Menntaskólinn í lýðræðisþjóðfélagi

Þegar ég var ennþá lítil stelpa í Hagaskóla hafði ég kennara með hugsjónir sem hvatti okkur til að hafa skoðanir og standa við þær. Mér var vandlega innrætt að ef ég gæti rökstutt skoðanir mínar yrði tekið mark á mér. ,,Og það er af því að við búum í lýðræðisþjóðfélagi, krakkar mínir”, sagði sögukennarinn bjartsýnn. Þegar ég var ennþá lítil stelpa í Hagaskóla hafði ég kennara með hugsjónir sem hvatti okkur til að hafa skoðanir og standa við þær. Mér var vandlega innrætt að ef ég gæti rökstutt skoðanir mínar yrði tekið mark á mér. ,,Og það er af því að við búum í lýðræðisþjóðfélagi, krakkar mínir”, sagði sögukennarinn bjartsýnn.

Ég er farin að efast um að hann hafi haft rétt fyrir sér. Að minnsta kosti hef ég undanfarið haft það á tilfinningunni að litið sé á mig og alla aðra framhaldsskólanemendur, auk stórs hluta kennaranna líka, sem smákrakka sem ekki er hægt að taka mark á. Hér á ég við umræðuna í kringum tvennt sem ríkisstjórnin hyggst koma í framkvæmd; samræmd stúdentspróf og styttingu framhaldsskólans.

Aðalmarkmiðið með samræmdum stúdentsprófum er að gera stjórnvöldum kleift að bera saman framhaldsskólana. Enginn gerir sér almennilega grein fyrir því af hverju menn eru svona æstir í að hafa tölur á blaði til að bera saman; ríkisstjórninni ber engin skylda til að sjá til þess að allir framhaldsskólar séu jafnerfiðir, enda myndi það vafalaust auka á brottfall úr menntaskóla ef nemendur gætu ekki lengur valið sér skóla eftir mismunandi kröfum þeirra. Þvert á móti myndu samræmd stúdentspróf hafa sömu áhrif og samræmd próf í grunnskóla hafa haft: ofuráherslu á þær fáu greinar sem tekin eru samræmd próf í og minni áherslu á aðrar greinar, svo sem ýmsar valgreinar. Þannig stuðla samræmdu prófin að einsleitara námi sem er afar svipað frá skóla til skóla.

Glæný könnun bendir til þess að 70% framhaldsskólakennara séu á móti samræmdum stúdentsprófum. Sjálf hef ég ekki enn hitt einn einasta menntaskólanema sem er hlynntur þeim.

Stytting framhaldsskólans er önnur og öllu róttækari breyting á skólastarfinu. Stjórnvöld halda því fram að styttingin sé ætluð til að minnka brottfall úr framhaldsskólum, því það sé einfaldlega of þreytandi að vera fjögur ár í menntaskóla. Í staðinn ætla þau að þjappa saman og skera niður námið, og mun það aftur bitna mest á valgreinunum en ofuráhersla lögð á kjarnagreinarnar. Með öðrum orðum: ríkisstjórnin telur að besta ráðið til að minnka brottfall úr menntaskóla sé að gera hann leiðinlegri.

Margir framhaldsskólakennarar hafa stigið fram og bent á að mun skynsamlegra sé að beina sjónum sínum að grunnskólanum. Sá möguleiki að taka menntaskólanámið á þremur og jafnvel tveimur árum er fyrir hendi í mörgum skólum, en að það séu ekki fleiri sem nýta sér það bendir til að það sé kannski ekkert allt of mikill áhugi á því. Auk þess eru margir sem taka menntaskólann á fimm eða jafnvel sex árum.

En ráðamenn þessarar þjóðar virðast ekki deila þeirri skoðun minni að það séu nemendur og kennarar sem þekkja menntakerfið best. Kennarar sem skrifað hafa gegn styttingu framhaldsskólans eru blygðunarlaust sakaðir um að vera að skara eld að sinni köku og setja eigin hagsmuni framar hagsmunum nemenda. Fólk hefur nú ekki meiri trú en þetta á starfsstéttinni sem elur börnin þess upp.

Ég er að minnsta kosti búin að gefast upp á hugsjónum gamla sögukennarans míns. Hann er örugglega búinn að því líka.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand