Við eigum öll skilið gott veður

Í fréttaviðtölum í Ríkisútvarpinu og á Stöð 2 á gamlársdag uppnefndi Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Unga jafnaðarmenn, ,,stráklinga“ og ,,einhverja krakka“ og sagði fyrirspurnir okkar um málefni SPRON og eign stjórnmálamanna í sparisjóðnum vera ,,sprikl“ og ,,vandræðagang.“ Í þættinum Kryddsíld á Stöð 2 sama dag kallaði hann okkur ennfremur ,,kjána“ og ítrekaði þennan stimpil þrátt fyrir að vera bent á það að slíkt orðalag bæri vott um virðingarleysi í okkar garð. Mér þótti leitt að heyra þetta og ákvað því að skrifa þessa grein og taka upp hanskann fyrir mig og félaga mína í ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar. Í fréttaviðtölum í Ríkisútvarpinu og á Stöð 2 á gamlársdag uppnefndi Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Unga jafnaðarmenn, ,,stráklinga“ og ,,einhverja krakka“ og sagði fyrirspurnir okkar um málefni SPRON og eign stjórnmálamanna í sparisjóðnum vera ,,sprikl“ og ,,vandræðagang.“ Í þættinum Kryddsíld á Stöð 2 sama dag kallaði hann okkur ennfremur ,,kjána“ og ítrekaði þennan stimpil þrátt fyrir að vera bent á það að slíkt orðalag bæri vott um virðingarleysi í okkar garð. Mér þótti leitt að heyra þetta og ákvað því að skrifa þessa grein og taka upp hanskann fyrir mig og félaga mína í ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar.

Ungt fólk verðskuldar virðingu
Ungir jafnaðarmenn eru fjöldahreyfing ungs fólks í Samfylkingunni. Við teljum að ungliðahreyfingar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í okkar lýðræðisskipulagi. Í ungliðahreyfingum hittist ungt fólk af báðum kynjum, mótar skoðanir sínar, vinnur sjálfboðastarf og veitir eldri stjórnmálamönnum það sem við teljum vera nauðsynlegt aðhald. Meðal annars með því að spyrja þá erfiðra spurninga.

Aðalatriði SPRON-málsins
Mér finnst mikilvægt að rifja upp efnisatriði málsins. Þegar fréttir bárust af sölu SPRON og það leit út fyrir að stjórnmálamenn sem ættu þar stofnfé gætu hugsanlega hagnast margfalt þá ákváðu Ungir jafnaðarmenn að spyrjast fyrir um þetta. Ýmsir stjórnmálamenn hafa tekið undir að óeðlilegt sé að stjórnmálamenn hagnist á stofnfjáreign sinni. Meðal annars hefur Halldór Ásgrímsson sagst hafa afþakkað boð um að gerast stofnfjáreigandi. Aðalatriðið er að ekki var ætlast til þess að stofnfjáreigendur myndu fá söluhagnað af stofnfé sínu. Það var m.a.s. nákvæmlega skilgreint hvert slíkur afrakstur ætti að skila sér. Þ.e. til menningar- og góðgerðamála á starfssvæði sjóðsins. Sumir segjast reyndar hafa þegið boð um að gerast stofnfjáreigerndur af skyldurækni en aðrir munu hafa gripið tækifærið í von um góðan hagnað. Nú þegar að það lítur út fyrir að síðarnefndi hópurinn fái ósk sína uppfyllta þá skiptir höfuðmáli að ekki var jafnt gefið í upphafi. Ekki áttu allir kost á að kaupa. Um takmörkuð gæði er að ræða sem úthlutað var eftir óljósu kerfi til svokallaðra ,,traustra“aðila.

Frjálslyndar lífsskoðanir en rík réttlætiskennd
Ástæða er til að árétta að Ungir jafnaðarmenn telja að hlutafélagaformið henti augljóslega best til reksturs fjármálaþjónustu. Við samgleðjumst fólki sem nýtur velgengni í hlutabréfaviðskiptum. Það er jafnframt fagnaðarefni að enginn hafi tapað stofnfé sínu í SPRON heldur þvert á móti þegið 12-15% arð á ári og 25% á síðasta ári skv. ákvörðun stjórnar sparisjóðsins.
En það er ekki ásættanlegt í okkar augum ef ákveðinn hópur fólks fær nú í sinn hlut margföld verðmæti vegna sölunnar til KB-banka. Ekki síst ef þeim skipaðist í hóp stofnfjáreigenda vegna trúnaðarstarfa sinna fyrir almenning. Við teljum að ef brugðist verður við þessu óréttlæti þá styrki það yfirlýst markmið um að skapa hér og viðhalda opnu og gagnsæju samfélagi.

Tilgangurinn á ekki að helga meðalið
Eitt af áramótaheitum mínum þetta árið er að vera málefnalegri í gagnrýni á pólitíska andstæðinga mína. Að gæta hófs og reyna að setja hugmyndir mínar og stefnu Ungra jafnaðarmanna fram á jákvæðan og yfirvegaðan hátt. Einnig vil ég reyna að gæta þess að vera ávallt tillitsamur við þá sem í hlut eiga hverju sinni. Ísland er lítið samfélag og ég tel að of mikil heift geti reynst okkur, sem fámennri þjóð, óholl og hamlandi.

Þegar Davíð lét borðhaldið bíða
Ég hef yfirleitt hugsað nokkuð hlýlega til Davíðs Oddsonar. Ég lenti eitt sinn á góðu spjalli við hann í mötuneyti Kambs Hf. (frystihús á Flateyri) og var ansi ánægður með kallinn. Mér þótti hann bæði alþýðlegur og almennilegur í framkomu. Hann má hins vegar alveg vita það að ég er hundleiður á að hafa hann í stjórnarráðinu. Stundum held ég að honum leiðist þar sjálfum. Ég giska alla vega á það. Ég virði Davíð auðvitað fyrir persónulegan árangur hans á vettvangi stjórnmálanna. Hann hefur vissulega gert ýmislegt ágætt þrátt fyrir að ég sé honum oft ósammála. Hann hefur þegar allt kemur til alls sinnt sínum störfum í krafti lýðræðislegs umboðs og við sem erum á öndverðum meiði við hann í pólitík verðum bara að drífa í því að afla okkur umboðs kjósenda. Þetta umboð munum við fá, og verðskulda, ef við leggjum fram ábyrga stefnu og berum fram skynsamlegar og góðar hugmyndir um framþróun þjóðfélagsins. Þar tel ég Samfylkinguna vera á réttri leið.

Við eigum öll skilið gott veður
Öll höfum við skap. Við móðgumst. Við leggjum jafnvel á ráðin um að hefna okkar eða svörum í sömu mynt. Sem betur fer eru margar betri leiðir til að losa um reiði og sárindi. Það er gott að geta fyrirgefið. Við gerum öll okkar mistök en mest um vert er að reyna að gera betur í dag en í gær. Ég bið um frið á nýju ári fyrir Davíð Oddsson og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum. Ég held að þar tali ég fyrir munn okkar flestra í Samfylkingunni. Vonandi getum við mæst yfirveguð og sanngjörn á stjórnmálavellinum á þessu ári og sameinast, með liðsinni fleira góðs fólks, um að bæta enn frekar okkar góða samfélag hér á Íslandi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið