Um ófremdarástandið

Á nýafstöðnu landsþingi Ungra jafnaðarmanna fór m.a. fram góð og gagnmerk umræða um umhverfismál. Umhverfisnefnd UJ, sem undirritaður fór fyrir, skilaði af sér og ályktað var á mjög mörgum sviðum umhverfismála. Í bílnum á heimleiðinni heyrði ég að fyrsta frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var af ófremdarstandi í leikskólum Kópavogs. ,,Loksins!“ hugsaði ég með mér ,,loksins, loksins, loksins“ eru fjölmiðlar að varpa ljósi á þetta skelfilega ástand sem hefur verið viðloðandi síðan í september.

Reyndar var það hvorki af fróðleiks- né rannsóknarfíkn sem fréttamennirnir voru komnir á stúfana. Nei, það voru örvæntingafullar tilraunir starfsmanna leikskólanna sem nú hafa hótað fjöldauppsögnum eftir að hafa barið hausnum í stein fyrir utan bæjarstjórnarskrifstofuna í fjóra mánuði.

Að sjálfsögðu var bara tekið viðtal við bæjarstjórann og allur fréttaflutningur af þessu máli í hæsta lagi undarlegur. Viðtalið við bæjarstjórann var reyndar svo undarlegt að ég missti nærri stjórn á bílnum af hneykslan.

Í viðtalinu bölvaði Gunnar og ragnaði borgaryfirvöldum fyrir að ,,yfirtrompa“ önnur sveitarfélög og nú væri atgervisflótti af leikskólum Kópavogs yfir til Reykjavíkur. Fréttamaðurinn fylgdi spurningunni eftir með því að spyrja Gunnar hvort hann myndi þá ekki verða maður meiri ,,og yfirtrompa Steinunni Valdísi á móti.“ Því svaraði Gunnar svona: ,,já ég gæti gert það, hækkað launin um 50 eða 100% en hvar myndi þjóðfélagið enda þá?“

Og með þessari spurningu endaði viðtalið.

Það er svo margt sem kemur ekki heim og saman í ummælum Gunnars. Sú staðreynd að fréttamaðurinn hafi gefið bæjarstjóranum færi á að enda viðtalið á þessum nótum, gefur til kynna upplýsingaleysi fréttamannsins sem er því miður allt of algengt.

Leikskólakennarar í Kópavogi hafa verið verr launaðir en kollegar þeirra í Reykjavík um áralangt skeið. Þannig er það engin nýlunda að borgaryfirvöld geri betur við sína starfsmenn, bæði í launum og hlunnindum. Minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs hefur haft af því miklar áhyggjur um langa hríð að starfsfólk leikskólanna, sérstaklega ófaglært, myndi flýja yfir til Reykjavíkur, aðallega í þeim hverfum þar sem Reykjavík og Kópavogur eru að vaxa saman, t.d. í Linda- og Salahverfi -sem er einmitt nú raunin.

,,Hvar myndi þjóðfélagið enda þá?“ Já mér er spurn líkt og bæjarstjóranum, hvar myndi þjóðfélagið enda ef við hækkuðum grunnlaun þeirra sem annast börnin okkar um 50%? Við þá hækkun myndi grunntaxtinn hjá ófaglærðum ekki einu sinni ná 200 þúsundum. Já hvar myndi þjóðfélagið enda ef við borguðum tæpan 200 þúsund kall til fólks umönnunarstörfum?

Þetta viðhorf bæjarstjórans lýsir bæði skilings- og áhugaleysi á því að laga laun umönnunarstétta. Í síðustu viku skrifaði Gunnar undir samning um byggingu knatthallar nr. 2 í Kópavogi. Skuldbinding bæjarins í því ævintýri verður aldrei minni en 2 milljarðar.

Fyrir slíka peninga væri hægt að gera kraftaverk í launamálum sveitarfélagsins. Borga mannsæmandi kaup á leikskólana og sýna þeim sem þar vinna tilhlýðlega virðingu -en hvar myndi þjóðfélagið enda þá?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið