Vinstri grænir í meirihluta – nei takk!

,,Vei þeim er tekur vísvitandi þá ákvörðun að gerast hækja Sjálfstæðisflokksins eftir næstu kosningar, sama hvaða flokkur það yrði. Kjósendur þurfa líka að senda skýr skilaboð í næstu kosningum, þau eru að kjósa Samfylkinguna. Samfylkingin er trúverðugt stjórnmálafl sem hefur vilja, getu og hæfileikana til að leiða næstu ríkisstjórn jafnaðarmanna eftir 12. maí næstkomandi.“ Segir Baldur Ingi Ólafsson formaður Ungra jafnaðarmanna í Mosfellsbæ í grein dagsins.

Í mínum heimabæ, Mosfellsbæ, er meira púður lagt í að kæfa niður íbúalýðræði heldur en að sætta deiluaðila vegna tengibrautarinnar við Helgafellsland. Enn undarlegra er að þar fari Vinstri grænir fremstir og verja aðgerðir og gerræðisleg vinnubrögð Sjálfstæðismanna. Þeir hafa einnig staðið fyrir ofsóknum á Varmársamtökin. VG fara hamförum á bloggsíðum, dagblöðum og nota bæjarblaðið óspart til að koma höggi á Varmársamtökin með óupplýstri umræðu. Fyrir þá sem ekki vita þá eru Varmársamtökin íbúasamtök sem vilja stuðla að náttúruvernd og íbúalýðræði.


Í nokkrum bloggfærslum Vinstri grænna sem og málgagni þeirra í bænum, má lesa hversu þeim séu illa við þessi samtök, þar sem þau séu pólitísk og þau séu notuð í einhverju samsæri gegn VG með stöðugum árásum á þá og stefnu þeirra. Það að nokkrir félagar í samtökunum séu í stjórnmálaflokkum gerir þau ekki pólitísk, sú staðreynd að þarna séu allraflokka kvikindi gerir þau meira þverpólitísk. Innan Varmársamtakanna eru Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir, Framsóknarmenn, Frjálslyndir og Samfylkingarfólk.


Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gáfu Vinstri grænir út að þessi tengibraut við Helgafellslandið færi aldrei framhjá Álafosskvos. Strax eftir kosningar: Hviss bamm búmm, allt gleymt og grafið.


Í öllu þessu fjaðrafoki gleymist hinsvegar að VG hafa greitt atkvæði með lagningu umdeildrar tengibrautarinnar við Helgafellsland og segja enga aðra leið færa, án þess svo mikið sem að rannsaka málið. Þá reyndu samtökin að fá óháðan aðila til að gera úttekt á öðrum valkostum.


Hart var lagt að þeim aðila að láta kyrrt liggja og það af Sjálfstæðisflokknum.


Varmársamtökin þurftu þá, í skjóli nætur, að leita til sérfræðinga til að skila af sér þeirri tillögu sem þeir hafa kynnt að undanförnu.


Vei þeim er tekur vísvitandi þá ákvörðun að gerast hækja Sjálfstæðisflokksins eftir næstu kosningar, sama hvaða flokkur það yrði. Kjósendur þurfa líka að senda skýr skilaboð í næstu kosningum, þau eru að kjósa Samfylkinguna. Samfylkingin er trúverðugt stjórnmálafl sem hefur vilja, getu og hæfileikana til að leiða næstu ríkisstjórn jafnaðarmanna eftir 12. maí næstkomandi. Samfylkingin hefur sýnt að þar sem þeir eru við stjórn, þar eru verkin látin tala. Samfylkingin þarf ekki að rifja upp hverju þau lofuðu fyrir kosningar til þess að kasta því fram kortéri fyrir kosningar. Fólkið í Samfylkingunni stendur við kosningaloforðin og framkvæmir þau.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand