Ágæti utanríkisráðherra,Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, óska eftir því að þú kannir kosti þess að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum vegna byggingar aðskilnaðarmúrs í Palestínu. Við teljum rétt að tekið sé til athugunar hver pólitísk áhrif þess væru ef Íslendingar segðu upp aðild sinni að fríverslunarsamningi EFTA við Ísrael. Við teljum að ákvæði í samningnum veiti okkur rétt til slíkrar einhliða uppsagnar. Ágæti utanríkisráðherra,
Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, óska eftir því að þú kannir kosti þess að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum vegna byggingar aðskilnaðarmúrs í Palestínu. Við teljum rétt að tekið sé til athugunar hver pólitísk áhrif þess væru ef Íslendingar segðu upp aðild sinni að fríverslunarsamningi EFTA við Ísrael. Við teljum að ákvæði í samningnum veiti okkur rétt til slíkrar einhliða uppsagnar.
Íslenskum almenningi ofbýður það stríð sem geisar í Palestínu og þau ódæðisverk sem þar eru unnin. Öllum unnendum frelsis og friðar er ljóst að það væri stórt skref aftur á bak fyrir alla heimsbyggðina ef Ísraelar fá óáreittir að reisa aðskilnaðarmúr. Það væri mikið áfall nú rúmum fimmtán árum eftir að Berlínarmúrinn féll.
Okkar glæsilega forsetafrú, Dorrit Moussaief, sýndi mikilvægt fordæmi fyrir skemmstu þegar hún lýsti á opinskáan og ærlegan hátt skoðunum sínum á stjórnarháttum í Ísrael. Hún sýndi og sannaði að ,,vinur er sá sem til vamms segir.” Við megum ekki endalaust skáka í skjóli bandalags við Bandaríkin eða annarra slíkra hagsmuna. Við verðum að þora að vinna hugsjónum okkar brautargengi á borði sem í orði.
Í ljósi yfirlýsinga þinna um að Ísland eigi að taka aukna ábyrgð á alþjóðavettvangi teljum við að tillaga okkar hljóti að koma til athugunar í ráðuneyti þínu og í utanríkismálanefnd Alþingis. Íslendingar geta vel tekið af skarið í þessu máli. Um hverfandi viðskiptahagsmuni er að ræða en uppsögnin gæti hins vegar sent sterk pólitísk skilaboð um allan heim. Metnaður Íslands hlýtur að vera að stuðla að betri heimi en ekki aðeins að sækjast eftir vegtyllum s.s. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísraelar hafa ítrekað hundsað ályktanir öryggisráðsins og allsherjarþingsins og augljóst að meira þarf til. Hugsjón og dug sem við vonum að þú eigir til, kæri utanríkisráðherra.
Með vinsemd og virðingu,
Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna
P.s. Þú getur kynnt þér stöðuna í baráttunni gegn byggingu múrsins á www.stopthewall.org.