Ríkisstjórn Íslands gerði dýrkeypt mistök í glímunni við efnahagsáhrif kórónuveirunnar í vor og forgangsraðaði í þágu vel stæðra á kostnað viðkvæmra hópa. Nú verða þingmenn félagshyggjuflokka og samtök launafólks að taka höndum saman um að afstýra frekari hagstjórnarmistökum og knýja fram breyttar áherslur við landstjórnina.
Tekjufalls- og viðspyrnustyrkir auk annarra úrræða sem kynnt hafa verið að undanförnu vekja vonir um að ríkisstjórnin sé loksins að ná betri tökum á efnahagsvandanum. Löngu tímabær hækkun grunnatvinnuleysisbóta, efling virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur og aðgerðir til að draga úr skerðingum hjá barnafólki og örykjum eru líka mikilvægur áfangasigur fyrir verkalýðshreyfinguna, Samfylkinguna og fleiri sem kallað hafa eftir slíkum aðgerðum mánuðum saman og vísbending um að enn sé lífsmark í félagshyggjutaug Vinstri grænna og Framsóknarflokksins.
Þessi jákvæðu skref afsaka þó ekki þann skaða sem unninn var með ómarkvissum og fálmkenndum aðgerðum í vor, fálætið gagnvart viðkvæmum hópum og hið algjöra ráðaleysi í atvinnu- og velferðarmálum sem birtist í fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára. En hvað fór úrskeiðis og hvernig er hægt að snúa þróuninni við, lágmarka skaðann mánuðina fram að kosningum?
AUGLÝSING
Button
Hik og hálfkák
Rúmlega hálft ár er liðið síðan fyrstu smit kórónuveiru greindust á Íslandi og mesti efnahagssamdráttur frá upphafi mælinga skall á. Það vakti undrun strax í byrjun að ríkisstjórn Íslands hreyfði sig hægar og gerði minna til að milda höggið heldur en ríkisstjórnir nágrannalandanna. Meðan ríkisábyrgðarlánum og rekstrarstyrkjum var dælt út til þúsunda fyrirtækja í Evrópu tók marga mánuði á Íslandi að koma slíkum úrræðum í gagnið. Þetta hálfkák og hik jók á óvissuna fyrir launafólk, fyrirtæki og fjárfesta einmitt þegar það var brýnna en nokkru sinni fyrr að beita ríkisvaldinu sem kjölfestuafli og mótvægi við hina gríðarlegu óvissu kórónukreppunnar. Þetta er ekki eftiráspeki, enda var margsinnis bent á að íslenska hagkerfið væri sérstaklega berskjaldað fyrir efnahagsáföllum faraldursins, m.a. vegna gríðarlegs vægis ferðaþjónustu og tengdra greina í íslensku atvinnulífi. Það var ekki nokkur ástæða til að ætla að hér þyrfti hóflegri björgunaraðgerðir heldur en í nágrannalöndunum.
Björgunarpakkar upp á 230 milljarða voru kynntir á hátíðlegum blaðamannafundum en aðeins brot af þeirri innspýtingu skilaði sér út í hagkerfið þegar þörfin var mest. Fólk og fyrirtæki liðu fyrir þetta. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar árið 2020 nam aðeins 15 milljörðum (0,5 prósentum af vergri landsframleiðslu) og var ekki skjótvirkara en svo að þjóðhagsreikningar sýndu beinlínis samdrátt í opinberum fjárfestingum á fyrri hluta ársins.
Svigrúm vannýtt
Þegar þetta er skrifað hafa heimili og fyrirtæki fengið samtals um 38 milljarða í beinan stuðning vegna kórónukreppunnar (1,3% af VLF) en þar af hafa 10,5 milljarðar verið notaðir til að borga fyrirtækjaeigendum styrki fyrir að segja upp starfsfólki. Hlutabótaleiðin, kreppuúrræði úr smiðju Jóhönnustjórnarinnar, er ein fárra aðgerða sem tókst vel og skilaði tilskildum árangri. Útfærslan sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi gerði ráð fyrir skerðingum sem hefðu bitnað harkalega á lág- og millitekjuhópum, en þökk sé þrýstingi samtaka launafólks og þverpólitískri vinnu í velferðarnefnd Alþingis var úrræðið, sem upphaflega átti að kosta tæplega 800 milljónir, útvíkkað og því breytt í 20 milljarða björgunarnet fyrir fólk og fyrirtæki.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði (sem einnig var innleitt í kjölfar bankahrunsins), hefur líka reynst ágætlega til að halda uppi eftirspurn og skapa hvata til framkvæmda og viðhalds, en þetta er skattafsláttur sem rennur að verulegu leyti til vel stæðra. Þá hafa tvöfalt fleiri nýtt sér heimildina til að ganga á eigin séreignarsparnað en upphaflega var spáð, en sú aðgerð er beinlínis tekjuaukandi fyrir ríkissjóð og gagnast auðvitað best þeim tekjuhærri sem hafa efni á að safna sér miklum séreignarsparnaði.
Á heildina litið hefur verulegum hluta stuðningsaðgerða ríkisstjórnarinnar vegna kórónukreppunnar verið beint til tekjuhærri heimila og stærstu fyrirtækjanna. Þá má setja spurningamerki við áhersluna sem var lögð á að miðla auknu peningamagni í umferð gegnum bankakerfið frekar en beint úr ríkissjóði. Kristrún Frostadóttir hagfræðingur bendir á að með þessu hafi svigrúmið til peningaprentunar nýst vel stæðum heimilum sem ekki þurftu sérstaklega á því að halda í formi aukinna húsnæðislána í stað þess að lögð væri höfuðáhersla á að verja afkomuöryggi heimila og framleiðslu- og þjónustugetu fyrirtækja.
Krafan um afkomuöryggi hunsuð
Hvað með fólkið sem þurfti hvað mest á vernd og stuðningi að halda? Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og ákall verkalýðshreyfingarinnar á vormánuðum var ekki gætt að afkomuöryggi þeirra sem voru í viðkvæmri stöðu eða sérstakri áhættu (t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma) en höfðu ekki verið skyldaðir í sóttkví. Þann 3. september síðastliðinn gengu þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar svo langt að fella tillögu stjórnarandstöðunnar um að lög um laun í sóttkví tækju til foreldra fatlaðra og langveikra barna í tilvikum þar sem sóttvarnaráðstafanir leiða til skertrar þjónustu og foreldrar þurfa að vera frá vinnu til að sinna börnunum sínum.
Það verður ekki sagt of oft að efnahagskreppan sem við göngum nú í gegnum er allt öðruvísi en síðasta kreppa og bitnar einna sárast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Þrátt fyrir þetta þverskallaðist ríkisstjórnin mánuðum saman við að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar um hækkun grunnatvinnuleysisbóta. Fjármálaráðherra kyrjaði sömu möntruna og hagsmunasamtök atvinnurekenda um að hærri bætur drægu úr vinnuhvata, en eins og fjöldi sérfræðinga hefur bent á eru bjögunaráhrif atvinnuleysisbóta sáralítil við núverandi kringumstæður og jafnvel hagstjórnarlega skynsamlegt að hækka þær. Það verða ekki til nein störf með því að skapa neyð á heimilum fólks sem missir vinnuna og hækkun atvinnuleysisbóta er beinlínis nauðsynleg til að sporna gegn ójafnaðaráhrifum kreppunnar. Þess vegna er fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi loksins, þann 20. nóvember síðastliðinn, látið að hluta undan kröfunni um hækkun grunnatvinnuleysisbóta þótt hækkunin ætti auðvitað að fylgja þróun lífskjarasamninga.
Fyrirtækjaeigendur í forgangi
Það fór minna fyrir áhyggjum af óæskilegum hagrænum hvötum þegar stjórnarmeirihlutinn ákvað að borga eigendum fyrirtækja í fjárhagsvanda sérstaka styrki fyrir að reka starfsfólk á sama tíma og skilyrði hlutabótaleiðarinnar voru þrengd. Meira en 10 milljörðum af almannafé hefur verið varið til að bjarga hlutafé og verja óbreytt eignarhald fyrirtækja með þessum hætti undanfarna mánuði án þess að gerðar séu kröfur um samfélagslega ábyrgð(t.d. um bann við launaþjófnaði og aflandsbraski eða að stærri fyrirtæki skuldbindi sig til að minnka kolefnisfótsporið).
Með því að hafa uppsagnaleiðina „almenna“ en ekki bundna við smærri fyrirtæki átti sér stað risavaxin björgun hluthafa með fjallabaksleið, án skilyrða eða trygginga um að ríkið fengi neitt á móti. Í hópi þeirra tíu fyrirtækja sem fengu allra mest út úr uppsagnaleiðinni eru Kynnisferðir, sem fengu 200 milljóna ríkisstyrk og eru í meirihlutaeigu foreldra og systkina fjármálaráðherra, og Bláa lónið, sem fékk 570 milljónir og er m.a. í eigu eiginkonu utanríkisráðherra. Samkvæmt svörum stjórnarráðsins til Kjarnans þótti ekki tilefni innan ráðuneytanna til að „meta sérstaklega hæfi ráðherra í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna COVID-19 faraldursins”. Uppsagnaleiðin var réttlætt sem nauðsynleg til að ekki yrðu tafir á því að starfsmenn fyrirtækja í miklum rekstrarvanda fengju greidd laun á uppsagnarfresti, en þetta eru falsrök enda til ódýrari og einfaldari leiðir til að ná slíkum markmiðum. Heildarumfang uppsagnastyrkjanna er tvöfalt meira en nemur árlegum kostnaði við að láta atvinnuleysistryggingar fylgja þróun lífskjarasamninga.
Atvinnuleysi viðhaldið
Fjármálaráðherra gerir mikið úr því að ríkissjóður verði rekinn með gríðarlegum halla og hrósar sér fyrir að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum að leika sitt hlutverk. En hallareksturinn getur ekki verið markmið í sjálfu sér. Það sem skiptir máli er hvernig peningum er varið og sjálfvirkir sveiflujafnarar koma ekki í staðinn fyrir heildstæða áætlun um atvinnusköpun og sjálfbæran hagvöxt.
Einna mest sláandi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er að þar birtist engin skýr áætlun um fjölgun starfa, hvorki í einkageiranum né hjá hinu opinbera, og gert er ráð fyrir að atvinnuleysi dragist saman um aðeins eitt prósentustig milli áranna 2020 og 2021. Atvinnuleysi mælist mest meðal erlendra ríkisborgara og ungs fólks og hefur aukist meira hjá konum en körlum. Samt hefur lítið verið um sértækar aðgerðir fyrir þessa hópa hingað til og um 85 prósent þeirra starfa sem verða til vegna fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar eru karlastörf.
Fjárfestingarátakið dugar skammt. Samkvæmt fjármálaáætlun nær fjárfestingaraukning ríkisins rétt svo að vega upp á móti samdrætti í fjárfestingu sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja en fjárfesting hins opinbera mun allt í allt aukast um aðeins 2 milljarða milli áranna 2020 og 2021, fjárhæð sem jafngildir 0,06 prósentum af vergri landsframleiðslu í dýpstu kreppu íslenskrar hagsögu. Þetta er ótrúleg staðreynd sem hefði mátt fá meiri athygli í ljósi fagurgala ráðamanna um stóraukna opinbera fjárfestingu.
Sveitarfélögin skilin eftir, velferðarþjónusta vanfjármögnuð
Sveitarfélögin standa frammi fyrir gríðarlegum rekstrarvanda vegna farsóttarinnar og þyrftu um 50 milljarða stuðning frá ríkinu til að geta haldið uppi óskertri grunnþjónustu á næsta ári. Heildarstuðningur ríkisins við sveitarfélögin vegna faraldursins nemur aðeins 10 prósentum af þessari fjárhæð, eða tæpum 5 milljörðum. Með þessari fjársveltistefnu – sem gengur þvert á það sem er verið að gera á hinum Norðurlöndunum – eru sveitarfélögin neydd til skuldasöfnunar á miklu verri lánakjörum en bjóðast ríkinu og til niðurskurðar og uppsagna með ömurlegum afleiðingum fyrir skóla- og velferðarþjónustu.
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 2 prósenta almennri aðhaldskröfu í ríkisrekstrinum og 0,5 prósenta aðhaldskröfu á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla næstu tvö árin. Eins og BSRB bendir á felur þetta meðal annars í sér að raunlækkun verður á framlögum til rekstrar í almennri sjúkrahúsþjónustu milli ára. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa varað við afleiðingum þess ef ekki er bætt í fjárveitingu til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu vegna faraldursins, en samkvæmt umsögn samtakanna um fjárlögin mun rekstrarfé hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma hafa verið skert um meira en 2 milljarða króna með aðhaldskröfum á þessu kjörtímabili þegar ríkisstjórnin fer frá í september 2021.
Þrátt fyrir að sálfræðiþjónusta hafi verið felld undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga með lögum sem samþykkt voru með 54 atkvæðum á Alþingi í vor er ekki kveðið skýrt á um fjármögnun þjónustunnar í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er áhyggjuefni, enda má vænta þess á tímum farsóttar, félagslegrar einangrunar og fjöldaatvinnuleysis að margir þurfi sárlega á geðheilbrigðisþjónustu að halda en hafi ekki tök á að sækja sér þjónustuna á eigin kostnað. Allt er þetta í takt við þá vondu forgangsröðun sem getið var um hér í upphafi: hópar sem þurfa sérstaklega á hjálp að halda eru látnir bíða í óvissu.
Aðhaldið gagnvart Landspítalanum eru kannski alvarlegast, en framkvæmdastjóri fjármálasviðs LSH upplýsti um það á dögunum að spítalinn stæði frammi fyrir hátt í 4 milljarða hagræðingarkröfu vegna uppsafnaðs rekstrarhalla og aðhaldskröfu í fjárlögum. Þetta muni torvelda spítalanum að ná niður biðlistum vegna kórónuveirunnar og óhjákvæmilega koma niður á þjónustu við sjúklinga. Það hefur legið fyrir allt frá því að ríkisstjórnin kynnti fyrstu fjármálaáætlun sína árið 2018 að heilbrigðisþjónustunni væru ætlaðir of litlir fjármunir til reksturs á kjörtímabilinu með tilliti til mannfjöldaþróunar, öldrunar þjóðarinnar og fleiri áskorana, en á tímum heimsfaraldurs verða stífar aðhaldskröfur í heilbrigðiskerfinu sérstaklega hættulegar. Skýrsla gæða- og sýkingavarnardeildar Landspítala um hópsmit á Landakoti sýnir hve brýnt er að efla mönnun í sjúkrahúsþjónustunni, laða fagfólk til starfa og taka á húsnæðisvandanum. Þess vegna skýtur skökku við að nú eigi að knýja Landspítalann til að ráðast í aðgerðir á borð við þéttingu vaktaplans, seinkun sumarráðninga á læknum og frestun húsnæðisframkvæmda.
Metnaðarleysi í loftslagsmálum og fráleitar skattabreytingar
Auðvitað mætti nefna sitthvað fleira í fjárlögum og fjármálaáætlun sem ber vitni um sérkennilegar áherslur. Framlag ríkisins til loftslagsmála er skammarlega lágt, langt innan við 1 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) og eykst um 0,02 prósent af VLF milli ára, enda styðst ríkisstjórnin við miklu metnaðarminni loftslagsmarkmið en Evrópusambandið og hin Norðurlöndin. Framlög til vinnustaðanáms, framhaldsfræðslu, íslenskukennslu fyrir útlendinga, sí- og endurmenntunarstöðva og starfsmenntunar dragast ýmist saman eða standa í stað á tímum þegar fjöldi fólks er án vinnu og tæki námstengdum úrræðum fagnandi. Skattapólitíkin er vond og tekjustofnar ríkisins eru veiktir með ómarkvissum skattalækkunum á borð við lækkun erfðafjárskatts og fjármagnstekjuskatts og afnáms stimpilgjalds vegna kaupa á stórum skipum.
Hvaða afleiðingar mun það hafa fyrir íslenskt atvinnulíf og samkeppni í landinu ef áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð til Samkeppniseftirlitsins ganga eftir á tímum þegar það er veruleg hætta á að smærri fyrirtæki stráfalli en þau stærri nái ráðandi stöðu á mörkuðum? Hvernig dettur stjórnarmeirihlutanum í hug að draga úr framlögum til sóknaráætlana landshluta og vinna þannig gegn byggðaeflingu og fjárfestingu í nærumhverfinu þegar einkafjárfesting er að dragast stórkostlega saman? Er snjallt að gera kröfur um aðhald í rekstri heilbrigðisþjónustunnar á tímum heimsfaraldurs? Þetta er á meðal þeirra fjölmörgu spurninga sem vakna við lestur fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar.
Þörf á skaðaminnkun næstu mánuðina
Verkefni næstu vikna og mánaða er að aftra því að ríkisstjórnin haldi áfram að dýpka kreppuna með vanhugsuðum aðgerðum og vondri forgangsröðun. Vonandi fáum við bóluefni og betri ríkisstjórn á næsta ári, en þangað til verður að verja lífsafkomu fólks, verja opinbera þjónustu, hindra frekari tilfærslu fjármuna til þeirra sem þurfa ekki á þeim að halda og vinna gegn rýrnun mannauðs og framleiðslutækja til þess að framboðshliðin í hagkerfinu verði undir viðspyrnuna búin þegar veiran hypjar sig á brott.
Eftirfarandi eru lágmarkskröfur sem við hljótum að gera til stjórnvalda þangað til ný ríkisstjórn tekur við og kraftmikið uppbyggingarstarf getur hafist:
- Komið verði í veg fyrir niðurskurð þjónustu og fjárfestinga á sveitarstjórnarstiginu með stórauknum stuðningi ríkisins við sveitarfélög í fjárlögum og fjármálaáætlun.
- Ráðist verði í greiningu á því hvaða hópar fólks og fyrirtækja hafa fallið milli skips og bryggju í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og gripið strax til aðgerða til að leiðrétta þessa misbresti.
- Fallið verði frá öllum aðhaldskröfum í heilbrigðiskerfinu og Landspítalanum tryggð viðbótafjárveiting til rekstrar svo ekki þurfi að skerða þjónustu við sjúklinga.
- Undið verði ofan af skaðlegum breytingum sem gerðar voru á hlutabótaleiðinni síðla sumars og lágmarksstarfshlutfallið lækkað til að bæta virkni úrræðisins og verja störf.
- Atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga fylgi launaþróun til að draga úr ójafnaðaráhrifum kreppunnar.
Þann 25. september 2021 gefst svo tækifæri til að fella ríkisstjórnina í Alþingiskosningum og leiða sterka félagshyggjustjórn til valda, stjórn sem er tilbúin að beita ríkisvaldinu af fullum þunga til að reisa Ísland upp úr kórónukreppunni: skapa atvinnu, efla opinbera þjónustu, jafna kjörin með sanngjarnri skattheimtu, skila auðlindarentunni í sjávarútvegi til þjóðarinnar og renna traustari stoðum undir verðmætasköpun og samkeppni á Íslandi. Verkefnið kallar á breiða samstöðu félagshyggjufólks, það verður ekki auðvelt og fjársterk öfl munu beita sér af alefli gegn því að okkur takist það, en það er ómaksins vert að reyna – og nú eru tíu mánuðir til stefnu.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.
Höfundur er ungur jafnaðarmaður og starfar nú við ráðgjöf fyrir þingflokk Samfylkingarinnar.