Hver á að passa barnið mitt?

,,Það er slæmt ef einstaklingar þurfa að vera tortryggnir í hvert skipti sem umbætur eiga sér stað í þjóðfélaginu vegna hættunnar á því að þær verði afturkallaðar“. segir Valgerður Húnbogadóttir í grein dagsins.

Menn eru fljótir að gleyma. Eða ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að bæjarstjórn Akureyrar ætlar að afturkalla hækkun á niðurgreiðslu með börnum hjá dagforeldrum sem samið var um 7. september 2006. Í grein sem birtist á heimasíðu Akureyrarbæjar, akureyri.is, 13. september 2006 kemur fram að markmiðið með fyrrgreindum samningi hafi verið þríþætt: 1. Að jafna stöðu allra foreldra á Akureyri óháð því hjá hvaða dagforeldri þeir hafa börn sín. 2. Að tryggja að foreldrar sem hafa börn sín hjá dagforeldri greiði sama gjald og ef barnið væri í leikskóla. 3. Að auka starfsöryggi þeirra dagforeldra sem eru í þessu starfi til lengri tíma og efla þar með þjónustu þeirra.

Það var mikið fjallað um þessa hækkun á niðurgreiðslu Akureyrarbæjar í fjölmiðlum. Nú er hinsvegar í umræðunni að bæjaryfirvöld ætli að draga til baka fyrrnefnda hækkun og ekki hefur einn einasti fulltrúi bæjarstjórnar birst á sjónvarpsskjánum og útskýrt þessar breytingar sem munu bitna á foreldrum. Að vísu svaraði Elín Margrét Hallgrímsdóttir því hlæjandi er hún var spurð um málið, að bæjarstjórnin myndi gera betur næst. Er það kannski málið að þeir tjá sig eingöngu um umbætur sínar en ekki um afturför? Var nýr þjónustusamningur við dagforeldra kannski ekkert annað en auglýsing? Að því er ég best veit eiga flestir fulltrúar sem sitja í bæjarstjórn sjálfir börn, en ef til vill eru þeir búnir að gleyma því hversu mikilvægt það er að eiga greiðan aðgang að öruggri daggæslu fyrir börn á þeim aldri er um ræðir. Kannski gera þeir sér ekki grein fyrir því hvernig það er að geta hvorki stundað vinnu né nám vegna skorts á öruggri barnagæslu. Ef til vill eru þeir tilbúnir að bera ábyrgð á þessum breytingum og taka það að sér sjálfir að sjá um börnin einn þriðja úr mánuði eða sem lækkuninni nemur.

Þess má geta að í dag greiðir höfundur 22.325 kr. á mánuði fyrir daggæslu. Ef verður af þeirri lækkun á niðurgreiðslu sem á að eiga sér stað í janúar mun höfundur greiða 34.325 kr. á mánuði. Setjum upp reikningsdæmi: 12.000 krónur á mánuði eru 144.000 krónur sem bætast ofan á árleg útgjöld barnafólks. Þessi auknu útgjöld koma einmitt verst við fólk í minni stöðu, fólk sem reynir að stunda nám á þeim takmörkuðu námslánum sem ríkið veitir. Þess má ennfremur geta að 144.000 kr. eru um það bil 200.000 kr. í laun fyrir skatta.

Það er slæmt ef einstaklingar þurfa að vera tortryggnir í hvert skipti sem umbætur eiga sér stað í þjóðfélaginu vegna hættunnar á því að þær verði afturkallaðar. Ég vona að foreldrar barna hjá dagforeldrum á Akureyri taki þessu ekki þegjandi og hljóðalaust og hvet ég þá eindregið til að skrifa nöfn sín á undirskriftalista sem nú liggja frammi hjá flestum dagforeldrum. Ennfremur hvet ég bæjarstjórn til að gera ekki betur næst, heldur núna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 1 nóvember 2007

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand