Vitræna umræðu um samgöngumál, takk!

Fer umræðan saman við kosningar á komandi ári og keppast menn um að lofa úrbótum hver ofan í annan. Vegamálastjóri hefur meðal annars orðið fyrir ómálefnalegri gagnrýni fyrir að reyna að skapa umræðunni faglegan grundvöll, m.a. frá þingmönnum í kosningaham. Það hlýtur að vera öllum til hagsbóta að umræðan fari fram á faglegum nótum en ekki í formi upphrópanna og tilfinningahita. segir Jón Skjöldur Níelsson í grein dagsins.

Í kjölfar hrinu hræðilegra banaslysa í umferðinni síðustu vikurnar hefur umræða um samgöngumál og úrbætur í þeim efnum mikið borið á góma. Fer umræðan saman við kosningar á komandi ári og keppast menn um að lofa úrbótum hver ofan í annan. Vegamálastjóri hefur meðal annars orðið fyrir ómálefnalegri gagnrýni fyrir að reyna að skapa umræðunni faglegan grundvöll, m.a. frá þingmönnum í kosningaham. Það hlýtur að vera öllum til hagsbóta að umræðan fari fram á faglegum nótum en ekki í formi upphrópanna og tilfinningahita.

 
Banaslys á Suðurlandsvegi hafa ýtt undir umræðu um nauðsyn tvöföldunar á veginum með aðgreindar aksturstefnur. Margir ef ekki flestir eru á þeirri skoðun að ekkert annað komi til greina í þeim efnum en hraðbraut með tveimur akreinum í hvora átt þar sem skilið er á milli akstursstefna með vegriði. Sú lausn er auðvitað góð í umferðaröryggislegu tilliti og vitað mál er að slík lausn myndi draga mjög verulega úr slysahættu á veginum. Það hefur best sýnt sig með tvöföldun Reykjansebrautarinnar sem áður tók þungbærann toll í formi mannslífa en ekki hefur orðið þar banaslys eftir að hún var tvöfölduð. Það sem hefur haft úrslitakosti varðandi það er að aksturstefnur eru aðgreindar og að menn hafa ekki þurft að fara framúr á öfugum vegarhelmingi.

Maður spyr sig hvort 2+1 lausn hefði ekki verið fullnægjandi fyrir Reykjanesbrautina líkt og gert hefur verið ofan við Litlu kaffistofuna. Slík lausn aðgreinir aksturstefnur með vegriði og gerir fólki kleift að fara framúr á öruggan hátt með reglulegu millibili. Ég tel víst að með slíkri lausn á Reykjanesbraut hefði sami góði árangurinn náðst í fækkun banaslysa á þessum vegkafla og raunin hefur orðið með tvöfölduninni. 2+1 lausnin er eðli málsins samkvæmt miklu ódýrari og fljótlegri í framkvæmd en 2+2 lausnin sem þarna var valin. Væntanlega hefði verið hægt að leggja 2+1 einn veg alla leið frá Hafnarfirði að Keflavíkurflugvelli fyrir svipaða fjárhæð og tvöföldunin á þessum nokkurra kílómetra vegkafla kostaði. Þannig gætum við núna verið komin með öruggan 2+1 veg alla leið í stað hraðbrautarspottans sem nú liggur á miðri leið. 2+1 lausnin hefur síðan þann kost að ekkert tiltökumál að er breikka veginn og bæta við akrein (2+2) ef þörf krefur síðar meir.

 
Með tilliti til umferðarþunga hefði 2+1 lausn verið meira en fullnægjandi fyrir Reykjanesbrautina enda líður manni stundum eins og Palla sem var einn í heiminum þegar maður keyrir þennan tvöfalda vegarkafla utan háannatímanna. Vegagerðin hefur reiknað út að Suðurlandsvegurinn eins og hann er núna sé fullnægjandi með tilliti til umferðarþunga. Þá er hin augljósa slysahætta sem fylgir frammúrakstri ekki tekin með inn í reikninginn. 2+1 lausnin gerir langt um meira en að fullnægja umferðarþunganum sem þarna fer um. Hún veitir líka sama öryggi og 2+2 lausn með aðgreiningu á akstursstefnum. 2+1 lausnin uppfyllir í raun allar þær kröfur sem við biðjum um en fyrir mun minni fjárhæðir. Þær fjárhæðir má síðan nýta til að bæta aðra hættulega vegakafla. Það þarf að horfa heildrænt á myndina.

 
Það hljóta allir að vera sammála um þá grundvallarhagsmuni að bæta umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Einn stærsti vandi þjóðvegakerfisins er hinni tvískipti hámarkshraði en hann gerir framúrakstur í raun að óhjákvæmilegum þætti á vegakerfi landsins. Gríðarlega miklir þungaflutingar fara fram á veikburða vegakerfinu og er leyfður hámarkshraði flutningabílanna lægri en leyfður hámarkshraði almennra fólksbíla. Það leiðir óhjákvæmilega til þess að maður á fólksbíl sem vill vera á löglegum hámarkshraða þarf t.d. að fara fram úr nokkrum flutningabílum á leið sinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Undirritaður hefur nokkra reynslu af þeirri leið og aðstæður til framúraksturs eru á mörgum stöðum vægast sagt mjög slæmar með tilliti til breiddar vegar og útsýnis (þá er ekki talað um staði þar sem framúrakstur er bannaður). Einbreiðar brýr eru síðan sér kafli útaf fyrir sig og ættu ekki að þekkjast á helstu þjóðvegum lands sem telur sig til ríkra nútímasamfélaga.

 
Það þarf aukið fjármagn til vegamála í landinu og forgangsröðun verkefna á ekki að taka mið af kjördæmapoti og gæluverkefnum þingmanna og ráðherra hverju sinni. Slík háttaemi er okkur allt of dýr. Skýra forgangsröðun þarf í samgöngumálum og meginmarkmiðið hlýtur að vera það að bæta umferðaröryggi á sem flestum stöðum. Til að þau markmið náist   þurfa menn að leggja drauma sína um ,,Autobahna” að þýskri fyrirmynd á hilluna og huga að heildarhagsmunum þjóðarinnar. Það hlýtur að vera allra hagur að nýta fjármagnið til samgöngumála sem best og nýta það í fullnægjandi lausnir. Frekar vil ég sjá 2+1 veg frá Reykjavík til Selfoss sem fyrst heldur en að bíða lengur eftir hraðbrautarspottum hér og þar sem þjóna í raun ekki meiri tilgangi. Ógrynni verkefna bíða úrlausna og eitt þeirra er aukið eftirlit á vegunum og breytt hugarfar íslenskra ökumanna. 

Komum á þjóðarátaki um víðtækar öryggisumbætur á vegakerfi landsins – núverandi ástand er algjörlega óviðunandi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand