Var það í Kína eða á Íslandi?

„Bent hefur verið á að ef vilji þeirra sem kjósa að virkja fær að ráða, verður um þjóðnýtingu á landi í byggð að ræða. Því skora Ungir jafnaðarmenn á Landsvirkjun að falla frá þessum kommúnísku þjóðnýtingaráformum.“ Segir Valgeir Helgi Bergþórsson sem situr í framkvæmdarstjórn UJ.    Við Íslendingar höfum getað hrósað okkur af hversu sterkur eignarréttur einstaklingsins er hér á landi. Það fyllir okkur óhug að frétta af því að í hinu kommúníska Kína sé fólk flutt unnvörpum af jörðum sínum samkvæmt fyrirskipunum ríkisins. Milljónir manna eru fluttar af heimilum sínum til þess eins að ríkið geti grætt peninga. Við heyrum um fornminjar sem sökkt er í sæ og um menningarlega mikilvæga staði sem hverfa eins og dögg fyrir sólu í þágu stundarhagsmuna. Í Kína má fólk ekki halda að það eigi jörð sem forfeður þess hafa ræktað og byggt með blóði, svita og tárum.

Harðstjórnin, undir fölskum formerkjum framfara, sviptir fólkið rétti sínum til að geta kallað eitthvað sitt eigið. Það hljómar óraunverulegt að stjórnvöld skuli bera svo litla virðingu fyrir eigum þegna sinna. Við höfum hugsað með okkur að þetta gæti aldrei gerst á okkar fallega, frjálsa landi. En hvað gerist nú?

    Þegar umræðan um Kárahnjúkavirkjun fór af stað í þjóðfélaginu voru helstu rök stuðningsmanna virkjunarinnar að enginn heimsótti svæðið nema í leit að kindum. En nú hafa þessir sömu stuðningsmenn virkjana vent kvæði sínu í kross, sér í lagi vegna mikillar mótstöðu við fyrri röksemdafærslu, og segja nú að við Neðri-Þjórsá sé ekki hin óspillta náttúrufegurð sem var á Kárahnjúkum. Nú er framtak þeirra einskis metið sem skapað hafa fegurð sem er merkileg fyrir þær sakir að þar fær náttúran að lifa í sátt við mannfólkið. Þar hafa íbúar þá atvinnu að sýna ferðamönnum, innlendum og erlendum, fegurðina sem býr á þessu merka svæði þar sem enn eru að uppgötvast fornminjar.

    Við þurfum ekki að leita langt að óréttlæti líkt og því sem viðgengst í Kína því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hefur búið til ímynd sem það kallar „hag fyrir alla af vatnsaflsvirkjun“. Virkjunin á að vera atvinnuskapandi þegar ekkert atvinnuleysi er til staðar og auka hagvöxt í landi þar sem er nú þegar þensla. Sem betur fer getur iðnaðarráðherra stoppað þessar hörmungar í landi hinna frjálsu. Hann getur komið í veg fyrir að eignarnám verði gert á jörðum og valið að taka sér ekki það vald í hendur að segja fólki hvar það má og má ekki búa.

    Nú hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýst opinberlega yfir efasemdum sínum um virkjunaráformin í Þjórsá. Það sama hefur Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og þingmaður Sunnlendinga, gert. Bent hefur verið á að ef vilji þeirra sem kjósa að virkja fær að ráða, verður um þjóðnýtingu á landi í byggð að ræða. Því skora Ungir jafnaðarmenn á Landsvirkjun að falla frá þessum kommúnísku þjóðnýtingaráformum og ef það skyldi bregðast þá treystum við því að Össur Skarphéðinsson segi nei við eignaupptöku á landi á Þjórsárbökkum. Ekkert rugl – við höfnum virkjunum í Neðri-Þjórsá.

                                     Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 17. janúar 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand