Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að standa fyrir öflugu velferðarkerfi. Með velferðarkerfinu hefur verið stuðlað að jöfnun lífskjara og komið að mestu í veg fyrir mismunun á grundvelli efnahags hvað varðar aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Lagaleg staða kynjanna hefur verið jöfnuð, m.a. með lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þá hefur stuðningur við fólk við að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf aukist þótt vissulega megi gera betur í því efni. Öflugt velferðarkerfi er ein af ástæðum þess hve íslenskt efnahagslíf er í miklum blóma þessa dagana. Slíkt kerfi ýtir undir betri nýtingu á mannauði. Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að standa fyrir öflugu velferðarkerfi. Með velferðarkerfinu hefur verið stuðlað að jöfnun lífskjara og komið að mestu í veg fyrir mismunun á grundvelli efnahags hvað varðar aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Lagaleg staða kynjanna hefur verið jöfnuð, m.a. með lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þá hefur stuðningur við fólk við að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf aukist þótt vissulega megi gera betur í því efni. Öflugt velferðarkerfi er ein af ástæðum þess hve íslenskt efnahagslíf er í miklum blóma þessa dagana. Slíkt kerfi ýtir undir betri nýtingu á mannauði.
Velferðarkerfið er mikilvægur þáttur í íslensku þjóðlífi sem verður að varðveita. En eins og með allt, þá er nauðsynlegt að endurnýja eða betrumbæta það svo það deyi ekki drottni sínum. Einnig er hér um svo stóran hluta útgjalda ríkisins að ræða að leita verður allra leiða til þess að nýta best þá fjármuni sem eru til skiptanna.
Útgjöld til almannatrygginga
Samkvæmt vefriti fjármálaráðuneytisins þá vega framlög til félagsmála þyngst í útgjöldum ríkisins og jókst hlutfall þeirra úr 62.1% í 65.1% á árunum 1999 – 2003. Með félagsmálum er átt við heilbrigðismál, almannatryggingar, fræðslumál og önnur félagsmál. Hækkun almannatrygginga var mest allra málaflokka á þessu tímabili eða tæp 40% að raungildi (í 21% af heildarútgjöldum ríkissjóðs). Útgjöld lífeyristrygginga vega þar hátt. Á síðasta ári greiddi ríkissjóður um 29.2 milljarðar í lífeyrisgreiðslur almannatrygginga samkvæmt staðtölum Tryggingastofnunar ríkisins. Þar af voru útgjöld vegna örorkulífeyris, tekjutrygginga og tekjutryggingarauka örorkulífeyris um 8.9 milljarðar og hafa þau aukist um 3.3. milljarðar síðan árið 2000 eða um 59%. Um 16.8 milljarðar eru vegna ellilífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauka ellilífeyrisþega. Árið 2000 voru útgjöldin um 11.5 milljarðar og hafa því aukist um 46%.
Örorkulífeyrisþegum og ellilífeyrisþegum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár. En einmitt í ljósi fjölgunar í þessum hópum þjóðfélagsins þarf að endurskoða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga áður en þær sliga ríkissjóð.
Sátt um velferðarkerfið
Mikilvægt að standa vörð um öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Til þess að svo megi verða þarf að nást víðtæk sátt um kerfið. Gegnsærra kerfi sem hjálpar þeim sem sannarlega þurfa á því að halda og dregur úr misnotkun þess er til þess fallið að stuðla að slíkri sátt. Nú er rétti tíminn til þess að gera nauðsynlegar breytingar á velferðakerfinu enda er það auðveldara þegar uppgangur er í þjóðfélaginu og atvinnuleysi í lágmarki.
Meðal breytinga sem gera þyrfti er að skapa frekari hvatningu fyrir örorkulífeyrisþega til að taka þátt í atvinnulífinu og þá meðal annars með breytingum á tekjutengdum greiðslum. Jafnframt þarf að bjóða upp á öfluga og fjölbreytta endurhæfingu. Endurskoða mætti lífeyrisgreiðslur almannatrygginga. Slíkar greiðslur eiga að mínu viti aðeins að vera öryggisnet fyrir einstaklinga sem fá ekki nægilegar greiðslur til að lifa sómasamlegu lífi af, t.d. frá lífeyrissjóðunum í landinu. Það er til að mynda ekkert vit í því að efnaðir ellilífeyrisþegar fái ellilífeyri úr almannatryggingakerfinu. Tökum sem dæmi einstakling sem fær hálfa milljón á mánuði frá lífeyrissjóðunum. Sá hinn sami fær samt um 22 þúsund kr. í ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Augljóslega er ekki ástæða til þess að greiða viðkomandi í þessum aðstæðum af almannatryggingum, öryggisneti þjóðarinnar.
Auka mætti eftirlitsþátt almannatryggingakerfisins til að koma í veg fyrir misnotkun þess. Þetta væri hægt með auknum rafrænum samskiptum og samstarfi milli stofnana ríkis og sveitarfélaga. Endurskoða þarf lög til að af því geti orðið. Þá væri þarft að samræma það örorkumat sem gert er í dag; t.d. er ekki notað sama mat vegna slysaörorku eða lífeyrisörorku. Slík samræming leiddi til einföldunar og meira gegnsæis. Einnig ætti ríkisvaldið að skoða að taka aftur upp örorkumat sem byggir á starfsgetu einstaklinga í stað þess að byggja örorkumatið eingöngu á læknisfræðilegum forsendum. Þessar breytingar á örorkumatinu voru gerðar árið 1999. Við þetta fækkaði synjunum úr 20% árið 1998 í aðeins 7% árið 1999 þegar nýi örorkumatsstaðallinn var tekinn upp.(1)
Miklu máli skiptir að þeim fjármunum sem ríkið hefur undir höndum sé varið á sem skynsamlegastan hátt og þá til þeirra sem mest þurfa á stuðningi að halda. Við megum ekki missa sjónar af því að byggja upp öflugt velferðarsamfélag þar sem jafnrétti og bræðralag ræður för.
____________
(1) Fjölgun öryrkja á Íslandi. Orsakir og afleiðingar. Tryggvi Þór Herbertsson. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Reykjavík