Nú er liðin rúm vika síðan að fellibylurinn Katrín reið yfir suðurhluta Bandaríkjanna. Með hverjum deginum sem líður koma skelfilegar afleiðingar fellibylsins betur og betur í ljós. Ástandið í New Orleans hefur verið mest í umræðunni en þar hefur á tímabili ríkt hálfgert stríðsástand síðan fellibylurinn gekk yfir. Nú er liðin rúm vika síðan að fellibylurinn Katrín reið yfir suðurhluta Bandaríkjanna. Með hverjum deginum sem líður koma skelfilegar afleiðingar fellibylsins betur og betur í ljós. Ástandið í New Orleans hefur verið mest í umræðunni en þar hefur á tímabili ríkt hálfgert stríðsástand síðan fellibylurinn gekk yfir.
Minnihlutahóparnir sátu eftir
New Orleans er sú borg Bandaríkjanna þar sem hvað flestir búa undir fátækramörkum. Þeir sem ekki höfðu aðgang að einkabíl gátu ekki flúið borgina og sátu þarmeð eftir þegar ósköpin dundu yfir. og Ekki voru neinar áætlanir til um að flytja þetta fólk út úr borginni og var því sagt að það gæti komið sér fyrir á Superdome íþróttaleikvanginum í borginni. Þetta voru að mestu leyti gamalmenni, öryrkjar, atvinnuleysingjar og annnað fólk sem að einhverjum ástæðum komst ekki að sjálfsdáðum í burtu.
Svifaseinar björgunaraðgerðir
Síðan þessir skelfilegu atburðir riðu yfir hefur maður setið nánast agndofa og fylgst með fréttum af hamfarasvæðinu. Að stjórnvöld í þessu voldugasta og auðugasta ríki heimsins skuli draga lappirnar í að koma alvöru björgunaraðgerðum í gang. Einhvernveginn fannst manni í einfeldni sinni að ekki hefði átt að vera neitt tiltökumál að ferja allt þetta fólk frá hamfarasvæðunum á þó nokkuð skömmum tíma miðað við allann þann tækjakost og mannafla sem Bandaríkjaher ræður yfir. En það er ekki fyrr en núna sem verið er að leggja lokahönd á að koma fólki í burtu og hefur þessi seinkun kostað að öllum líkindum þúsundir mannslífa þó að engar opinberar tölur liggji enn fyrir í þeim efnum. Það liggur þó fyrir að nokkrir hafa fallið fyrir skotum hermanna sem fengu leyfi til að skjóta og drepa að vild til að halda uppi lögum og reglu á svæðinu. Hermenn skutu m.a. í misgripum nokkra verktaka sem unnu við skipaskurð á svæðinu. Það hefur verið óneitanlega verið svoldið sérstakt að sjá hermenn gráa fyrir járnum sinna björgunarstörfum í sínu eigin landi.
Leiðtogi óskast!
George W.Bush hefur enn og aftur sannað að hann er víðs fjarri því að vera starfi sínu vaxinn. Þó hafði maður trú á því að jafnvel hann myndi ekki láta hanka sig aftur á því að bregðast seint og illa við hörmungum eins og eftir 11. september, en allt kom fyrir ekki. Það er víst rétt sem Michael Moore segir í bréfi sem hann skrifaði til forsetans: Bush líkar einfaldlega illa að fá vondar fréttir!! Hver getur svosem láð honum það? Hann hefur gefið það út að hann geri sér grein fyrir að björgunaraðgerðir hefðu mátt ganga mun betur og biður jafnframt andstæðinga sína að gera sér ekki pólítískan mat úr þessum hörmungum! Sennilega hefði bara verið heillavænlegast að Bush hefði haldið áfram að vera í fríi og jafnvel bætt nokkrum áratugum við það.
Hverjum er hægt að kenna um?
Nú verður fróðlegt verður að sjá eftirleikinn og standa spunameistarar Hvíta hússins eflaust í ströngu þessa dagana til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Spurning hvernig þeir bregðast við núna þegar ekki er hægt að tengja hörmungarnar við Al Qaida eða Saddam Hussein og ekkert land til að ráðast inn í. Það væri ekki nema að þeir finndu eitthvert óvinaríki sem losar meira af gróðurhúsalofttegunum en þeir sjálfir.
Stöndum við bakið á bandamönnum okkar
Það verður ekki af Bandaríkjamönnum tekið að þeir hafa alltaf verið með þeim fyrstu að veita aðstoð á hamfarasvæðum og sýndu þeir það hvað best í kjölfar flóðbylgjunar í Asíu á annann í jólum. Máttleysi þeirra heima fyrir kemur manni því nokkuð í opna skjöldu. Nú ríður á að veita þessum bandamönnum okkar alla þá aðstoð sem við getum veitt. Hjálpargögn og birgðir streyma nú yfir Atlantshafið og veitir sannarlega ekki af. Ófyrirséður er sá vandi sem er framundan t.d. varðandi húsnæði fyrir flóttamenn og uppbyggingu á hamfarasvæðunum. Ég held að enginn geti gert sér almennilega grein fyrir hversu stór þessi vandi er. Það eru því erfiðir tímar framundan hjá þessu fólki og reynir nú á samtakamátt landa þeirra og bandamanna víðsvegar um heiminn.