Viðvarandi úrræðaleysi – mannréttindi fyrir suma?

,,Úrræðaleysið virðist mest gagnvart þeim hópum sem erfitt eiga með að berjast sjálfir fyrir réttindum sínum. Eigum við erfiðara með að setja okkur í spor þeirra sem minna mega sín eftir því sem okkur gengur betur?“ spyr Guðrún Birna varaformaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík.

Ég varð hugsi eftir að hafa horft á Kompás þann 23. október síðastliðinn. Þar var fjallað um 45 ára þroskaheftan mann sem velkst hafði um í kerfinu frá barnsaldri en hvergi fengið viðeigandi meðferð. Hann hefur gengið í gegnum ófáar hrakfarir, missti móður sína ungur, lenti á vergangi í kerfinu, var sendur heimili frá heimili og fékk að lokum inn á sambýli. Þar myrti hann vinkonu sína og var settur í gæsluvarðhald fyrir það þó ósakhæfur væri og hefur síðan verið á réttargeðdeildinni á Sogni.

En þetta er því miður ekki einangrað dæmi því víða er brotið á mannréttindum þeirra sem minna mega sín í samfélagi okkar. Það er sorgleg staðreynd þar sem við eigum að heita ein ríkasta þjóð í heimi og ef okkur tekst ekki að leyfa einstaklingum þessa þjóðfélags að lifa með reisn, hvar er heimur okkar staddur þá – hvernig eiga aðrar þjóðir að geta gert betur?

Vandamálið er ekki að mannréttindi fatlaðra, aldraðra, barna, fanga ofl. séu ekki varin með lögum heldur fellst vandinn í þvi að hið opinbera er ekki að sinna þeirri lögbundnu skyldu sinni að tryggja rétt þessara einstaklinga. Málefni þessara hópa hafa einfaldlega ekki verið sett í forgang hjá íslenskum stjórnvöldum í tíð síðustu ríkisstjórnar þó þjóðarbúið hafi auðgast. Ofan á það bætist að hið opinbera hefur ekki metið störf þeirra að verðeikum sem vinna að umönnun, þjónustu og aðbúnaði þeirra sem minna mega sín. Þar að leiðandi tekst hinu opinbera ekki að manna störf, mæta þörfum og rækja skyldur sínar við borgarana.

Ætlar ný ríkisstjórn að gera betur?

Nýrri ríkisstjórn og meirihlutanum í borginni býður ærið verkefni fyrir höndum, það þarf að lyfta grettistaki á nær öllum sviðum velferðarþjónustu. Ég hef starfað á ýmsum sviðum velferðarþjónustunnar í gegnum tíðina og sú reynsla blés mér í brjóst þá réttlætiskennd sem hvatti mig til að leggja Samfylkingunni lið og hjálpa til við að bæta það samfélag sem við búum í.

Eftir að hafa horft á fyrrgreindan Kompás þátt þá er ég hugsi yfir aðbúnaði fanga og afbrotamanna á Íslandi og þá ekki síst þeirra sem glíma við geðfötlun eða þroskahömlun að einhverju tagi. Maðurinn sem Kompás fjallaði um var einmitt ósakhæfur þegar hann framdi það voðaverk sem hann hefur síðan setið inni á Sogni fyrir, samt sem áður var hann settur í gæsluvarðhald eins og sakhæfur einstaklingur og hefur í afplánun (eða geymslunni) á Sogni ekki notið viðeigandi sálfræðiaðstoðar eins og jafn veikum manni og honum sæmir.

Aðstæður hafa lítið lagast frá 1991

Sumarið 2006 vann ég sem fangavörður í fangageymslunni á Hverfisgötu og þá rak ég augun í ýmislegt sem ekki er ásættanlegt. Ljóst er, miðað við frásögn Kompás af framkvæmd mála árið 1991, að það hefur ekki mikið breyst í þessum málum síðan þá. Fangageymslan virðist vera notuð sem geymslustaður fyrir afgangsstærðir í kerfinu, fyrir þá sem ekki eru til nein viðeigandi úrræði fyrir. Ástæðan er ýmist sú að þeim úrræðum hefur ekki verið komið á fót eða að þau sem til staðar eru anna ekki eftirspurn vegna þess að það vantar fjármagn eða mannskap til að halda uppi viðeigandi aðstoð. Steinsteyptur, harðneskjulegur klefi í fangageymslunni að Hverfisgötu er oft eina úrræðið sem í boði er að sinni og þó lögreglu og starfsmönnum fangageymslu líki illa við að taka á móti þessum einstaklingum á þennan hátt þá er ekki í önnur hús að vernda og enginn annar tilbúinn að taka við þeim. Mjög algengt er að þangað komi einstaklingar sem ekki komast strax að hjá geðdeild eins og t.a.m. þeir sem reyna að svipta sig lífi og ósjálfráða verðandi mæður undir áhrifum. Að lokum má nefna að ósjaldan er komið með ólögráða börn sem barnavernd eða Meðferðarheimilið Stuðlar geta ekki tekið strax við, svo fátt eitt sé nefnt.

Óásættanleg aðstaða og skortur á úrræðum

Það er ekki nóg með það að starfsfólk fangageymslunnar hafi ekki nægilega þekkingu og menntun til að taka á móti þessum einstaklingum heldur er aðstaðan þarna engan veginn ásættanleg. Hún er ekki einu sinni fullnægjandi til að taka á móti þeim sem réttilega eru færðir þangað, en í þeim hópi eru ósjaldan einstaklingar í annarlegu ástandi og oft undir miklum áhrifum áfengis og vímuefna. Reglulega kemur það fyrir að einstaklingar reyna að fyrirfara sér eða skaða sig á einhvern hátt í klefunum og er því óviðunandi að ekki sé möguleiki á að vista þá í bólstruðum klefa eða að hafa klefana þannig útbúna að hægt sé að fygjast vel með þeim sem líklegir eru til að skaða sig. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þess háttar klefa er heldur ekki að finna á geðdeild eða annars staðar hér á landi þó þeir séu algengir erlendis.

Stóra spurningin er, hvers vegna hefur ástandið ekki batnað með vaxandi velmegun í samfélagi okkar? Úrræðaleysið virðist mest gagnvart þeim hópum sem erfitt eiga með að berjast sjálfir fyrir réttindum sínum. Eigum við erfiðara með að setja okkur í spor þeirra sem minna mega sín eftir því sem okkur gengur betur? Nú er kominn tími til að standa við bakið á þeim hópum sem hafa orðið útundan í aukinni velmegun undanfarinna ára, við verðum að hefja umræðu um það hvernig þjóðfélag við viljum byggja. Fyrir mér er svarið einfalt, ég vil byggja upp þjóðfélag jafnra tækifæra þar sem allir, óháð stétt og stöðu, geti haldið mannlegri reisn en ekki þjóðfélag þar sem aðeins sumir njóta fullra mannréttinda.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand