Þetta mál snýr að vanhæfi þingmanna og hvort þeir geti yfir höfðu verið vanhæfir. Að mínu viti er út í hött að halda því fram að þingmenn geti aldrei orðið vanhæfir enda hafa fjölmörg þjóðþing í kringum okkur sett reglur um hvenær þingmenn eru vanhæfir og hvenær ekki. Eðli löggjafarstarfsins hér á landi getur ekki verið það frábrugðið löggjafarstarfi annarra þinga að engar vanhæfisreglur geti eðli málsins samkvæmt gilt. Á síðasta fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis urðu miklar umræður um meint vanhæfi Péturs Blöndals að sitja í nefndinni á meðan málefni yfirvofandi sölu á SPRON væru til umfjöllunar í henni.
Eins og kunnugt er þá er Pétur Blöndal einn af stofnfjáreigendum SPRON ásamt því að vera stjórnarmaður í fyrirtækinu. Pétur reyndi einnig fjandsamlega yfirtöku síðastliðið sumar á SPRON sem ekki tókst m.a. vegna lagaannmarka.
Vegna þessarar sérstöku stöðu Péturs Blöndals í málinu fluttu við fulltrúar Samfylkingarinnar í þessu máli í nefndinni tillögu um að Pétur myndi víkja frá vegna persónulegra hagsmuna þar sem það væri ljóst að hann hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því hvernig nefndin mun taka á málinu.
Eins og eðlilegt væri þá hefði maður talið að dómgreind Péturs Blöndal myndi einnig leiða hann að þessari niðurstöðu og hann myndi víkja sæti á meðan þessu máli stæði. Annað kom á daginn og fundurinn dróst á langinn um þetta atriði málsins.
Biðin langa og stranga
Það hefur verið gert talsvert úr því í fjölmiðlum að fjöldinn allur af fólki hafi þurft að bíða á meðan þingmenn tókust um meint vanhæfi Péturs Blöndals. Pétur hefur hins vegar látið að því liggja að þetta hafi nú allt verið Samfylkingunni að kenna þar sem um hafi verið að ræða tillögu frá henni.
Þvílík firra. Um er að ræða grundvallaratriði um vanhæfi þingmanns sem hefur beina og persónulega hagsmuni af máli sem er til meðferðar í þingnefnd. Auðvitað er slæmt að þurfa að láta gesti bíða, sérstaklega ef þeir eru komnir langt að. En þótt gestir þurfi að bíða vegna þessa grundvallaratriðis þá er einfaldlega meira í húfi en þeirra bið.
Að sjálfsögðu hefði Pétur átt að hlífa öllum viðeigandi aðilum og þar á meðal sínum eigin flokksmönnum fyrir þessu máli með því að gera hið eina rétta í málinu og víkja og útrýma þar um leið allri tortryggni í sinn garð. Pétur Blöndal vissi einnig mæta vel að meint vanhæfi hans yrði rætt á fundinum þannig að hann hefði vel getað gert ráðstafanir fyrir því í dagskránni.
Geta þingmenn verið vanhæfir?
Þetta mál snýr að vanhæfi þingmanna og hvort þeir geti yfir höfðu verið vanhæfir. Að mínu viti er út í hött að halda því fram að þingmenn geti aldrei orðið vanhæfir enda hafa fjölmörg þjóðþing í kringum okkur sett reglur um hvenær þingmenn eru vanhæfir og hvenær ekki. Eðli löggjafarstarfsins hér á landi getur ekki verið það frábrugðið löggjafarstarfi annarra þinga að engar vanhæfisreglur geti eðli málsins samkvæmt gilt.
Þau sjónarmið sem liggja að baki bæði skriflegum og óskrifuðum vanhæfisreglum hljóta einnig að eiga við þingmenn. Það má því ætla að óskráðar réttarreglur um sérstakt hæfi gildi um alþingsmenn og ekki er rétt að hengja sig í að skrifaðar vanhæfisreglur sé ekki að finna um þingmenn. Mýmargar réttarreglur eru til þó þær séu ekki skrifaðar. Meira að segja er mesta grundvallarregla skaðabótaréttarins, hin almenna skaðabótaregla, óskráð.
Óskrifaðar vanhæfisreglur
Fyrir setningu stjórnsýslulaganna árið 1993 voru vanhæfisreglur taldar vera í fullu gildi þótt óskráðar væru. Slíkt kemur skýrt fram í athugasemdum með stjórnsýslulögunum og hefur það einnig verið staðfest bæði af dómstólum og Umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður Alþingis hefur staðfest að vanhæfisreglur eru ekki einungis þær sem má finna skriflega í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur einnig séu til ólögfestar vanhæfisreglur (sjá t.d. mál 2903/1999).
Meginregla um vanhæfi þingmanna hlýtur að vera í anda þeirra vanhæfisreglna sem til eru skriflegar og þá er nærtækast að líta til stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga. Í athugasemdum um 3. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að starfsmaður teljist vanhæfur hafi hann einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Í 1. mgr. 19. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Þótt stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki ekki til starfsemi Alþings þá er varla hægt að telja rétt að þingmenn geti gert minni kröfur til síns en embættismenn og sveitastjórnarmenn þegar kemur að spurningum um eigið vanhæfi vegna hugsanlegs persónulegs ávinnings og hagsmunaárekstra.
Ef um væri að ræða starfsmann framkvæmdarvaldsins eða sveitastjórnarmann þá væri það alveg ljóst að núverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis væri vanhæfur skv. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 19. gr. sveitarstjórnarlaga.
En þar sem vanhæfisreglur þingmanna eru óskrifaðar reynir meira á dómgreind og siðferði einstakra þingmanna þegar þeir standa fyrir slíkum álitamálum. Meginreglan hlýtur að vera sú að ef viðkomandi þingmaður er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila eða málið varðar hann sjálfan verulega þá telst viðkomandi vanhæfur. Þetta á við þegar staða Péturs Blöndals er skoðuð varðandi yfirvofandi sölu SPRON.
Í 4. mgr. 64. gr. laga um þingsköp Alþingis kemur skýrt fram að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. Í þessu ákvæði kemur skýrt fram að þingmenn geti orðið vanhæfir við ákveðnar aðstæður. Slíkar aðstæður verða að teljast vera upp í umræddu máli um hugsanlegt vanhæfi formanns efnahags- og viðskiptanefndar.
Umræða um sitt eigið hæfi
Í 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga kemur m.a. fram að sé um að ræða stjórnsýslunefnd þá ákveði hún hvort nefndarmönnum, einum eða fleiri, beri að víkja sæti. Þeir nefndarmenn, sem ákvörðun um vanhæfi snýr að, skulu ekki taka þátt í ákvörðun um það. Sé um að ræða stofnun þá ber yfirmaður viðkomandi starfmanns að taka ákvörðun um hæfi hans. Í 5. mgr. 19. gr. sveitastjórnarlaga kemur m.a. fram að sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur.
Þegar skoðuð eru þessi tvö ofangreindu lögfestu dæmi má álykta að efnahags- og viðskiptanefnd hafi mátt ákveða hæfi Péturs Blöndals í umræddu máli. Það kemur einnig spánskt fyrir sjónir að Pétur Blöndal sá ekkert að því að taka fullan þátt í umræðunni innan nefndarinnar um sitt eigið hæfi þrátt fyrir að honum hafi verið bent á hið óeðlilega í því.
Í ljósi ummæla Péturs Blöndals í fjölmiðlum um að tillaga Samfylkingarinnar hefði ekki verið þingleg er það hins vegar forvitnilegt að tillagan var ekki vísað frá með frávísunartillögu heldur tekin til efnislegrar afgreiðslu þar sem Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn kusu gegn henni.
Þar sem augljós vafi var uppi um hæfi Péturs Blöndals að sitja í þingnefndinni á meðan þetta tiltekna mál var til meðferðar átti tillaga Samfylkingarinnar fullan rétt á sér, bæði lagalega og ekki síst siðferðislega.
Blöndalarnir úrskurða
Nú hefur málinu verið vísað til forsætisnefndar en þrátt fyrir að sú nefnd hafi ekki hist vegna þessa máls hefur Halldór Blöndal, forseti Alþingis, nú þegar sagt að hann telji að það sé enginn vafi á hæfi Péturs Blöndals.
Þetta sýnir vel þann skrípaleik sem meirihlutavaldið leikur oft. Það er ekki einu sinni búið að ræða málið í forsætisnefndinni eða jafnvel skoða hversu mikla fjárhagslega hagsmuni Pétur Blöndal hefur af málinu. Eru það tvær milljónir eða þrjár eða fjórar milljónir? Samt er Blöndal I alveg klár á hæfi Blöndals II.