Verður Björn Ingi næsti borgarstjóri í Reykjavík?

Við skulum nú hafa í huga að Íslendingar erum ekki nema þrjú hundruð þúsund og ríkisstjórnin hefur ekki getað rekið öflugt heilbrigðiskerfi fyrir íslensku þjóðina hingað til. Ætla þeir að nota peninga sem fengust úr símasölunni til þess að stækka Landspítalann og gera hann stærri og flottari, en ætli hann verði betri? Við skulum hafa í huga að Landspítalinn hefur þurft að herða sultarólina síðustu misseri þar sem ríkisstjórnin hefur verið að svelta hann fjárhagslega. Þurft hefur að segja upp fólki og loka deildum vegna þess. En þá dettur ríkisstjórninni í hug að reisa annan spítala fyrir framan hinn gamla, hvað græðum við á því? Hvernig væri að efla þá spítala sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur geta greinilega ekki rekið með sómasamlegum hætti. Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi undanfarið verið að mælast með allt niður í 4-5% fylgi í Reykjavík í skoðanakönnunum þá er nú þegar byrjað að nefna nýkjörinn leiðtoga þeirra, Björn Inga Hrafnsson, sem mögulegan borgarstjórakandídat eftir næstu kosningar. Sjálfur hefur Björn Ingi látið í það skína að hann hafi áhuga á að komast í oddaaðstöðu og muni þá jafnvel krefjast borgarstjórastólsins fyrir sjálfan sig. Ef þetta gengi eftir væri staðan orðin sú að einn minnsti flokkur landsins færi með tvö valdamestu embætti þjóðarinnar. Slíkt væri að mínu mati í mikilli andstöðu við öll almenn lýðræðissjónarmið.

Fái ég brautargengi í prófkjöri Samfylkingarinnar mun ég beita mér fyrir róttækri uppstokkun á stjórnkerfi borgarinnar. Meðal annars mun ég leggja til að borgarstjórinn í Reykjavík verði framvegis kosinn í beinni kosningu. Slík breyting myndi koma í veg fyrir að nokkur geti gegnt þessu mikilvægasta embætti höfuðborgarinnar án þess að sá hinn sami njóti viðtæks stuðnings borgarbúa.

Mín skoðun er einföld. Borgarbúar eiga að velja borgarstjórann.

Talsverð íhaldssemi hefur hingað til ríkt á Íslandi gagnvart stjórnkerfisbreytingum og framþróun lýðræðisins. Það væri áhugavert að fá álit stjórnmálafræðings á áhrifum þess fyrir lýðræðið í borginni að kjósa borgarstjórann í beinni kosningu.

Að öllu óbreyttu lítur út fyrir að kjósendur muni búa við talsverða óvissu þegar þeir ganga að kjörborðinu í vor.

****

Nokkrar staðreyndir um borgarstjóraembættið og beint lýðræði
-Borgarstjóri gegnir í dag tveimur ólíkum hlutverkum. Hann er borgarfulltrúi og stjórnmálamaður en er á sama tíma æðsti embættismaðurinn í skipuriti borgarinnar. Erfitt er að sjá hvernig stjórnmálamennirnir geti haft nægilega gott aðhald með embættismönnunum við þær aðstæður.

-Á yfirstandandi kjörtímabili hafa þrír einstaklingar gegnt embætti borgarstjóra. Síðasta kjörtímabil Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn frá 1990-1994 gegndu sömuleiðis þrír embætti borgarstjóra. Val á þeim sem tekið hafa við sem borgarstjórar á miðju tímabili hefur verið án nokkurs samráðs við kjósendur í Reykjavík. Þetta stuðlar að því að borgarbúum finnist þeir hafa lítið sem ekkert um málefni borgarinnar að segja. Ef borgarstjóri sem væri kosinn beint færi frá á miðju kjörtímabili þá yrði einfaldlega boðað til kosninga og nýr kjörinn í embættið.

-Borgarbúar vilja skýra valkosti við stjórn borgarinnar og borgarstjóri sem kosinn er beint ber skýrari ábyrgð gagnvart kjósendum. Leiða má líkum að því að beint kjör borgarstjóra myndi laða fleiri að því að taka þátt í kosningunum. Að fá að hafa bein áhrif á hver gegnir þessu mikilvæga embætti myndi þannig ýta undir kosningaþátttöku sem er mikilvægt lýðræðismál.

-Ef borgarstjórinn væri kosinn beint þá er líklegt að fram á sjónarsviðið gætu komið frambjóðendur með fjölbreyttari bakgrunn. Borgarstjórar framtíðarinnar gætu þannig komið úr atvinnu- eða menningarlífinu eða jafnvel úr íþróttaheiminum. Þeir gætu tengst ákveðnum stjórnmálaflokki, eða ekki.

-Í London, París og New York eru borgarstjórarnir allir kosnir beint af íbúum þessara borga. Raunar var það einnig þannig í Reykjavík í upphafi síðustu aldar.

-Vilmundur heitin Gylfason var fyrstur til að leggja til að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu. Í gegnum árin hafa menn við og við dustað rykið af þessum hugmyndum Vilmundar en af einhverjum ástæðum hafa þær aldrei fengið byr undir báða vængi. Hverjar skyldu vera ástæður þess að stjórnkerfið er hér eins og meitlað í stein á meðan að fjöldi Evrópuþjóða hafa haldið áfram að þróa sitt lýðræði og gert ýmsar breytingar á stjórnkerfinu.

– Það er nokkuð sérstakt að á Íslandi skuli eini embættismaðurinn sem kjörinn er í beinni kosningu vera sá sem hefur hvað minnst raunveruleg völd, En það er forseti lýðveldisins. Afhverju er verið að hafa fyrir því að vera með þjóðkjörinn forseta? Ef það eru aðeins embætti með táknræn völd sem þjóðin fær að taka þátt í að ráðstafa þá er kannski eins gott að forsetinn verði bara kjörinn af Alþingi.

-Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson hafa bæði ítrekað skrifað um mikilvægi þess að vera með virkara lýðræði. Össur hefur m.a. tekið undir tillögu mína um beint kjör borgarstjóra. Bloggfærslu Össurar um málið má lesa hér: http://ossur.hexia.net/roller/page/ossur/20051229

-Ein sterkustu rökin fyrir beinni kosningu borgarstjóra eru samt þau að það sé í raun efst í huga margra borgarbúa í dag þegar þeir kjósi í borgarstjórnarkosningum að þeir séu að velja þann flokk sem þeir telji hafa á hæfasta borgarstjóraefninu að skipa. Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún nutu á sínum tíma stuðnings langt út fyrir raðir sinna eigin flokka. Það var vegna þess að borgarbúar voru að velja þann sem þeir töldu hæfastan í embætti borgarstjóra.

-Ótti við að nýr borgarstjóri komi úr röðum smáflokks er og muni því hafa takmarkað umboð frá borgarbúum er ekki ástæðulaus. Á síðasta kjörtímabili hafa bæði Framsóknarmenn og Vinstri-grænir á einhverjum tímapunkti sett fram hugmyndir innan Reykjavíkurlistans um að einhver þeirra borgarfulltrúa settust í borgarstjórastólinn.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið