiltaka að hafi eingöngu notið stuðnings þingsfólks eftir ákveðnum flokkslínum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nú val um trúverðugleika Íslands sem réttarríki þegar einróma niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstólsins er orðin ljós. Ísland skrifaði undir Mannréttindasáttmála Evrópu og er fullgildur aðili að Evrópuráðinu. Samkvæmt 46. gr. Mannréttindasáttmálans heita samningsaðilar því að hlíta dómum MDE og ber íslenska ríkinu að tilkynna ráðherranefnd Evrópuráðsins hvernig eigi að bregðast við. Viðbragðsleysi og virðingarleysi í garð MDE gæti alvarlega skaðað ímynd íslenskrar stjórnskipunar á alþjóðavettvangi enn frekar og grafið undan trausti evrópskra samstarfsríkja okkar. Við skorum á núverandi stjórnarflokka að axla ábyrgð, bregðast við með afgerandi hætti og koma í veg fyrir að slíkt brot geti endurtekið sig.