Vel heppnað menntaþing UJ

Um helgina héldu Ungir jafnaðarmenn Menntaþing í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði. Meðal ræðumanna voru Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðinemi við Háskóla Íslands, Lára Stefánsdóttir, sérfræðingur um upplýsingatækni, Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. Um helgina héldu Ungir jafnaðarmenn Menntaþing í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði. Meðal ræðumanna voru Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Margrét Valdimarsdóttir, félagsfræðinemi við Háskóla Íslands, Lára Stefánsdóttir, sérfræðingur um upplýsingatækni, Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar.

Það var samdóma álit fundargesta að þingið hafi verið vel heppnað, umræðan sé bæði þörf og tímabær. Við í stjórn UJ höfum fengið jákvæð viðbrögð við þessari nýung í starfinu og stefnum á að halda fleiri málefnaþing í þessum dúr á næstunni. Næsta þing verður sennilega fljótlega eftir áramót.

Þau málefni sem lágu hvað þyngst á fundargestum að þessu sinni og komu hvað oftast upp í umræðunni voru brottfall úr framhaldsskólum, samræmd próf, efling starfsnáms og fordómar gagnvart iðnnámi.

Mikið brottfall
Það kom fram í máli Björgvins G. Sigurðssonar að brottfall úr íslensku skólakerfi er mun stærra vandamál en þekkist í nágrannaríkjunum. Í þingsályktun sem Björgvin lagði fram fyrir skemmstu kemur fram að á Íslandi útskrifast innan við 70% íslenskra framhaldsskólanema á meðan OECD meðaltalið er um 82% og yfir 90% í Svíþjóð. Ástæðunnar er m.a. að leita í litlu framboði á starfsnámi og styttri námsbrautum og lítil kynning á kostum verknámsins. Í þingsályktuninni er mælt með að stórauka námsráðgjöf í framhaldsskólum sem leið til að sporna gegn brotfallinu.

Í rannsóknum sem Margrét Valdimarsdóttir hefur verið að vinna, kemur fram að langvarandi atvinnuleysi meðal ungs fólks, í kjölfar brottfalls frá námi, hafi mun meiri sálfræðileg áhrif en atvinnuleysi síðar á ævinni. Og þingsályktun Björgvins bendir á að þeir sem sem ekki eiga kost á mennta sig og auka færni sína eru líklegri en aðrir til að festast á jaðri þekkingarsamfélags framtíðarinnar og festast í fátækt.

Mælst er til að menntakerfi framtíðarinnar bjóði upp á sífellda menntun, alla ævi, þar sem fólki gefst kostur á að þjálfa upp nýja hæfni til að verða gjaldgengt á vinnumarkaði. Á Íslandi ljúka 40% hvers árgangar ekki framhaldsnámi samkvæmt rannsóknum við Háskóla Íslands. Færri Íslendingar stunda nám á framhaldsskólastigi en annars staðar á Norðurlöndunum. Einungis 56% Íslendinga á aldrinum 25–65 ára hafa lokið framhaldsskólaprófi en þetta hlutfall er 78% annars staðar á Norðurlöndum. Björgvin vildi meina að með öflugri sókn í starfsmenntun og fjölgun styttri námsbrauta myndi þetta breytast hratt og örugglega til hins betra. Fyrir utan þá gríðarlegu mannauðssóun sem birtist í þessum tölum er ekki hjá því komst að nefna kostnaðinn sem þessu fylgir en talið er að hver brotfallsnemandi kosti ríkið um 400.000 krónur á ári.

Erfið endurkoma
Það þekkja flestir þann mikla vanda sem nýútskrifaðir grunnskólanemar stóðu frammi fyrir í vor, framhaldsskólarnir önnuðu einfaldlega ekki stærð árgangsins –sem er nú reyndar mjög skondið, þar sem Menntamálaráðuneytið hefur haft 10 ár til að undirbúa komu þessa árgangs inn í framhaldsskóla. Föttuðu menn ekki að þessi árgangur, sem sprengdi alla grunnskólana fyrir 10 árum, myndi einhvertíma fara í framhaldsskóla? Eða héldu menn bara að þessir krakkar myndu einhvernvegin fyrnast í kerfinu?

Þetta var stórt vandamál í vor en með herkjum tókst nú að troða flestum í eitthvað nám. Hvort þetta var síðan nám við hæfi, sjáum við með tíð, tíma og brottfallstölum. Annað öllu stærra vandamál snýr að þeim sem hyggja á endurkomu inn í framhaldsskóla. Víðsvegar er þeim settur stólinn fyrir dyrnar, nýnemar eiga forgang, og fólki er refsað fyrir að flosna upp úr námi.

Þetta er vandamál sem nær til þeirra sem eru enn á framhaldsskólaaldri. Lára Stefánsdóttir, einn okkar helsti sérfræðingur um upplýsingatækni, sér síðan fyrir sér að þeir sem eldri eru (25 ára og eldri) geti nýtt sér fjarnám og klárað framhaldsskólanámið heima úr stofu, á eigin hraða. Þetta er fólkið sem ella hefði farið í öldungadeildir framhaldsskólanna en með nýrri tækni getur það lært á eigin hraða og tíma. Kostur sem ætti að henta barnafólki vel. Lára vill meina að kostir dreifnáms eigi eftir að koma betur í ljós, fyrirlestraformið sé steinrunnið og rannsóknir sýna að nemendur meðtaki illa orð kennarans.

Lára er að vinna við uppbyggingu framhaldsskólans á Grundafirði, þar sem nýjar og framsæknar leiðir í kennslu eru notaðar. Þar eru t.a.m. engar kennslustofur, nemendur sjá um að skipuleggja nám sitt sjálfir, hafa viðveruskyldu í skólanum frá 8.00 – 16.00 og aðgang að kennurum á þeim tíma. Það verður áhugavert að fylgjast með þessari tilraun og hvernig nemum hún skilar af sér.

Samræmd próf
Fundargestir voru flestir sammála um að samræmd próf væru tímaskekkja sem bæri að afnema á öllum skólastigum. Grunn- og framhaldsskólar eiga ekki að vera sía fyrir næsta skólastig fyrir ofan. Ef skólar vilja ströng inntökuskilyrði þá geta þeir leyst það mjög auðveldlega með inntökuprófum, eins og t.d. tíðkast í læknisfræði.

Á framhaldsskólastiginu ala samræmd próf á einsleitu skólakerfi þar sem bóknámsbrautum allra skóla er njörvað í sama farveg og verknámið verður utan gátta. Í grunnskólum, er kominn hefð og reynsla á samræmd próf, þar sem lengi vel var einungis prófað í íslensku og stærðfræði. Félags- og raunvísindafög skilin útundan, svo ekki sé nú minnst á iðngreinar. Og nú eru samræmd próf í þrem árgöngum grunnskólans, þar sem enn á ný er lagt ofurkapp á bóknámið.

Ekki fæst annað séð en grunnskólakerfið ali á fordómum gagnvart iðnnámi og stimplar það inn í unga og ómótaða heila að þau séu síðri borgarar ef þau velja iðngreinar. Lítil verkleg kennsla fer fram á grunnskólastiginu og kostir starfsmenntunar ekkert kynntir. Þeir nemendur sem vilja fara í iðnnám hafa litla hugmynd um hvað grein hugnist þeim best og algengt að iðnskólanemar hoppi á milli greina í upphafi með tilheyrandi kostnaði fyrir skólakerfið.

Og eftir stendur samfélagið, snauðara og einsleitara –og allir í leit að iðnaðarmönnum, bölvandi yfir því hvað það gangi illa að fá menn til starfa, hversu fáir þeir eru, hve dýrir og hve lengi þeir séu að klára verkin.

Er kannski okkar eigin fordómum um að kenna?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið