Viðbrögð við aðför Icelandair að flugfreyjum

SONY DSC

Þann 17. júlí sleit stjórn Icelandair kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og sagði upp öllum flugfreyjum og flugþjónum sínum. Áætlun flugfélagsins ku nú vera að semja við aðra samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt forstjóra Icelandair.

Ungir jafnaðarmenn líta þessa framvindu í kjarabaráttu íslenskra flugfreyja grafalvarlegum augum. Með því að bregðast þannig við nýlegri höfnun FFÍ á kjarasamningum flugfélagsins grefur Icelandair undan samningsstöðu allra íslenskra stéttarfélaga við vinnuveitendur á óviðunandi hátt. Í reynd er um að ræða aðför að stéttarfélögum sem myndi betur sóma sér á 19. öld.

Þessar aðgerðir Icelandair hafa verið réttlættar með vísan til rekstrarörðugleika flugfélagsins vegna alþjóðlegra ferðabanna sem sett hafa verið vegna kórónaveirufaraldursins. Ungir jafnaðarmenn viðurkenna mikilvægi þess að á Íslandi sé starfrækt flugfélag sem býður upp á regluleg millilandaflug en það er með öllu óásættanlegt að starfsstétt flugfreyja – og mögulega allar verkastéttir Íslands – borgi brúsann af því að bjarga Icelandair með því að skerða langtímakjör sín eða fórna samningsstöðum sínum í komandi kjaraviðræðum.

Ungir jafnaðarmenn telja viðbrögð ríkisstjórnarinnar, sér í lagi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, við kjaraviðræðunum og dauðastríði Icelandair heldur ekki til fyrirmyndar. Ólíkt erlendum ríkisstjórnum sem hafa staðið statt og stöðugt við bakið á helstu flugfélögum sínum á þessum erfiðu tímum hefur afstaða ríkisstjórnar Íslands einkennst af fálæti. Þó er Ísland afskekkt eyríki þar sem rekstur milliríkjaflugs er grundvallaratriði til þess að hægt sé að tryggja stjórnarskrárbundið ferðafrelsi landsmanna. Traustari skuldbinding stjórnarinnar til að tryggja afkomu Icelandair í gegnum faraldurinn gæti og hefði getað auðveldað samningaviðræðurnar og þannig komið í veg fyrir að íslenskar verkastéttir yrðu að taka á sig skellinn til að bjarga félaginu fyrir horn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið