Vel heppnaður landsfundur?

Fyrstu helgina í nóvember hélt Samfylkingin landsfund sinn. Þetta er æðsta samkoma flokksins og er haldin á tveggja ára fresti. Ég sem virkur ungliði sá að hér hefði ég erindi, gæti tekið þátt í flokkstarfinu og komist upp úr, um eina helgi, sandkassaleiknum sem því miður loðir stundum við starf ungliðahreyfinganna. Mér til mikilla vonbrigða komst ég að því að ég yrði ekki laus við sandmokstur þessa helgi. Fyrstu helgina í nóvember hélt Samfylkingin landsfund sinn. Þetta er æðsta samkoma flokksins og er haldin á tveggja ára fresti. Ég sem virkur ungliði sá að hér hefði ég erindi, gæti tekið þátt í flokkstarfinu og komist upp úr, um eina helgi, sandkassaleiknum sem því miður loðir stundum við starf ungliðahreyfinganna. Mér til mikilla vonbrigða komst ég að því að ég yrði ekki laus við sandmokstur þessa helgi.

Ég var kannski full bjartsýnn, hafði ekki áður setið landsfund flokksins, og ég ætlaði ásamt félögum mínum að leggja fram nokkrar tillögur um ýmis brýn mál sem eru að veltast um í þjóðmálaumræðunni en við höfum ekki fengið skýr skilaboð um afstöðu flokksins til þeirra.

Það virðist vefjast fyrir sumum af meðlimum flokks- og framkvæmdastjórnar að þó að þeir sitji í umboði flokksfundar og þar með flokksins að þeir eru ekki flokkurinn. Flokkurinn erum við, og landsfundurinn er sá vettvangur sem við, flokkurinn, höfum til að koma að málum sem við viljum að afstaða sé tekin til. Í þeirri trú voru fjölmörg mál lögð fram af mörgum einstaklingum á þinginu til þess að fá fram umræðu og til að fá landsfundinn til að endurspegla vilja flokksins í álitamálum. Rétt er það að í álitamálum getur svo farið að hver höndin verði upp á móti annarri, en við eigum ekki að forðast að taka afstöðu í málum sem snerta okkur. Því við verðum aldrei stærsti flokkur landsins ef við komum okkur undan afgreiðslu ályktana og ákvarðanatöku.

Umgjörð fundarins var á margan hátt vel heppnuð, salurinn var glæsilegur og aðstæður flestar þær ágætustu. En það fór virkilega fyrir brjóstið á mér hversu illa tókst að fara eftir tímaáætlunum og jafnframt hversu einkennileg sú áætlun var að nokkru leyti. Ég á til dæmis erfitt með að skilja af hverju ákveðið var að verja tíma á fundinum í að hlusta á tvo gamla Heimdelli sem hafa gert það gott í staðin fyrir að forystan væri til staðar og hlustaði á almenna félagsmenn lýsa sínum skoðunum og óskum um samfélagið sem við búum í. Það að ekki hafi unnist tími til að afgreiða óundirbúnar ályktanir á fundinum er hneisa og það er skömm af því. Ég get fyrir mitt leyti aðeins sagt að tilgangur minn með tillögum til ályktana var að fá fram vilja fundarins í þeim málum, ekki flokks- eða framkvæmdastjórnar, vilja grasrótarinnar ekki atvinnumannanna.

Þá er það jafnframt hneisa að sá flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku hafi á engan hátt komið til móts við fatlaða félaga okkar sem vildu taka þátt á fundinum en veigruðu sér við það þar sem gefin reynsla sýnir að þessi þjóðfélagshópur mætir engum skilningi í undirbúningi að slíkum atburðum. Það var til dæmis ekki hjólastólaaðgengi að ræðupúltinu, það var ekki boðið upp á þingskjöl á því formi sem henta blindum og sjónskertum, né heldur var gert ráð fyrir að heyrnarlausir sæktu fundinn. Við sækjum samt þó nokkuð fylgi í raðir fatlaðra þrátt fyrir að við tökum ekki tillit til þeirra, hér er þörf á breyttum hugsanahætti.

Í kjölfar alþingiskosninganna hefur þáttur ungliðanna verið mærður af formanni Samfylkingarinnar, það er vel. En það sem plagar mig er að á sama tíma og við sem flokkur erum að reyna að fá fleiri unga félaga til að gerast virkir þátttakendur í stjórnmálastarfinu þá er komið fram við ungliðanna sem vinnuafl en ekki einstaklinga með skoðanir, skoðanir sem eru á engan hátt verri eða lakari en annarra flokksmanna.
Ég tel mig tilneyddan að lýsa frati á þá venju að það sé sjálfgefið að við, ungliðarnir, umfram aðra félaga, eigum að leggja til starfsfólk á svona samkomum. Við fáum ekki inn fólk með skoðanir á hlutunum með því að einu að láta það sjá um sjoppuna, dreifa fundargögnum, ljósrita eða telja atkvæði. Það er mikilvægt að við unga fólkið fáum tilfinningu fyrir því hvað fer fram á landsfundi flokksins en það er ekki fengið með því að geyma okkur baksviðs við ýmis, nauðsynleg, verk sem fylgja svona fundi. Ég velti einnig því fyrir mér hvernig formaður UJ hafi athugasemdalaust samþykkt þetta fyrirkomulag, er þetta ávísun á þann sess sem okkur ungliðum er ætlaður í hans formannstíð? Það er nauðsynlegt að framkvæmdastjórn taki þetta fyrirkomulag til athugunar fyrir næsta stóra atburð sem flokkurinn stendur fyrir, við erum jafnaðarflokkur og við eigum öll að leggja okkar af mörkum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand