Það voru margar hættur á þeirri vegferð sem hófst fyrir 5 árum síðan. Gríðarlega harkaleg viðbrögð Davíðs Oddssonar við yfirlýsingu um sameiginlegt framboð þeirra afla sem að Samfylkingunni standa verða lengi minnisstæð. En Davíð er klókur í pólitík og skynjaði þá hættu sem stafar nú að framtíðarvöldum og áhrifum Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer hafði hann rétt fyrir sér. Forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins í íslenskri pólitík er nú meiri hætta búin en nokkru sinni. Markvisst starf að undirbúningi næstu kosninga bæði til sveitarstjórna og Alþingis verður nú hafið með það að markmiði að auka áhrif Samfylkingarinnar og ná forystu í sem flestum sveitarstjórnum og við stjórn landsins. Landsfundur Samfylkingarinnar hafði að kjörorði ,,Verk að vinna“. Ég fór heim af þeim fundi með þá góðu tilfinningu í brjósti að Samfylkingin væri orðin að því baráttutæki fyrir jöfnuði og réttlæti í samfélaginu sem ég gerði mér í upphafi vonir um að hún yrði.
Það voru margar hættur á þeirri vegferð sem hófst fyrir 5 árum síðan. Gríðarlega harkaleg viðbrögð Davíðs Oddssonar við yfirlýsingu um sameiginlegt framboð þeirra afla sem að Samfylkingunni standa verða lengi minnisstæð. En Davíð er klókur í pólitík og skynjaði þá hættu sem stafar nú að framtíðarvöldum og áhrifum Sjálfstæðisflokksins. Sem betur fer hafði hann rétt fyrir sér. Forystu- hlutverki Sjálfstæðisflokksins í íslenskri pólitík er nú meiri hætta búin en nokkru sinni. Markvisst starf að undirbúningi næstu kosninga bæði til sveitarstjórna og Alþingis verður nú hafið með það að markmiði að auka áhrif Samfylkingarinnar og ná forystu í sem flestum sveitarstjórnum og við stjórn landsins.
Um rökræðuna
Samfylkingin er ungur flokkur og það er margt sem flokkurinn hefur ekki komið í verk enn, sem nauðsynlegt er að gerist ef hann á að geta verið til framtíðar sá stóri víðsýni flokkur félagshyggju og réttlætis sem vilji okkar stendur til. Eitt af því allra nauðsynlegasta er þó að umræðan um átakamál innan flokksins hafi greiða farvegi. Fólk með ólíkar hugmyndir þarf að geta barist fyrir þeim innan flokksins með jákvæðri rökræðu. Sumir í flokknum eru óánægðir með t.a.m. yfirlýsta stefnu flokksins í Evrópumálum eða utanríkismálum en hafa lítið haft sig í frammi ,,til að halda friðinn“. Þetta var skiljanleg afstaða á síðasta kjörtímabili á meðan flokkurinn barðist fyrir því að lifa af fæðingarhríðirnar og samfelldar árásir andstæðinganna. En nú þegar flokkurinn hefur komið gríðarlega öflugur út úr eldskírninni er tíminn kominn til að kryfja málefnin betur til mergjar með almennri þátttöku í umræðu um mikilvæg mál. Framtíð þessa flokks er bókstaflega falin í jákvæðri samræðu um ólík viðhorf. Nú þolir flokkurinn okkar og þarf þá umræðu.
Að vera eða vera ekki í Evrópusambandinu
Evrópustefna flokksins liggur fyrir. Ég get bærilega lifað við hana vegna þess að þjóðin mun alltaf hafa síðasta orðið um það hvort gengið verður í Evrópusambandið. Það er hins vegar alger nauðsyn á því að gagnrýnendur og andstæðingar málsins innan flokksins finni sig ekki hrakta eða óvelkomna í flokknum þó að forystan hafi tekið upp einarða Evrópustefnu. Þeir sem ætla að vinna að þverpólitískri andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið eiga ekki síður heima innan Samfylkingarinnar en annarra flokka. Menn verða líka að muna að í Samfylkingunni hefur engin endanleg afstaða verið tekin til inngöngu í Evrópusambandið og að lokum munu kjósendur hver og einn svara spurningunni um hvort það verði gert. Fram að þeim degi og máske miklu lengur verður umræða í Samfylkingunni um að vera eða vera ekki í Evrópusambandinu.
Er skjól í Nató?
Flokksmenn virðast hafa fram til þessa viljað hlífa flokknum við mismunandi áherslum og gagnstæðum skoðunum um veru Íslands í Nató og veru hersins í landinu. Ástæðurnar fyrir lítilli umræðu um þessi mál eru fleiri. Miklar breytingar hafa orðið og eru að verða á Nató. Til dæmis eru 6 fyrrverandi austantjaldsríki að ganga í bandalagið og mikið samstarf við Rússland er þegar hafið. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er Evrópustoð Nató að verða samstæð og sterk hvað þátttöku ríkja á svæðinu varðar. Við erum á áhrifasvæði Nató og margir binda vonir við að Evrópuríkin verði í framtíðinni leiðandi í stefnumótun bandalagsins. Sum þeirra hafa nú þegar sýnt í Íraksdeilunni að Bandaríkjamenn geta ekki dregið þau hvert sem er. Við samfylkingarmenn bæði Natóandstæðingar og aðrir þurfum augljóslega að endurmeta afstöðuna til Nató. Það er umræða sem þarf að taka í Samfylkingunni.
Her á förum
Bandaríkjamenn eru að fara með herinn af Keflavíkurvelli. Um það efast fáir. Ég óska þeim góðrar heimkomu. En Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa tregðast við að viðurkenna þessa staðreynd og reynt að telja mönnum trú um að Bandaríkjamenn ættu eftir að ná samkomulagi við þá um þetta og færu nú ekki langt á meðan. Rumsfield sá frægi stríðsmaður sagði fyrir stuttu síðan efnislega að allir skildu það nema Íslendingar að Ameríkanar hafa sína hermenn og aðstöðu til varna þar sem þeir telja einhverja hættu á ferðum fyrir bandaríska hagsmuni.
Það er mín skoðun að eitt af úrlausnarefnum Samfylkingarinnar nú sé að meta það hvort við ætlum að reyna að halda dauðahaldi í pilsfald stórveldisins eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gerir um þessar mundir eða láta aðild að Nató og samstarf við þau ríki nægja sem aðaltryggingu fyrir sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar. Það er mín skoðun að í því síðarnefnda sé fólgin skynsamleg framtíðarstefna sem mögulegt sé að ná víðtæri pólitískri sátt um.
Óhjákvæmilegur hluti af þeim breytingum sem verða við brottför hersins er að fjöldi manna sem vinnur hjá hernum missir vinnuna. Það er auðvitað fyrir löngu séð að hlutverk hersins hér á landi væri að gufa upp og þess vegna óskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld hafa ekki enn tekið með festu á atvinnumálum á Suðurnesjum. Fresturinn til þess er í raun þrotinn, stórfelldar uppsagnir hafnar og athafna í þessu efni þörf strax. Það er ömurlegt að við skulum ekki vera betur á vegi stödd til að taka á móti löngu fyrirséðum vanda en raun ber vitni um. Þar eiga stjórnvöld með þá félaga Davíð og Halldór í broddi fylkingar stærsta sök.