Hvað varð um velferðarþjóðfélagið?

Í grein dagsins fjallar Margrét Sigurðardóttir um Fjölmennt sem býður upp á nám með stuðningi fyrir geðfatlaða. Eftir áralanga stjórnartíð hægrimanna er myndin skýr af því sem þeir standa fyrir og allt miðar það að sama framtíðarlandinu þar sem ríkir ójöfnuður og misskipting að amerískri fyrirmynd. Margrét segir m.a. ,,Að standa ekki við bakið á þessari menntastofnun sem rekin hefur verið af vanefnum undanfarin ár, segir manni nokkuð um hugarfarið hjá núverandi stjórnvöldum. Þarna er ekki borin virðing fyrir þeim sem minna mega sín og augljóslega er menntun ekki til handa öllum.“ Íslendingar hafa löngum státað sig af því að hér sé velferðarþjóðfélag þar sem heilbrigðisþjónusta og menntun bjóðist öllum jafnt óháð stigum og stéttum einstaklinga. En áralöng stjórnartíð hægrimanna er farin að gefa skýrari mynd af því sem þeir standa fyrir og allt miðar það að sama framtíðarlandinu þar sem ríkir ójöfnuður og misskipting að amerískri fyrirmynd.

Enn eitt dæmið er nýlega komið upp á yfirborðið en það er hvernig tekið hefur verið á málum Fjölmenntar, stofnunar sem býður upp á nám með stuðningi fyrir geðfatlaða. Fjölmennt hefur starfað síðan í ársbyrjun 2003 en þá var gerður þjónustusamningur við þáverandi menntamálaráðherra sem veitti ákveðna upphæð til verkefnisins og skyldi síðar litið á hvernig til tækist varðandi áframhaldið. Ekki var um háar upphæðir að ræða, nánast var um ölmusu að ræða þar sem fengust litlar 12 milljónir í reksturinn, en kostnaður við skólann þar sem aðeins grunnfög voru kennd var áætlaður helmingi hærri. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um hærra framlag hefur þessi upphæð ekki hækkað um krónu síðan. Hún dugar nú svo skammt að það hefur þurft að draga verulega úr þeirri þjónustu sem sóst er eftir; kennurum hefur verið sagt upp og mun færri kennslustundir eru í boði heldur en þörf og áhugi er fyrir.

Árangur undanfarinna ára hefur þó verið framar vonum: Fjöldinn allur af fólki hefur lokið námi á bæði framhalds- og háskólastigi, 30 einstaklingar sem höfðu verið öryrkjar í mörg ár eru nú komnir út í þjóðfélagið á vinnumarkaðinn og svona mætti lengi telja. Þá sýna allar rannsóknir erlendis frá að batalíkur aukast og minna er um endurinnlagnir hjá fólki sem fær nám og námsstuðning af þessu tagi en allt kemur fyrir ekki; Í upphafi hverrar annar er starfssemin í uppnámi og framtíðin ótrygg.

Fyrir utan augljósan sparnað fyrir þjóðfélagið í heild er þó þarna um að ræða miklu stærra mál heldur en nokkrar milljónir króna til eða frá. Þarna er um að ræða grundvallarmannréttindi sem stjórnvöld brjóta á geðfötluðum. Þetta fólk á rétt á menntun eins og allir aðrir, það er ekki bara mín persónulega skoðun heldur stendur það skrifað í stjórnarskrá Íslands. Að standa ekki við bakið á þessari menntastofnun sem rekin hefur verið af vanefnum undanfarin ár, segir manni nokkuð um hugarfarið hjá núverandi stjórnvöldum. Þarna er ekki borin virðing fyrir þeim sem minna mega sín og augljóslega er menntun ekki til handa öllum.

Þetta er bara enn eitt dæmið um þau skörð sem stjórnarflokkarnir höggva stöðugt í velferðarþjóðfélagið. Við tökum ekki alltaf eftir því en dropinn holar steininn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand