Viðurkennum alla Íslendinga!

Ég er alls ekki með þessu að segja að Reykjavík og nágrenni séu slæmir staðir að búa. Ég er aðeins að minna á landsbyggðina sem raunhæfan búsetukost sem vill stundum gleymast í öllum þessum yfirtökum, hagnaði og stóriðjum. Að lokum vil ég minna á hina geysimerkilegu „Aldrei fór ég suður“ tónleikaveislu sem haldin er á Ísafirði um páskana. Síðastliðinn föstudag var haldið málþing í Háskóla Íslands og var umræðuefnið Menning heyrnarlausra. Málþingið var haldið af nýstofnuðu Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, með Rannveigu Traustadóttur, forstöðumann setursins í fararbroddi, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnardaufra sem og Félagi heyrnarlausra.

Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt málþing er haldið hér á landi og mátti sjá að tími var til kominn, enda fullur salur af fólki og rúmlega það. Ekki sá ég glitta í fjölmiðlafólk á svæðinu en það kom mér afar mikið á óvart, enda sérstakur atburður þarna á ferð. Málþingið var einstakt að því leytinu til að bæði var um táknmálstúlkun að ræða sem og raddtúlkun þar sem þrír af fjórum fyrirlesaranna voru táknmálstalandi.

Vel var staðið að öllum hlutum og ber að hrósa þeim sem að þinginu stóðu fyrir frábærlega vel unnið verk. Í hléi var svo boðið uppá atriði úr því frábæra leikriti Viðtalið sem verið er að sýna í Hafnafjarðarleikhúsinu um þessar mundir en það er svokallað Döffleikhús þar sem hluti leikara er táknmálstalandi.

Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrndardaufra, reið á vaðið og kynnti niðurstöður úr meistararitgerð sinni í uppeldis- og menntunarfræði. Ritgerð Valgerðar var rannsókn um reynslu, þátttöku og skilning Döff einstaklinga á hinu heyrandi samfélagi.

Það er kannski vert að staldra við skilgreininguna á Döff. Þeir sem tala táknmál og tilheyra menningarsamfélagi heyrnarlausra kalla sig Döff, á ensku Deaf með stórum upphafsstaf. Döff er sér menningarsamfélag og minnihlutahópur á Íslandi – sem og annars staðar í heiminum. Valgerður komst að því að andstætt viðhorf og gildismat ríkir milli heyrandi og Döff einstaklinga. Almennt telja hinir heyrandi að heyrnarlausir séu fatlaðir einstaklingar og hljóti bara að líða illa. Hvers vegna reyna þeir ekki bara að læra að lesa af vörum og tala? Ef heimurinn væri bara svona einfaldur. Döff einstaklingar eru stoltir af uppruna sínum og móðurmáli, táknmálinu, líkt og við heyrandi og íslenskutalandi erum stolt af okkar uppruna og íslenskunni okkar. Þar sem aðeins lítill hluti Íslendinga talar táknmál geta samskipti milli þessara tveggja hópa oft verið erfið og upplýsingaflæði því að skornum skammti.

Samræður flytja meiri upplýsingar en orðin sem sögð eru. Samskipti miðla þannig einnig tilfinningum og eru nauðsynleg viðurkenning á tilvist manns og leggur grunn að því hver maður er. Valgerður kom inná það hvernig íslenskan okkar er sjálfsagt mál, hana þarf ekki að rökstyðja eða berjast fyrir. Aðra sögu er að segja um táknmálið. Enn hafa Íslendingar ekki viðurkennt íslenska táknmálið sem móðurmál þessa hóps en þess má geta að Svíar fagna nú í ár 25 ára afmæli sænska táknmálsins sem móðurmáli. Hérna koma peningaleg sjónarmið í veg fyrir viðurkenningu tákmálsins. Það að læra ensku er talin vera fjárfesting til framtíðar, hvað með táknmálið? Önnur tungumál, s.s. íslenska og enska, njóta meiri virðingar en íslenska táknmálið og er það að mínu mati til skammar að íslenska þjóðin hefi enn ekki veitt þessum málminnihlutahópi Íslendinga viðurkenningu.

Það er nauðsynlegt að við förum að styrkja ímynd samfélags heyrnarlausra sem menningar- og málsamfélags og kveðum niður það viðhorf til heyrnarlauss fólks að það sé sjúkt og þurfi lækningu. Heyrnarlaus manneskja getur illa lifað án táknmálsins, líkt og við gætum illa lifað án okkar móðurmáls. Hvar liggur vandinn?

Júlía Hreinsdóttir, fagstjóri í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnardaufra, tók þvínæst til máls og kynnti fyrir fólki menningu Döff. Hún benti á að menning hverrar þjóðar væri bundin tungumálinu, einnig í heimi Döff. Samskiptareglur eru einnig mismunandi í heyrandi heimi og heimi Döff en þar er meira um snertingu, augnsamband, fólk veifar og stappar niður fótum.

Júlía kom með nokkur dæmi um það sem margir heyrnarlausir þekkja ekki í hinum heyrandi heimi. Má þar t.d. nefna Þjóðsönginn okkar og gömlu þjóðsögurnar sem eru þannig skrifaðar að íslenskutalandi fólk á oft erfitt með að lesa þær. Þetta er þó að breytast í dag þar sem meira er um túlkunarþjónustu og menntunarstig heyrnarlausra er að hækka. Heyrnarlausir líta á táknmál sem sjálfsagt mál og samsama sig við aðra táknmálstalandi um allan heim. Þannig eru haldnir Olympíuleikar heyrnarlausra og ýmsar ráðstefnur víða um heim.

Næst tók til máls Berglind Stefánsdóttir formaður Félags heyrnarlausra og aðstoðarskólastjóri táknmálsviðs í Hlíðarskóla. Berglind talaði um áhrif samfélagsbreytinga á Döff menningu en með tilkomu aukinnar tækni og meira framboði af túlkum eru heyrnarlausir meira meðvitaðir um það sem er að gerast í hinum heyrandi heimi auk þess sem heimurinn hefur minnkað. Vagga menningar heyrnarlausra hefur færst úr skólanum og yfir til fjölskyldunnar og ýmissa stofnanna samfélagsins. Heyrnarlausir í dag rekast ekki á eins margar hindranir og þeir gerðu áður fyrr og fá yfirleitt jákvæða svörun frá sínu nánasta umhverfi við öllu því sem þeir vilja gera. Má í því skyni nefna að heyrnarlausir geta líka orðið læknar, flugmenn, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og kokkar. Viðhorf fólks gagnvart heyrnarlausum er að breytast, fólk er í auknum mæli farið að líta á heyrnarlausa sem jafningja sína en ekki óæðri mannverur. Hver veit, kannski verður samfélagið þannig eftir 50 ár að flestir heyrandi tala táknmál.

Síðastur í pontu var Haukur Vilhjálmsson, menningarfulltrúi Félags heyrnarlausra, og kynnti hann fyrir salnum Norrænu menningarhátíð heyrnarlausra sem haldin verður á Akureyri í júlí í sumar. Slík menningarhátíð er haldin á 4ra ára fresti en hún var haldin í fyrsta skipti hérlendis árið 1986. Sú hátíð var einmitt stór þáttur í baráttumálum heyrnarlausra. Norðurlandaráð krefst þess að hátíðin sé túlkuð en á þeim tíma voru ekki starfandi túlkar hérlendis. Það kom því í hlut nokkurra góðra einstaklinga að túlka hátíðina. Eftir þetta var Samskiptamiðstöðin stofnuð, Dvalarheimili aldraðra heyrnarlausra og sambýli fyrir fjölfatlaða heyrnarlausa voru stofnuð og barátta heyrnarlausra varð ögn auðveldari. Slík hátíð er því afar mikilvæg fyrir menningu Döff sem og menningu okkar allra.

Eins og áður kom fram var þetta málþing afar vel heppnað og verð ég að lýsa mikilli ánægju minni með hversu vel allar upplýsingar komu fram þó svo að notuð væru tvö tungumál. Tel ég þetta vera gott dæmi um það að samskipti milli heyrandi og heyrnarlausra eru alls ekki ómöguleg, þvert á móti geta þau gengið afar vel fyrir sig og haft góð áhrif á báða aðila. Heyrnarlausir hafa í aldanna rás búið við kúgun hins heyrandi heims og tel ég lítið lát vera þar á. Vissulega hefur eitthvað breyst til batnaðar en alls ekki nóg. Í könnun sem unnin var fyrir Félagsmálaráðuneytið árið 2004 kom fram að heyrnarlausir búa enn í dag við félagslega einangrun – líka hérna á Íslandi. Samskipti heyrnarlausa við heyrandi eru skammarlega lítil og hverju er um að kenna? Eins og áður sagði eru fáir Íslendingar sem tala táknmál og því lítið um samskipti utan samfélags heyrnarlausra. Ég tel að í öllum grunnskólum landsins ætti að vera boðið uppá táknmál sem valnámskeið, ef ekki bara skyldunámskeið. Með því gætu allir borgarar þessa lands fengið grunn í íslensku táknmáli og lært á tjá sig við landa sína sem ekki tala íslensku. Táknmál er kennt í örfáum framhaldsskólum en sú kennsla sem þar fer fram er skref í rétta átt. En betur má ef duga skal.

Frumvarp til laga um táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra hefur enn ekki fengið þá umræðu sem það á skilið inni á Alþingi þrátt fyrir að hafa fyrst verið lagt fram Alþingisárið 2003-2004. Lítið sem ekkert hefur komið útúr þeim nefndum sem áttu að skoða málefni heyrnarlausra. Heyrnarlausir fá einungis 8 mínútna fréttatíma dag hvern. Hversu lengi á þetta að ganga svona? Mér finnst mál til komið að við förum að sparka í rassinn á okkur og gera eitthvað í málunum. Ég skora á heyrandi Íslendinga að líta í eigin barm og ímynda sér þann veruleika ef tungumál ykkar væri ekki viðurkennt af meirihluta þjóðarinnar. Viðurkennum alla Íslendinga!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið