Umsögn Ungra jafnaðarmanna um frumvarp dómsmálaráðherra

Umsögn Ungra jafnaðarmanna um þingmál nr. 717, frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísunartilskipunin, dvalar- og atvinnuleyfi).

Almennar athugasemdir við frumvarpið

Frumvarp þetta felur í sér breytingar sem grafa undan réttindum hælisleitenda á Íslandi, sbr. umsögn Rauða kross Íslands við frumvarpið frá 26. maí 2020. Ungir jafnaðarmenn taka undir þá gagnrýni sem kemur fram í umsögninni, en Rauði krossinn er líklega þau samtök sem búa yfir mestri sérfræðiþekkingu á málefnum flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi.

Meðal atriða sem Rauði krossinn gagnrýnir í umsögn sinni er ákvæði 2. gr. um sjálfkrafa kæru og styttingu fresta til að leggja fram greinargerð vegna kæru, ákvæði 5. og 6. gr. sem þrengja að réttindum þeirra sem koma frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum, ákvæði 8. gr. um skerðingu eða niðurfellingu þjónustu þegar liggur fyrir framkvæmdarhæf ákvörðun, ákvæði 11. gr. sem skerða möguleika þeirra sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki til efnismeðferðar hér á landi, ákvæði 13. gr. um þrengingu á möguleika ríkisfangslausra einstaklinga til að hljóta vernd á grundvelli ríkisfangsleysis og ákvæði 15., 22. og 23. gr. um hertar reglur fyrir fjölskyldusameiningum.

11. gr. frumvarpsins

Sú grein frumvarpsins sem sætt hefur mestri gagnrýni er 11. gr., en hún felur í sér skerðingu á rétti þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru ríki til efnismeðferðar hér á landi. Þessi breyting mun hafa það í för með sér að stórum hópi fólks verður gert ómögulegt að hljóta efnismeðferð hér á landi þrátt fyrir að ýmsar ástæður kunni að kalla á slíka meðferð. Eins og komið hefur fram, m.a. í úrskurðum kærunefndar útlendingamála, eru aðstæður fólks sem hlotið hefur vernd í öðrum ríkjum ekki endilega ákjósanlegar og réttindi þess langt frá því að vera tryggð. Í mörgum ríkjum býr fólk við takmarkað öryggi og skert aðgengi að menntun, húsnæði og heilbrigðisþjónustu. Þá færist ofbeldi gegn flóttafólki víða í aukana og eru börn og hinsegin fólk í sérlega viðkvæmri stöðu þegar kemur að því. Ungir jafnaðarmenn telja þess vegna nauðsynlegt að flóttafólk hafi áfram rétt á efnislegri meðferð hér á landi þrátt fyrir að hafa fengið vernd í öðrum ríkjum.

Nánar um aðstæður flóttafólks í Evrópu

Eins og áður hefur fram komið felur 11. gr. frumvarpsins í sér skerðingu á rétti fólks sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum til efnismerðferðar á Íslandi. En af hverju ætti fólk sem hlotið hefur vernd í öðrum ríkjum að eiga þennan möguleika? Stór hluti umsækjenda sem falla undir þessa skilgreiningu koma frá Grikklandi og Ungverjalandi. Aðstæður fólks sem hefur hlotið vernd í þessum ríkjum eru afar erfiðar og í mörgum tilfellum hættulegar.

Grikkland
Í Grikklandi hefur ofbeldi gegn innflytjendum og flóttafólki farið vaxandi á síðastliðnum árum. Samkvæmt alþjóðlegri könnun á umburðarlyndi almennings gagnvart innflytjendum (Migrant Acceptance Index) er Grikkland í hópi þeirra ríkja þar sem minnst umburðarlyndi ríkir, eða í 115. sæti af þeim 140 ríkjum sem rannsóknin tekur til. Þó að fólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi njóti sömu lagalegu réttinda og aðrir Grikkir þá getur reynst erfitt fyrir það að verða sér úti um vinnu og húsaskjól, afla sér menntunar eða sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur m.a. komið fram í úrskurðum kærunefndar útlendingamála í málum sem varða umsækjendur sem hafa hlotið vernd í Grikklandi.

Ungir jafnaðarmenn vilja vekja athygli Allsherjar- og menntamálanefndar á þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í flóttamannabúðum í Grikklandi. Þar eru þúsundir fylgdarlausra barna fastar í yfirfullum flóttamannabúðum. Í Moría-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Lesvos ríkir neyðarástand. Búðirnar voru upphaflega byggðar fyrir 3000 manns en þar dvelja nú 20 þúsund flóttamenn í tjöldum og hreysum. Þar er skortur á hreinu vatni og rafmagni, auk þess sem sjúkdómar eru tíðir og ofbeldi daglegt brauð. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir því að ríki Evrópu bregðist við vandanum með því að taka við fylgdarlausum börnum úr flóttamannabúðunum. Nú hafa 15 ríki brugðist við og boðist til þess að taka við um 700 börnum. Ungir jafnaðarmenn hvetja Allsherjar- og menntamálanefnd til að beita sér fyrir því að Ísland taki einnig við börnum frá Grikklandi.

Ungverjaland
Í Ungverjalandi mælast viðhorf almennings til innflytjenda talsvert verri en í Grikklandi og er landið í 138. sæti af 140 samkvæmt Migrant Acceptance Index. Ríkisstjórn Viktors Orbáns hefur innleitt fjölda laga og reglugerða sem veikja stöðu flóttafólks og innflytjenda í landinu. Þar má nefna hin svokölluðu „stöðvum Soros“-lögin sem gera alla aðstoð við hælisleitendur refsiverða. Orbán hefur kynt undir fordómum gagnvart flóttafólki með yfirlýsingum sínum og hefur hann m.a. líkt flóttafólki við innrásarher. Heimilisleysi er útbreitt meðal fólks sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og algengt er að það verði fyrir ofbeldi og áreitni. Hér ber einnig að vekja athygli á réttindum hinsegin fólks í Ungverjalandi, en staða þess hefur veikst mjög á undanförnum árum. Nýlega samþykkti ungverska þingið lög sem sem fela í sér að kynskráning geti aldrei verið önnur en sú sem kemur fram á fæðingarvottorði. Þetta mun gera það að verkum að trans og intersex flóttafólk í Ungverjalandi mun þurfa að þola enn verri fordóma og jaðarsetningu en áður.

Um skilvirkni og mannúð

Ungir jafnaðarmenn telja frumvarpið að hluta til ganga gegn markmiðum útlendingalaga um að tryggja „mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi“, eins og það er orðað í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2016. Þó ýmis ákvæði frumvarpsins séu vissulega til þess fallin að bæta skilvirkni útlendingamála þá benda Ungir jafnaðarmenn á að skerðingar á réttindum fólks í viðkvæmri stöðu geti ekki talist í samræmi við markmið um mannúð, en skv. íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þýðir mannúð „umhyggja fyrir öðrum (gagnvart erfiðum aðstæðum)“. Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að aukin skilvirkni í málefnum flóttafólks megi ekki bitna á réttindum þess.

Um orð og athafnir stjórnvalda

Ungir jafnaðarmenn telja að frumvarp dómsmálaráðherra stríði gegn samstarfssáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en þar segir: „Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd.“ Skerðing á réttindum hælisleitenda er ekki skref til aukinnar mannúðar og gengur þvert gegn því markmiði að Ísland „leggi sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum“.

Í grein sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skrifaði á vef samtakanna Progressive International þann 11. maí síðastliðinn segir:

„Thus, a further weakening of the post-World War II protections for refugees and asylum seekers is a real threat. It is ever more important to support international human rights laws – which are rooted in a set of principles, including non-discrimination – as a counterweight to the ever-present nationalist temptation to exclude outsiders.“

Ungir jafnaðarmenn gagnrýna harðlega hræsnina sem felst í því að forsætisráðherra vari við skerðingu á réttindum hælisleitenda í pistli á erlendri vefsíðu á meðan ríkisstjórn hennar leggur til að skerða réttindi hælisleitenda hér heima. Ungir jafnaðarmenn hvetja forsætisráðherra til að láta gjörðir fylgja orðum og vinna gegn þeirri skerðingu á réttindum hælisleitenda sem í þessu frumvarpi felst.

Í ljósi þess að frumvarpið er komið til kasta Allsherjar- og menntamálanefndar vilja Ungir jafnaðarmenn rifja upp orð sumra þingmanna nefndarinnar um málefni flóttafólks.

Í umræðum um útlendingalög á Alþingi 20. apríl 2016 sagði Steinunn Þóra Árnadóttir:

„Eins og ég sagði í upphafi þá varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum því mér finnst enn þá að Ísland verði óþarflega lokað eða allt of lokað og hér verði of erfitt að fá hæli samkvæmt þessu lagafrumvarpi. Það sést kannski einna best í 36. gr. frumvarpsins þar sem er fjallað um flóttamenn og vernd gegn ofsóknum og skilyrðin sem þarf að uppfylla til þess að umsókn um alþjóðlega vernd sé tekin til efnismeðferðar. Hér finnst mér enn þá vera of auðvelt að vísa fólki frá vegna þess að við erum nálega aldrei, ég held hreinlega aldrei, fyrsti viðkomustaður fólks. Það kemur enginn hingað beint frá stríðshrjáðu landi og þá er alltaf hægt að vísa fólki til einhvers annars lands sem það kom hingað í gegnum. Ég er hrædd um að þetta ákvæði verði notað um of.“

Ungir jafnaðarmenn taka heils hugar undir áhyggjur þingmannsins og hvetja hana til að standa með eigin sannfæringu í umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið sem mun óhjákvæmilega leiða til þess að enn erfiðara verður fyrir fólk að hljóta alþjóðlega vernd á Íslandi.

Í umræðum um þingsályktunartillögu um aukinn stuðning við móttöku flóttafólks þann 17. september 2015 sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir:

„Við erum með fólk hér á landi sem hefur komið til okkar en fjölskylda þeirra er enn þá á heimaslóðum. Það er mikilvægt að fjölskyldusameiningar eigi sér stað og þær verði ekki einskorðaðar við einstæðar mæður eða tiltekna hópa. Það eru miklu meiri líkur á því að fólk nái fótfestu og geti endurreist líf sitt ef það hefur fleiri úr fjölskyldunni eða vinahóp hér sem fá að koma hingað til lands og vera samferða. Ef við viljum flýta fyrir því að fólk verði virkt í samfélaginu þá held ég að við þurfum að huga að þessu þegar við veljum það fólk sem til okkar kemur.“

Í ljósi þess að frumvarp dómsmálaráðherra leiðir til hertra reglna fyrir fjölskyldusameiningar hvetja Ungir jafnaðarmenn þingmanninn til að íhuga hvort samþykkt þess samræmist fyrri orðum þingmannsins um mikilvægi fjölskyldusameininga.

Lokaorð

Í ljósi alls framangreinds leggjast Ungir jafnaðarmenn gegn frumvarpinu. Þá hvetja Ungir jafnaðarmenn stjórnvöld til að endurskoða útlendingalög og framkvæmd þeirra með aukna mannúð og virðingu fyrir alþjóðlegum skuldbindingum Íslands að leiðarljósi.

Virðingarfyllst,

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, f.h. Ungra jafnaðarmanna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand