Virkjum Fossvogsdalinn

Í bílnum á heimleiðinni heyrði ég að fyrsta frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var af ófremdarstandi í leikskólum Kópavogs. ,,Loksins!“ hugsaði ég með mér ,,loksins, loksins, loksins“ eru fjölmiðlar að varpa ljósi á þetta skelfilega ástand sem hefur verið viðloðandi síðan í september. Í SUMAR þegar ég var í feðraorlofi gekk ég daglega með son minn í Fossvogsdalnum. Dalurinn er æði stór og hægt er að eyða dágóðum tíma í að spássera umhverfis hann á malbikuðum stígum. Það er þó lítið annað við að vera fyrir fjölskyldur og maður gengur í hringi eftir stígunum í leit að bekk eða öðrum viðverustað.

Þegar vel viðraði lét ég hugann reika og ímyndaði mér góðviðrisdaga þar sem hægt væri að fara í fjölskylduvæna garða, setjast svo á lítið kaffihús og fá sér hressingu og lesa í bók á meðan sá stutti fengi sér kríu.

Vannýtt auðlind
Dalurinn er vannýtt auðlind, græn vin í borgarsamfélaginu sem þarf að hlúa að. Hann er á miðri leið milli Elliðaárdals og Nauthólsvíkur og útivistarsvæði fyrir mikinn fjölda höfuðborgarbúa. Göngustígarnir sem hafa verið lagðir bera vott um hve mikil ásókn er í dalinn. Allt árið um kring er fólk á öllum aldri að ganga, hlaupa og hjóla í dalnum.

Í austari hluta dalsins, þeim hluta sem nær frá íþróttasvæði HK að Víkingsheimilinu, er fátt annað en áveituskurðir og gömul beitilönd sem á sumrin hverfa í hnéháu grasinu. Þetta svæði býður upp á mikla möguleika og því stingur vanrækslan enn meira í stúf. Börn sem vilja nota svæðið undir sparkvelli þurfa að leggja sig í hættu við að stökkva yfir breiða og djúpa skurði og jafnan er grasið það hátt að það hentar ekki fyrir neitt annað en feluleiki.

Baráttan um dalinn
Í gegnum tíðina hefur verið tekist mjög á um skipulag og nýtingu Fossvogsdalsins. Við sem búum við rætur hans getum þakkað þeim sem hafa varið þetta græna svæði gegn vegagerð og frekari byggð. Þeirri baráttu er kannski aldrei lokið, þótt almenningur geri sér sífellt betur grein fyrir mikilvægi grænna svæða. Baráttan má þó ekki leiða til þess að svæðin sem hljóta vernd falli út af ratsjá bæjaryfirvalda og skipulagsnefndar.

Grænum svæðum fækkar ört og það verður æ lengra að fara út í sveitina er höfuðborgarsvæðið teygir anga sína upp um fjöll og firnindi. Í framtíðinni verður það enn mikilvægara að skipuleggja grænu svæðin betur svo þau geti almennilega sinnt hlutverki sínu.

Það hefur varla verið markmið þeirra sem vörðu dalinn gegn ásókn byggingarkrana að hann myndi falla í gleymsku eða ekki fá að þróast og mótast líkt og önnur græn svæði á höfuðborgarsvæðinu.

Central Park, Fossvogi
Það er ekki ósennilegt að svæðið frá Elliðaám inn að Öskjuhlíð með Fossvogsdalinn sem miðju verði að lífæð höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni, líkt og Central Park í New York.

En þar lýkur samanburðinum, því hver lófastór blettur í Central Park er skipulagður. Hann er hugsaður sem griðastaður þar sem hægt er að hverfa úr skarkala borgarsamfélagsins um stund og komast í snertingu við náttúruna. Þar er mikið fyrir augað, fagurkera, garðyrkjufræðinga og jafnvel matgæðinga. Þar eru fínir veitingastaðir og söfn við jaðra garðsins, einnig leik- og tómstundasvæði fyrir börn og fullorðna.

Laugardalurinn er dæmi um garð sem hefur þróast í þessa átt, fjölskyldu-, húsdýra- og grasagarður í bland við íþrótta- og tómstundavelli og -byggingar. Hefur hann notið mikilla vinsælda hjá borgarbúum og annar vart öllum þeim sem flykkjast þangað á björtum sumardögum.

Þínar hugmyndir
Laugardalurinn sýnir okkur að vel skipulögð græn svæði eiga upp á pallborðið og okkur vantar fleiri slíka staði. Möguleikarnir fyrir Fossvogsdalinn virðast endalausir. Við eigum því að halda hugmyndasamkeppni um framtíðarnýtingu svæðisins, þar sem íbúarnir geta komið hugmyndum sínum á framfæri og bæjarfélagið kemur sigurtillögunum í verk.

Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi og sækist eftir 3. sæti á lista í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi.

________________________
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu laugardaginn 28. janúar 2006.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand