Tvöfaldur sigur

Þegar ég var í kynfræðslu hér á árum áður sagði kennarinn okkur 8. bekkingum í grunnskólanum á Sauðárkróki að við ættum bara einn líkama og fengjum bara einn sjens. Við Íslendingar eigum bara eitt land og við fáum bara einn sjens, snúum baki við stóriðjustefnunni og virkjum landsbyggðina á annan máta, það er alveg hægt. Hér á eftir má finna ræðu sem ég flutti á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var síðustu helgi.

Samfylkingin er ungur flokkur, aðeins tæplega 6 ára gamall – en þrátt fyrir það byggir Samfylkingin á gömlum grunni og á klassískri jafnaðarstefnu. Á nýliðinni öld höfðu jafnaðarmenn mótandi áhrif á íslenskt samfélag í mörgum grundvallaratriðum. Má þar nefna

• afnám haftastefnunnar,
• útfærslu landhelginnar,
• aðildina að EFTA,
• uppbyggingu menntakerfisins,
• frelsi í gjaldeyrismálum og
• EES-samninginn en með honum kom það frelsi sem við höfum upplifað undanfarin áratug.

Þá má einnig nefna
• hlut okkar fólks í sigrinum á verðbólgunni með þjóðarsáttinni,
• umbætur í almannatryggingum,
• gríðarlegar framfarir í húsnæðismálum,
• einsetningu grunnskólans,
• straumhvörf í jafnréttismálum,
• sjálfstæði Seðlabankans,
• byltingu í leikskólamálum borgarinnar og svona mætti lengi telja.

Sóknarfæri í menntamálum
Ég sé mörg sóknarfæri fyrir Samfylkinguna á landsvísu. Ríkisstjórnin er þreytt, og úr sér gengin. Nú ætlum við að kynna kjósendum okkar stefnu okkar og forgangsmál og síðast en ekki síst hvernig ætlum að koma stefnumálum okkar í framkvæmd.

Fyrsta sóknarfæri flokksins felst í menntamálunum. Við eigum að leggja þunga áherslu á menntamál í okkar málflutningi. Menntakerfið er jöfnunartæki nútímans. Menntakerfið er eitt helsta verkfæri okkar jafnaðarmanna. Nú blasir við fjársvelti og stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar. Háskólastigið er fjársvelt en íslenska ríkisstjórnin ver helmingi minna fjármagn í háskólana en aðrar Norðurlandaþjóðir.

Íslenska ríkisstjórnin ver talsvert minna fjármagni í framhaldsskóla en það sem aðrir gera og í fyrsta skiptið í sögunni þurfa framhaldsskóla landsins að vísa nemendum frá vegna fjárskorts. Rúmlega helmingur Íslendinga hefur lokið meiri menntun en grunnskólapróf og mikill skortur er á iðn- og verknámi í landinu. Þessi staða er óviðundandi og við höfum einfaldlega ekki efni á þessu sinnuleysi ríkisstjórnarflokkanna í menntamálum.

Sóknarfæri í velferðarmálum
Í velferðarmálum felst annað sóknarfæri Samfylkingarinnar. Þá á ég ekki síst við málefni eldri borgara. Sú staðreynd að þriðji hver eldri borgari neyðist til að lifa á 100.000 kr. eða minna á mánuði særir réttlætiskennd okkar. Nánast daglega berast okkur fréttir af óviðunandi stöðu þeirra.

Nú eru t.d. tæplega 400 eldri borgarar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og endurtekin setuverkföll starfsfólks á hjúkrunarheimilum eru staðreynd. Við þurfum að leysa þessi mál og draga úr tekjutengingum í kerfinu og tryggja atvinnuþátttöku þeirra sem eldri borgara sem það kjósa

Bætt kjör eldri borgara og þeirra sem líða skort á að vera leiðarljós okkar í velferðarmálum.

Sóknarfæri í efnahagsmálum
Þriðja sóknarfærið felst í efnahagsmálunum. Við stöndum fyrir framsýna og frjálslynda efnahagstefnu sem fólk treystir og skilur. Þess vegna er mikilvægt að Samfylkingin hafi sína forgangsröðun á hreinu. Við ætlum ekki og getum ekki gert allt fyrir alla.

Sóknarfærin liggja í efnahagsmálum vegna þess að stefna okkar er sanngjörn, heiðarleg og tekur mið af þörfum almennings. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem iðulega stærir sig af árangri sem ekki er fyrir hendi þegar að er að gáð. Efnahagsmál eru einn veikasti blettur þessarar ríkisstjórnar. Áróðursmenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt sig fram um að draga upp fallegri mynd en þá raunverulegu. Og þær eru nokkrar þjóðsögurnar sem fluttar eru endurtekið fyrir þjóðina.

Þjóðsögur ríkissstjórnarinnar
Við eigum að fletta ofan af þessum þjóðsögum. Tökum sem dæmi um þjóðsöguna um stöðugleikann.

• Það er engin stöðugleiki þegar íslenska krónan hefur verið í rússíbanaferð í mörg ár og hefur á stuttum tíma sveiflast um allt að 40%?
• Er það til marks um stöðugleika þegar verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tæp 2 ár?
• Er það stöðugleiki þegar viðskiptahallinn fer upp í methæðir og skuldir þjóðarbúsins eru orðnar þær mestu af flestum vestrænum þjóðum?
• Er það stöðugleiki þegar húsnæðisverð rýkur upp úr öllu valdi og vextir á Íslandi eru þeir hæstu í Evrópu.?
• Hið sanna er að efnahagslífið býr ekki við nauðsynlegan stöðugleika og á því ber ríkisstjórnin höfuðábyrgð.

Önnur þjóðsaga lýtur að því að Sjálfstæðismönnum sé einum treystandi fyrir fjármálastjórn landsins. Sé litið á árangurinn liggur þó beinna við að halda því fram að ríkiskassin þurfi sárlega á umsjá annarra að halda. Á árunum 2000 til 2004 var áætlaður afgangur ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvörpum samtals 82 milljarðar króna. Niðurstaðan varð hins vegar 8 milljarða króna halli. 8 milljarða króna halli þrátt fyrir alla einkavæðinguna. Munurinn á áætlunum ríkisstjórnarinnar annars vegar og niðurstöðunni hins vegar varð því 90 milljarðar króna.

Þriðja þjóðsagan er um skattalækkanir. Hér hefur okkur orðið ágengt, því skoðanakannanir bera með sér að almenningur trúir ekki lengur rangfærslum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir. Hér þó einnig hægt að benda á svör núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra á Alþingi um að skattbyrðin hafi aukist á öllum tekjuhópum, nema þeim tekjuhæsta. Það hafa þeir staðfest í skriflegu svari við fyrirspurn þingmanna okkar. Ofurtekjufólkið eru þeirra skjólstæðingar og forgangsröðun. Í skattamálum blasir við mjög skýr, hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Samfylkingarinnar og stjórnarinnar.

Fjölmörg tækifæri
• Við eigum að tala fyrir bættum lífskjörum með lækkuðu verði á matvælum, lyfjum, húsnæði og lánum.
• Við þurfum að innleiða nýja hugsun í lýðræðismál þjóðarinnar og við þurfum að hugsa málefni nýbúa upp á nýtt.
• Umhverfismál eiga að fá meiri umfjöllun innan flokksins en áður. Hagnýting djúphitans getur verið eitt af meginflöggum flokksins í þeim efnum.
• Við eigum að vera framsækin í alþjóða- og öryggismálum. Við eigum taka forystu um að auka áhrif þjóðanna sem búa hér á norðurslóðum m.a. með Færeyingum, Grænlendingum, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi.
• Við eigum ekki að vera feimin við stefnu okkar í Evrópumálum. Við viljum sækja um aðild að ESB og leggja samninginn fyrir þjóðina. Og við eigum að vera opin fyrir erlendum fjárfestingum og aukinni samkeppni.
• Við þurfum að bjóða upp á raunhæfar lausnir í byggðamálum, m.a. í gegnum menntakerfið.
• Við eigum að vera skjól og málsvarar fyrir atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja en þeir eru hryggjarstykkið í atvinnulífinu.

Gott flokkstarf
Ég tel að næstu 13 mánuðir verði mikilvægasta tímabil í sögu Samfylkingarinnar. Við verðum að lítum á sveitarstjórnarkosningarnar eftir tvo mánuði og Alþingiskosningarnar á næsta ári í samhengi. Góður árangur í vor skilar okkur góðum árangri í alþingiskosningunum.

Ný forysta í Samfylkingunni hefur markvisst unnið að flokkstarfi í vetur. Fjölbreytt málefnastarf og reglubundnar heimsóknir flokksforystunnar til aðildarfélaga Samfylkingarinnar um allt land í vetur hafa þjappað flokksfélögum saman – og fjölgað þeim. Undanfarnar vikur hafa einnig fjölmargir nýir starfsmenn verið ráðnir á skrifstofu Samfylkingarinnar, m.a. til að styrkja innviði flokksins enn frekar. Fjármálin hafa verið tekin föstum tökum og ný heimasíða hefur litið dagsins ljós.
Kvennahreyfing Samfylkingarinnar var stofnuð í haust og er flokknum afar mikilvæg. Starf eldri borgara í félagskapnum 60+ skipar veigamikinn sess í starfinu. Samtökin Jafnaðarmenn í atvinnurekstri hafa einnig þegar sannað gildi sitt fyrir flokkinn. Og innan Samfylkingarinnar er starfandi ein fjölmennasta og öflugasta ungliðahreyfing landsins.

Síðan má ekki gleyma þeim glæsilegu prófkjörum sem flokkurinn hefur haldið víða um land undanfarna mánuði. Sterkir framboðslistar hafa litið dagsins ljós og flokkurinn hefur aldrei verið eins fjölmennur.

Skýrt markmið
Markmiðið í komandi kosningum þarf að vera skýrt. Við þurfum að hungra í sigur og leikgleðin og bjartsýnin þurfa að vera til staðar.

Samfylkingin leiðir nú þegar meirihlutasamstarf í sveitastjórnum víða um land. Flokkurinn er reiðubúinn til þess að axla enn meiri ábyrgð í sveitarstjórnum landsins og í landsmálunum og hann ætlar sér að gera það.

Ég er sannfærður um að hugmyndir og áherslur Samfylkingarinnar eiga samleið með íslensku þjóðinni. Samfylkingin býður upp á frjálslyndan valkost þar sem fjölskyldur, einstaklingar og fyrirtæki fá að njóta sín, samhliða öflugu velferðar- og menntakerfi.

Við skulum sigra tvöfalt á næstu 13 mánuðum.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand