Í júní þá ávarpaði undirhershöfðinginn William Boykin kristilega samkomu í Oregon. Ræðan innihélt vægast sagt furðulegar yfirlýsingar um trúarlegar ástæður stríðs Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum. Þar setti hann m.a. fram þá skoðun sína að baráttan sem stæði nú yfir væri barátta gyðingdóms og kristninnar við hið illa, sem úr orðum hans var aðeins hægt að skilja sem íslam – og Satan. Ég hef áður tekið fyrir atburðarás vegna gjörða einstaklings hér í pistli á vefnum, og nú er komið að öðrum. Persónan sem vakti hjá þörf til að tjá mig í þetta skipti er hershöfðingi við hirð George W. Bush Bandaríkjaforseta.
Barátta kristni og gyðingdóms v.s. íslam og Satan
Í júní þá ávarpaði undirhershöfðinginn William Boykin kristilega samkomu í Oregon. Ræðan innihélt vægast sagt furðulegar yfirlýsingar um trúarlegar ástæður stríðs Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum. Þar setti hann m.a. fram þá skoðun sína að baráttan sem stæði nú yfir væri barátta gyðingdóms og kristninnar við hið illa, sem úr orðum hans var aðeins hægt að skilja sem íslam – og Satan.
Þetta er í sjálfu sér ekkert merkilegt nema að hann hafði þá nýlega verið settur í embætti aðstoðarvaravarnarmálaráðherra og að hann flutti ræðuna í einkennisbúningi hershöfðingja Bandaríkjahers. Boykin þessi hafði áður verið æðsti yfirmaður Delta sérsveita Bandaríkjahers í 13 ár og hafði sem slíkur stjórnað m.a. bardögum í Sómalíu 1993 með hörmulegum afleiðingum vegna vanmats á (íslömskum) andstæðingum sínum.
Afsökunarbeiðni
Þetta þótti ekkert sérstaklega merkilegt fréttaefni í fyrstu en nú í október hefur þetta komist í hámæli í bandarískum fjölmiðlum. Ástæðan er afsökunarbeiðni hershöfðingjans til allra þeirra sem höfðu hugsanlega móðgast af ummælunum. Eða öllu heldur innihald afsökunarbeðinnar og þá líka sá texti sem Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið, sá ástæðu til að fella út úr yfirlýsingunni.
Það sem vakti athygli mína meðal annars er sú þröngsýni hershöfðingjans þegar hann segir að ástæður haturs öfgafullra múslima væri það gyðinglega og kristna samfélag sem Bandaríkin eru að hans mati, þá vegna þess gyðinglega og kristna grunns sem þau eru reist á. Ég á nefnilega erfitt með að skilja að hermaður með 33 ára reynslu í þjónustu skuli ekki geta sagt sannleikann í þessum efnum, hann er augljós. Ástæðan fyrir því að öfgafullir múslimar gera Bandaríkin að skotspón sínum er tilvera Íraelsríkis, gjörðir þess gagnvart nágrönnum sýnum, vernd Bandaríkjanna á Ísrael og vera bandarísks herliðs í Sádí Arabíu við hlið helgustu helgistaða íslam.
Atkvæðagreiðsla í Öryggisráðinu
Sem dæmi um þá fyrirlitningu sem gyðingar í Ísrael sýna umheiminum er bygging múrsins umhverfis hernumdusvæðin. Þessi framkvæmd hefur ekki verið fordæmd af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna neitunarvalds Bandaríkjanna en allsherjarþing samtakanna greiddi atkvæði um ályktunina nú í vikunni og 144 ríki samþykktu hana, 4 voru á móti, þið getið giskað hverjir sögðu nei, já það er rétt, Bandaríkin og Ísrael auk tveggja smáríkja á Indlands- og Kyrrahafi.
Ein setning sem Boykin lét frá sér á samkomunni í júní var á þá leið að í bardögunum í Sómalíu hafi hann fundið það að hans Guð hafi verið sterkari og betri en Guð andstæðinganna, að það hafi verið falsguð – skurðgoð. Ég næ ekki upp í það hvílík vanþekking það er af hálfu trúaðs manns að láta svona út úr sér. Það er alveg ljóst að gyðingdómur, kristni og íslam eiga sér sameiginlega rót og sameiginlega spámenn og því fullyrði ég að þessi þrjú trúarbrögð fjalla öll um sama guðinn. Hann gengur undir ýmsum nöfnum í þessum trúarbrögðum en á þau eiga það sameiginlegt að fallast ekki á skurðgoðadýrkun. Dæmi um hversu tengd þessi trúarbrögð eru að kristnir og íslamskir arabar kalla Guð sinn með sama nafni, Allah, sem er arabíska og einfaldlega þýðir Guð.
Sverð Drottins á jörðu
Vissulega er það svo að yfirmenn Boykins hafa verið duglegir allt frá 11. september 2001 að halda því fram baráttan við hryðjuverk sé ekki á háð milli trúarbragða en það er erfitt að trúa því þegar svona háttsettur maður kemur fram og gefur út svona yfirlýsingar. Boykin sagði á einum stað að Bush væri sem sverð Drottins á jörðu, jafnframt hélt hann því fram að Guð hafi komið Bush í forseta embættið. Það er loksins sem við fáum skýringu á því hvernig hægt er að vinna kosningar með minnihluta greiddra atkvæða. Guðlegt vald hafði hér áhrif – Guð repúblíkana er greinilega sterkur.
Yfirmaður Boykins, Donald Rumsfeld hefur komið sér undan því að svara efnislega spurningum fjölmiðla um yfirlýsingar og afsökunarbeiðni hans.