Við viljum vera vistvæn, það er bara svo erfitt

Nú þegar aðventan er skollin á og jólaösin að hefjast eru umhverfismálin mér hugleikin. Ég velti fyrir mér öllu því dóti sem við kaupum í desember, umbúðunum sem því fylgja og hvert það fer? „Flokkum og skilum“ segir Sorpa, þessi síbylja ljósvakamiðlana virðist elta mig á röndum. Það virðist því vera að fleiri séu meðvitaðir um allar umbúðir jólahaldsins og Sorpa reynir að vekja fólk til umhugsunar um vistvænan lífstíl. Slíkt er góðra gjalda vert en ég veit ekki hvort fólk gefi þessu mikinn gaum, nú í mesta jólastressinu.

Mig langar mjög að vera vistvænn, fjórflokka ruslið mitt og skila. Það er bara svo erfitt. Til þess að koma þessum fjórflokkaða úrgangi mínum frá mér, þarf ég að hlaða draslinu í bílinn og keyra í nokkrar mínútur á næstu Sorpustöð þá einu í mínu bæjarfélagi. Þetta geri ég en velti því þó fyrir mér í hvert skipti hvort þetta sé vistvæn aðgerð? Og hvort útblásturinn sem bíllinn minn gefi frá sér á þessari ferð sé jafnvel ekki skaðlegri umhverfinu? Sérstaklega núna í vetrarkuldanum.

Ef ég væri með nokkra auka tíma í sólarhringnum myndi ég mögulega hafa tíma til að rölta með sorpið mitt niður á Sorpu, það ætti ekki að taka mig nema svona um klukkutíma hvora leið. Ég gæti fjárfest í kerru og trítlað dótinu eða ferðast með Strætó. Hönnun Sorpu virðist þó ekki gera ráð fyrir því að fólk komi gangandi eða með almenningssamgöngum að staðnum sem er gjörsamlega hannaður fyrir þarfir einkabílsins og gangandi vegfarendur eiga sér fótum fjör að launa. Aukinheldur, eru stoppistöðvar Strætó sjaldan við Sorpustöð.

Hvað eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að eyða miklum pening í að hvetja fólk að vera umhverfisvænt? Og af hverju er þetta svona mikið mál að vera umhverfisvænn? Það virðist sem sveitarfélögin séu að hvetja fólk til lífstílsbreytinga. Er fólk almennt tilbúið til þess? Eða hefur það almennt tíma?

Af hverju leggjast bæjarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu ekki á eitt og færa Sorpu til fólksins, frekar en bisa við að draga fólk þangað? Þegar Græningjaflokkur Joschka Fischer ákvað að fara í ríkisstjórn í Þýskalandi, gerði hann það m.a. að kröfu sinni að fjórskiptum ruslafötum yrði komið fyrir á hverju heimili í stað ,,venjulegra” ruslafatna. Og þetta hafðist í þessu 90 milljón manna ríki á einu kjörtímabili. Eina sem þurfti var pólitískur vilji, fjórskiptar ruslafötur og – sorpbílar. Þetta eru ekki kostnaðarsamar aðgerðir í krónum talið en langtímahagnaðurinn er annar og meiri.

Ég þykist þess fullviss að ef fólki væri gert auðveldar fyrir að vera umhverfisvænt, t.d. með fjórskiptri tunnu, yrði ástand umhverfismála fljótt að breytast til batnaðar. Við erum meðvituð um umhverfið og viljum vera vistvæn – það er bara svo erfitt. Því eiga sveitarfélögin að hjálpa fólki enn frekar í þessari viðleitni. Þau eiga næsta leik.

____________________________
Greinin birtist fyrst í Kópavogi
Málgagni Samfylkingarinnar
í samnefndu bæjarfélagi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand