Samfylkingin mun leggja til róttækar breytingar á kosningalögum á komandi þingi. Breytingarnar eiga að færa kosningar nær fólki og markmiðið með þeim er að auka kosningaþáttöku almennt, þó sérstaklega meðal ungs fólks. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Þetta eru breytingarnar sem flokkurinn vill gera á kosningalögum:
- Öllum verði frjálst að kjósa utan kjörfundar og utankjörfundarkjörstöðum verði fjölgað.
- Settir verði upp færanlegir kjörstaðir sem heimsæki skóla, fjölmenna vinnustaði og aðra fjölfarna staði í aðdraganda kosninga og allir verði hvattir til að kjósa sem fyrst.
- Afnema ákvæði kosningalaga um að aldraðir og aðrir sem ekki komast á kjörstað þurfi uppáskrift annarra til að geta kosið heima. Það verði valkostur fyrir þá sem vilja og öllum frjálst.
Þá styður flokkurinn að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum.