Vonlaus aðstaða þolenda heimilisofbeldis

Ríkissjónvarpið birti á þriðjudaginn sláandi viðtal við konu sem hafði að sögn búað við ofbeldi af hálfu fyrrum maka síns um langt skeið og nú síðast orðið fyrir tilraun til manndráps af hans hálfu. Viðkomandi einstaklingur lýsti algjöru vonleysi með sína stöðu og benti m.a. á að lögreglan hafi ekki talið sig geta gert neitt á fyrri stigum málsins þar sem einungis hótanir hefðu verið viðhafðar. Sömuleiðis benti hún á nauðsyn þess að halda úti meðferðarúrræðum fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum. Þetta viðtal sýndi vel í hvers konar vanda við erum þegar kemur að heimilisofbeldi. Ríkissjónvarpið birti á þriðjudaginn sláandi viðtal við konu sem hafði að sögn búað við ofbeldi af hálfu fyrrum maka síns um langt skeið og nú síðast orðið fyrir tilraun til manndráps af hans hálfu. Viðkomandi einstaklingur lýsti algjöru vonleysi með sína stöðu og benti m.a. á að lögreglan hafi ekki talið sig geta gert neitt á fyrri stigum málsins þar sem einungis hótanir hefðu verið viðhafðar. Sömuleiðis benti hún á nauðsyn þess að halda úti meðferðarúrræðum fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum. Þetta viðtal sýndi vel í hvers konar vanda við erum þegar kemur að heimilisofbeldi.

Þingmál um heimilisofbeldi
Ég lagði í vetur fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um heimilisofbeldi. Í svari hans þann 2. nóvember kom fram að í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði sem skilgreinir heimilisofbeldi. Sömuleiðis er ekki að finna upplýsingar um hvenær beri að flokka háttsemi sem heimilisofbeldi. Vegna þessa er, samkvæmt svari ráðherrans, hugtakið heimilisofbeldi ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti. Í svari ráðherra kom einnig fram að þetta leiðir til þess að hvorki eru til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi, né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera.

Þetta svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni renndi stoðum undir þá skoðun að viðurkenna verði heimilisofbeldi í lögum, m.a. til að unnt sé að átta sig á umfangi vandamálsins og hvernig málum lyktar hjá lögreglu, ríkissaksóknara og fyrir dómstólum.

Þess vegna lagði ég fram þingsályktun á Alþingi fyrr á þessu ári um að setja bæri lagaákvæði um heimilisofbeldi. Hægt er nálgast málið í heild sinni hér.

Heimilisofbeldi týndur brotaflokkur í kerfinu
Þrátt fyrir að heimilisofbeldi sé eitt algengasta mannréttindabrot á Íslandi er hvergi minnst á heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf og það er hvergi skilgreint. Það má því segja að heimilisofbeldi séu týndur brotaflokkur í kerfinu. Nú er dæmt eftir mjög mörgum ólíkum lagaákvæðum í málum um heimlisofbeldi, sem þó eru ekki fullnægjandi að því er varðar heimilisofbeldi.

Í heimilisofbeldismálum er helst dæmt eftir ákvæðum hegningarlaga um líkamsárásir sem leggja áherslu á líkamlega áverka og aðferð við brotið. Áhöld eru því um hvort að þessi ákvæði ein og sér taki nægilega á heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi getur verið af ýmsu tagi, þ.e andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, sem oft nær yfir langan tíma, er jafnvel án sýnilegra áverka og gerist innan veggja heimilisins. Þetta markar að nokkru leyti sérstöðu þessara brota.

Í dómaframkvæmd fer refsing vegna líkamsmeiðinga einnig fyrst og fremst eftir þeirri aðferð sem beitt er og þeim áverkum sem þolandi hlýtur. Hins vegar getur verið um að ræða mjög alvarlegt heimilisofbeldi án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur legið talsvert lægri refsing fyrir heimilisofbeldi samkvæmt núgildandi lagaákvæðum.

Meðferðarúrræði fyrir gerendur
Það er því þörf á lagaákvæði sem skilgreinir heimilisofbeldi í hegningarlögum þannig að þau nái yfir slík brot með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Þannig verður íslenskt réttarkerfi betur í stakk búið að taka á þessum brotum. Samhliða slíkum lagabreytingum ber sömuleiðis að taka upp meðferðarúrræði fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum Slík úrræði voru hér áður fyrr til staðar en lögðust af vegna fjárskorts.

En það er hins vegar óásættanlegt að hugtakið heimilisofbeldi sé hvorki notað í lögum né í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti. Að auki er það afleitt að hvorki séu til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera.

Það er einnig afar alvarlegt ef lögreglan segir við þolendur heimilisofbeldis að lögreglan hafi ekki úrræði vegna hótana eins og kom fram í máli konunnar í fréttunum á þriðjudaginn. Þau úrræði hefur lögreglan svo sannarlega og henni ber að taka slíkar hótanir alvarlega.

Konan sem lýsti sögu sinni fyrir alþjóð á þriðjudaginn á heiður skilinn fyrir að koma fram. Þessi frásögn segir okkur að við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að berjast gegn heimilisofbeldi. Mikilvægt skref í þá átt væri að setja lagaákvæði um heimilisofbeldi og bjóða upp á meðferð fyrir ofbeldismenn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand