Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir það siðferðislega skyldu okkar Íslendinga að hjálpa flóttafólki. Hún segir að Reykjavík vilji fá ríkið í lið með sér til að tryggja komu flóttafólks. Þetta sagði hún í umræðum um málið í borgarstjórn í gær. Þar ræddu borgarfulltrúar tillögu um að Reykjavíkurborg hæfi viðræður við ríkið um móttöku fleira flóttafólks en samningar kveða á um.
Í ræðu sinni velti hún fyrir sér af hverju flóttafólk þyrfti að leggja á sig hið lífshættulega ferðalag yfir Miðjarðarhafið til að geta sótt um hæli í Evrópu. ,,Ég hef velt því fyrir mér af hverju fólk getur ekki sótt um í sínu landi og af hverju ábyrgð flugfélaga á að flytja fólk tilbaka er þá ekki aflétt svo fólk geti tekið flug í stað þess að fara á hættulegum bátum yfir miðjarðarhafið,“ sagði Heiða Björg. ,,En þannig eru lög í dag og sjálfsagt margt þarna sem ég ekki kann skil á.“
Heiða lagði áherslu á að Sýrlendingar væru ,, fólk rétt eins og við, sem stendur frammi fyrir hörmungum lífs síns, sem sumir hreinlega lifa ekki af. Það er vissulega erfitt fyrir okkur hér á verndaða Íslandi að ímynda okkur þá stöðu sem fólk er í en við þekkjum þó hremmingar eins og jarðskjálfta og eldgos. Við þekkjum hve mikilvægt það er að finna samstöðu í slíkum aðstæðum,“ sagði Heiða.
,,Ég veit vel að þetta kostar en ég met það svo að við getum ekki bara gert ekki neitt,“ sagði Heiða að lokum.
Tillagan var samþykkt af öllum fulltrúum að frátöldum Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá.