Viljum við nógu mikið?

,,Hins vegar getur lagasetning hjálpað okkur í þeirri vegferð að breyta ómeðvituðum hugsunarhætti. Beitt jafnréttislöggjöf sýnir að okkur er alvara í jafnréttismálum“. Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna.

Það liggur frumvarp fyrir Alþingi núna sem snýst um jafnan rétt og stöðu karla og kvenna. Gagnvart þessu frumvarpi finnst mér að þau sem á Alþingi sitja, sem og við hin, þurfum að gera upp við okkur hvort við höfum raunverulegan áhuga á jafnrétti kynjanna. Við eigum nefnilega enn eftir að laga margt hjá okkur þótt jafnréttisbaráttan hafi á mörgum sviðum skilað góðum árangri. Kynbundinn launamunur viðgengst enn þá og það er skandall. Margar konur eru enn fórnarlömb kynbundins ofbeldis, sem lamar þær. Staða jafnréttismála á vinnumarkaði er langt í frá nógu góð og á því tapar þjóðfélagið.
Hlutunum verður ekki reddað á einu bretti með því einfaldlega að búa til lög um þá. Hvað varðar jafnréttismál kynjanna er það fyrst og fremst eitthvað í hausnum á okkur sem við þurfum að breyta. Hins vegar getur lagasetning hjálpað okkur í þeirri vegferð að breyta ómeðvituðum hugsunarhætti. Beitt jafnréttislöggjöf sýnir að okkur er alvara í jafnréttismálum.

Í frumvarpinu, sem varð til eftir starf þverpólitískrar nefndar undir forystu fyrrum hæstaréttardómara, felast ný tæki til að fylgja eftir því sem lögin kveða á um. Jafnréttisstofa fær til dæmis rýmri heimildir til upplýsingaöflunar og að setja á dagsektir sé lögunum ekki fylgt. Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verða bindandi. Umsækjandi um starf getur krafist rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu umsækjanda af gagnstæðu kyni. Síðast en ekki síst er launafólki tryggður réttur til að skýra frá launum sínum ef það sjálft kýs, en þetta atriði er í stjórnarsáttmálanum.
Þetta merkilega frumvarp varð til eftir mikla vinnu margs fólks. Það byggir á þeirri staðreynd að í löggjöfina í dag vantar tæki til að fylgja henni eftir. Það byggir á meðvitund um að jákvæðar breytingar í fortíðinni hafa orðið einmitt svona: Með samstilltu átaki og meðvitund um að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér.
Ég vil ítreka að ef við höfum raunverulegan áhuga á jafnrétti kynjanna, þá verður þetta frumvarp að lögum án þess að tennurnar verði dregnar úr því.

    Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 30. nóvember

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand