Á aðfangadag bárust fregnir af því að lögregla hefði staðið fjármála- og efnahagsráðherra að því að brjóta sóttvarnarreglur með viðveru í 40-50 manna samkvæmi í Ásmundarsal kvöldið áður. Gildandi samkomutakmarkanir kveða á um að mest 10 manns megi koma saman í lokuðu rými. Sóttvarnaryfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að almenningur virði þessar reglur og ríkisstjórn Íslands sömuleiðis.
Í afsökunarbeiðni ráðherra sem birtist á vefmiðlum daginn eftir gerði ráðherra tilraun til þess að draga úr alvarleika brotsins en segir þó að lögregla hafi réttilega leyst upp samkvæmið. Fjármála- og efnahagsráðherra ritar jafnframt að hann hafi aðeins verið í samkvæminu í um 15 mínútur en fyrir liggur að tíminn sem ráðherra varði í samkvæminu var nær 40 mínútum. Þá varpar ráðherra eigin ábyrgð yfir á eigendur salarins, vinahjón sín og eiginkonu. Fjármála- og efnahagsráðherra ber sjálfur ábyrgð á að hafa brotið þær sóttvarnarreglur sem í gildi eru fyrir alla landsmenn, ráðamenn sem og almenna borgara, og er umræða um annað afvegaleiðing og útúrsnúningur.
Formenn samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hafa lýst yfir vonbrigðum en lofa áframhaldandi stuðningi við Bjarna Benediktsson. Engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram á því hvað forsætisráðherra meinar þegar hún segir athæfi Bjarna skaða stjórnarsamstarfið en heitir um leið áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Ljóst er að meðvirknin er allsráðandi í þeim flokkum sem mynda ríkisstjórn með flokki Bjarna Benediktssonar. Jafnframt er skýrt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi virt sóttvarnarreglur eigin ríkisstjórnar að vettugi og með gjörðum sínum gefa þeir í skyn að reglur sem gilda eiga um almenning telji þeir ekki gilda um sig. Samstarfsflokkar hamra á mikilvægi samstöðu þegar gjörðir ráðherra þeirra senda allt önnur skilaboð.
Í miðjum heimsfaraldri, þegar reynir á samstöðu, þegar ástvinir færa fórnir í þágu almennings, landsmenn neita sér um að hitta vini og ættingja, og venjulegt fólk alls staðar á landinu gerir allt sem í þess valdi stendur til að lágmarka líkur á hópamyndun og smiti, er virðingarleysi ráðherra óafsakanlegt. Þegar heilbrigðisstarfsfólk, sjálfboðaliðar og fólk í framlínunni hefur lyft grettistaki til að vinna bug á veirunni bítur fjármálaráðherra, sem sjálfur brýtur sóttvarnarreglur, höfuðið af skömminni með því að segjast verða að gegna embætti áfram til að ráða niðurlögum veirunnar. Hugmyndir Bjarna Benediktssonar um eigin mikilvægi lýsa skorti á raunveruleikatengingu og eru enn ein staðfesting þess að honum er ekki treystandi til að fara með opinbert vald.
Á undanförnum mánuðum hafa þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins grafið markvisst undan sóttvarnarreglum og trúverðugleika þeirra, annars vegar með því að virða sjálfir reglurnar að vettugi og hins vegar með órökstuddum og illa fram settum áróðri gegn sóttvarnarráðstöfunum. Brot Bjarna Benediktssonar á sóttvarnalögum í aðdraganda jóla er enn ein staðfesting þess að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að koma nálægt landstjórninni á tímum mannskæðs heimsfaraldurs.
Ungir jafnaðarmenn hvetja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn tafarlaust og leita eftir stuðningi ábyrgra stjórnarandstöðuflokka við minnihlutastjórn fram að næstu Alþingiskosningum sem verði flýtt og haldnar næsta vor. Sýnum samstöðu — gefum Sjálfstæðisflokknum frí og ábyrgum stjórnmálaflokkum vinnufrið til að ljúka baráttunni við veiruna og efnahagsáhrif hennar.