Spámaðurinn og listamennirnir tólf

Nú er jólahátíðin að verða um garð gengin í sinni eiginlegu merkingu. Eftir situr maður saddur og sæll en þó í hálfgerðu móki yfir öllu havaríinu í kringum hátíðarnar. Auglýsingaflóðið og stressið fyrir jólin minnir mig svolítið á óveður sem stigmagnast og hvín út um útvarps- og sjónvarpstækin en skyndilega gengur veðrið niður og komið er blankalogn. Þannig er a.m.k. mín tilfinning á aðfangadagskvöld. Engar auglýsingar, engin jólatilboð, bara kyrrð og ró. Danska blaðið Politiken birti í september grein með fyrirsögninni „Hinn djúpstæði ótti við gagnrýni á Islam“ (Dyb angst for kritik af islam). Í greininni var fjallað um höfundinn Kare Bluitgen og vandræði hans við leit að listamönnum sem gætu tekið að sér að teikna myndir við bók hans „Kóraninn og líf spámannsins Múhameð” ( Koranen og profeten Muhammeds liv ). Að sögn Bluitgen fékkst enginn listamaður til að koma nálægt verkinu fyrr en hann fékk loks nafnlausan aðila til að myndskreyta verkið. Greinarhöfundur ræðir við listamenn og rithöfunda sem allir tóku undir þessi orð. Í greininni er talað um að Islam hafi tryggt sér sérstakan sess yfir önnur trúarbrögð sem byggður er á ótta en ekki virðingu.

Þann 30. september byrti svo Jyllands Posten 12 myndir eftir hina ýmsu listamenn á menningarsíðum blaðsins. Ritstjóri menningarsíðna blaðsins skrifaði stuttan texta við myndirnar þar sem hann ítrekaði þau orð að sumir fylgjendur Islam krefðust sérstakrar meðferðar á sínum trúarbrögðum í þjóðfélagi sem umber lífskoðanir og tjáningarfrelsi fólks jafnvel þótt þær hugmyndir gangi gegn trúarbrögðum eða lífsskoðunum annara. Myndirnar eru eftir 12 listamenn og birta allar mismunandi sýn á spámanninum. Samkvæmt Jyllands Posten ræddi blaðið við 40 listamenn sem sumir höfnuðu tilboðinu eða þeirra myndum var hafnað. Með birtingu þessar mynda var ætlunin að sýna fram á mátt tjáningafrelsis í Danmörku.

Málið hefur vakið upp gríðarlega reiði í hinum islamska heimi og meðal fylgjenda Islam í Danmörku. Nú í janúar birti Magazinet, kristilegt blað í tiltölulega litlu upplagi. Myndirnar aftur með leyfi Jyllands Posten og í leiðara blaðsins var Jyllands Posten hrósað fyrir birtinguna.

Þetta mál hefur vakið upp gríðarleg viðbrögð hér í Skandinaviu svo og í Mið Austurlöndum. Segja má að þetta mál sé skólabókadæmi um síaukna árekstra þessa tveggja heima. Í eftirfarandi greinaröð hyggst ég reyna að útskýra þetta mál án þess að koma mínum persónulegu skoðun á framfæri í of miklu mæli.

Árið 1988 var bókin „Vers Satans“ (The Satanic Verses) gefin út. Bókin er eftir Salman Rushdie og er að hluta byggð á lífi Spámansins Muhammad. Eftir útgáfu bókarinnar lét Ayatollah Ruhollah Khomeini íranskur Shi´a klerkur þau orð falla að höfundur bókarinnar og allir þeir sem að útgáfu bókarinnar komu væru brotlegir um dauðasök og að það væri í raun skylda allra fylgjenda Islam að myrða þá. Í kjölfarið var japanskur þýðandi myrtur auk þess sem ráðist var á útgefanda bókarinnar í Noregi og ítalskan þýðanda bókarinnar. Margir spyrja sig ef til vill hvað þetta atvik hefur með málið að gera. Að mínu mati er þetta mjög svipaður árekstur milli þessara tveggja heima. Árið 1998 var svo dauðadómnum aflétt og höfundurinn kom fram úr felum, eftir að hafa verið undir vernd lögreglu svo árum skipti.

Islam er í eðli sínu friðsæl trú, nafnið Islam þýðir eftir því sem ég best veit, „Hin friðsæla undirgefni við guð“. Af vestrænni fjölmiðlamennsku að dæma virðist þó sem Islam sé gegnsýrt af heitrúarmönnum sem túlka Kóraninn gagnrýnislaust og af miklum trúarhita. Eftir 11. september 2001, var mikið rætt um hugsanlega spennu sem vanþekking beggja heima myndi hafa í för með sér og oft virðist sem svo að þær raddir hafi kafnað. Enn í dag þekkjum við Islam eins lítið og áður og enn í dag fáum við frekar einsleita mynd af trúarbrögðunum. Teikningarnar í Jyllands Posten eru til að mynda undir miklum áhrifum frá þeirri ímynd hryðjuverkamanna sem glymur á okkur uppá hvern dag í fjölmiðlum.

Greinin er sú fyrsta í greinaröð höfundar.
Mynd: http://epaper.jp.dk

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand