Nýja Sjáland – viðvörun eða vegvísir

Nýja Sjáland er fyrir margt afar sérstakt land. Hér er margt sem minnir á litlu eyjuna í norður Atlantshafi sem reynir svo mikið að vera stór. Landið er þakið torfærum regnskógum, er hæðótt með stórum fjallgörðum og niðri við strandirnar skellur Kyrrahafsbrimið á gylltum ströndum. Nýsjálendingar, eða kiwis eins og þeir kalla sig, hafa einnig mátt þola róttækari breytingar á efnahag sínum undanfarna þrjá áratugi en flestar aðrar þjóðir. Formáli
Nýja Sjáland er fyrir margt afar sérstakt land. Hér er margt sem minnir á litlu eyjuna í norður Atlantshafi sem reynir svo mikið að vera stór. Landið er þakið torfærum regnskógum, er hæðótt með stórum fjallgörðum og niðri við strandirnar skellur Kyrrahafsbrimið á gylltum ströndum. Nýsjálendingar, eða kiwis eins og þeir kalla sig, hafa einnig mátt þola róttækari breytingar á efnahag sínum undanfarna þrjá áratugi en flestar aðrar þjóðir.

Um vinnubrögð
Það er allt að því ógjörningur að rekja sögu Nýja Sjálands sem og þess pólitíska umróts sem hér hefur átt sér stað á undanförnum áratugum ítarlega í svo stuttri grein og væri því nær að kalla það sem hér fer á eftir samantekt frekar en nákvæma sögulega útlistun. Ég tek þá stefnu að einfalda og draga saman þar sem það á við en reyni þó að halda mig við kjarna málsins. Einnig hef ég tekið mér það bessaleifi að nota þau hugtök sem ég tel falla best að því sem ég er að fjalla um. Rekist þau á við ,,rétta” túlkun þá biðst undirritaður fyrirfram afsökunar.

Nýja Sjáland – Á harða spretti
Nýja Sjáland er, þegar allt kemur til alls, landbúnaðarþjóð. Stærsti einstaki hluti innkomu þjóðarbúsins kemur frá búfénaði sem og mjólkurafurðum. Uppúr 1950 voru hér 75.000.000 kindur og var þær þá undirstaða efnahagsins. Mestur hluti útflutnings þjóðarinnar var til ,,Móðurinnar” eins og Nýsjálendingarnir kalla gjarnan Stóra Bretland. Þessi útflutningur var ekki háður tollum og var einkabundin og var þetta því hagkvæmt fyrir báða aðila. Bretland fékk ódýrar afurðir fluttar beint til sín og Nýja Sjáland var örugg í því að vörur þeirra væru keyptar á fyrirfram ákveðnu verði.

Þegar fram liðu stundir opnaði Bretland markaði sína fyrir landbúnaðarvörum frá öðrum löndum og á frekar skömmum tíma var einkainnflutningur Nýja Sjálands til ,,Móðurinnar” úr sögunni. Við þetta stóð landbúnaður Nýja Sjálands frammi fyrir samkeppni sem hann átti engin svör við. Fjarlægðin frá Bretlandi sem og meiri hagkvæmni í niðurgreiddum landbúnaði Evrópu gerði það að verkum að útflutningur Nýsjálenskra vara til Stóra Bretlands var á einu bretti þurrkaður út. Þar sem um einkaútflutning til ,,Móðurinnar” hafði verið að ræða voru engir aðrir markaðir opnir til að selja vöruna á. Nýsjálendinga vantaði bæði tengsl til við aðra markaði sem og kunnáttu og við blasti því algert hrun í Landbúnaði.

Ríkisstjórn þess tíma brást við hruninu með því að setja á fót kerfi niðurgreiðsla til að aðstoða landbúnaðinn. Við það rétti landbúnaðurinn úr kútnum um stundarsakir en þegar á leið var það æ þyngri baggi á fjárlögum og efnahagsreikningi þjóðarinnar. Uppúr 1980 var staðan orðin mjög alvarleg. Niðurgreiðslurnar voru orðin svo stór hluti útgjalda ríkisins að nauðsynlegt varð að grípa til aðgerða.

Þegar málin stóðu sem verst var Verkamannaflokkurinn við völd. Við blasti að til aðgerða þurfti að taka og þó undarlega megi virðast þá horfði Verkamannaflokkurinn enn á ný til ,,Móðurinnar”, Stóra Bretlands, eftir leiðsögn. Á þeim tíma var þar við völd Íhaldsflokkurinn undir styrkri stjórn Margretar Tatcher. Nýsjálendingar tóku breytingar þær sem hún innleiddi í Bretlandi sem fyrirmynd fyrir því sem þurfti að gerast í Nýja Sjálandi. Á afar skömmum tíma innleiddu þeir það sem kalla má opið markaðshagkerfi, hagkerfi byggt á jöfnum tækifærum allra í viðskiptalífinu, án niðurgreiðsla og aðstoðar ríkisin.(1) Nema hvað, þeir tóku það lengra en nokkur hafði þorað áður. Þeir tóku það alla leið.

Afleiðingar opna markaðskerfisins
Afleiðingunum af þessu má skipta í tvo yfirflokka:
1. Áhrif á efnahags- og viðskiptalíf.
2. Áhrif á samfélagsuppbygginguna. (atvinnuleysisbætur, skólakerfi, heilbrigðiskerfi og svo framvegis)

Skoðum fyrst áhrif á efnahags- og viðskiptalífið.
Eins og gefur að skilja þá olli þetta gífurlegum umbrotum í landbúnaði og iðnaði þeim tengdum sem og í viðskiptalífinu í heild sinni. Hundruð bænda og stórbýla fóru á hausinn, önnur urðu að sameinast til að lifa af. Efnahagslíf þjóðarinnar tók niðursveiflu sem ekki á sinn líkan í sögu þjóðarinnar. Margir efuðust um visku stjórnvalda í efnahagslegu tilliti en líkt og á Íslandi nú, þá hlustuðu stjórnvöld ekki á gagnrýnisraddir, heldur héldu sínu striki. Þegar fram liðu stundir þá rétti efnahagurinn úr sér og landbúnaðurinn tók að reka sig á mun hagkvæmari hátt. Bandalög voru mynduð bæði í kringum sauðfjár- sem og mjólkuriðnaðinn. Bandalög þessi sögðu sig að öllu frá opinberum stofnunum og tóku að byggja upp útflutning nýsjálenskra landbúnaðarvara að nýju. Nýsjálenskar sauðfjáraafurðir eru nú til sölu um allan hinn vestræna heim og er kjötið framleitt á svo hagkvæman hátt að verðið er samkeppnishæft víðast hvar. Hvað mjólkurvörur varðar þá fóru nýsjálensku mjólkurbúin að framleiða hinar ýmsu gerðir osta og annarra mjólkurafurða með slíkum gæðum og hagkvæmni að amerísk fyrirtæki fóru að hafa áhyggjur að heimamarkaðnum. Sum þeirra hófu meira að segja að framleiða vörur eftir sömu aðferðum og Nýsjálendingar til þess að verða ekki undir. Þetta ógnaði nýsjálenskum iðnaði um stundarsakir en að lokum fundu Nýsjálendingar ráð. Þeir keyptu upp fyrirtækin og framleiða nú ost og aðrar mjólkurafurðir í mörgum löndum víðsvegar um heiminn og eru afar stórir á heimsmarkaði.

Það má færa góð rök fyrir því að staða nýsjálenskra landbúnaðarvara væri ekki sú sem hún er í dag hafi stjórnvöld ekki tekið þessar afdrifaríku ákvarðanir á áttunda áratugnum. Vissulega tóku breytingarnar tíma, reyndar styttri en flesta grunaði, en eins og staðan er í dag þá er landbúnaður að nýju orðin stærsti hluti nýsjálensku þjóðarinnkomunnar sem og afl í alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarvörur.

Aðspurðir segja þeir sem undirritaður ræddi við að það sem standi útflutningi þeirra helst fyrir þrifum sé að aðrar þjóðir, til dæmis Bandaríkin, stundi ekki opið hagkerfi heldur niðurgreiði og setji tolla sem geri samkeppnisstöðuna ójafna.(2)

Afleiðingar einkavæðingar á samfélagið og velferðarkerfið
Nýsjálensk stjórnvöld tóku ekki aðeins til í niðurgreiðslukerfinu landbúnaði heldur tóku þau samfélagsuppbygginguna alla í gegn og þegar uppi stóð þá var búið að koma á fót einkareknu heilbrigðis- og skólakerfi þó svo að til hliðar við það væri enn rekið ríkisvætt batterí. Það hafa allir rétt til ókeypis heilbrigðisþjónustu og afar ódýrri grunn- og menntaskólamenntun en í báðum tilfellum er þjónustan sem veitt er þar mun verri en sú sem finna má í einkageiranum. Háskólamenntun er ekki á vegum ríkisins og getur það kostað einstakling í til að mynda hagfræði eða stjórnmálafræði allt að 3.500.000.- kr að klára nám, mun meira sé um sérhæfðara nám að ræða.

Sem dæmi um hvaða afleiðingar svona einkarekin almenningsþjónusta hefur í för með sér á samfélagið þá hefur nýsjálenskur krabbameinssjúklingur tvo kosti. Hann getur farið á langa biðlista eftir lyfjum eða geislameðferð eða greitt þjónustuna úr eigin vasa og sloppið við alla bið. Þó svo að reynt sé að raða á biðlistana eftir nauðsyn þá er það staðreynd að fólk er að deyja á meðan beðið er eftir að fá þá aðhlynningu sem það þarf á að halda.

Taka ber fram að skattheimta hér er ívið hærri hér en á Íslandi þegar tekið er tillit til skatt af launum einstaklinga (þrepaskattkerfi) en minni innheimta er af vörum og þjónustu (vsk. í Nýja Sjálandi er 12%). Eftirlaunakerfið er einnig áhugavert. Einstaklingur fær greitt frá ríkinu eftirlaun óháð tekjum. Greiðslan nemur rétt um 20.000.- krónum á mánuði fyrir einstakling og 22.000.- kr. fyrir hjón. Allur aukalífeyrir verður viðkomandi að verða sér út um sjálfur í gegnum eigin sparnað.

Það sem þessi einkavæðing almenningsþjónustunnar hefur í för með sér er tekjuskiptara og ójafnara samfélag. Hér ríkir ekki jafnrétti til náms né til heilbrigðis.Þó svo að á Nýja Sjálandi sé hár lifistandard þá nær hann alls ekki til allra og stórir samfélagshópar lifa við eða undir fátæktarmörkin.(3)

Samantekt og niðurstöður
Eins tekið var fram framar í greininni þá hefur verið farið á handalaupum gegnum viðskipta- og samfélagssögu Nýja Sjálands. Ekki hefur verið tekið inn í reikninginn hinar ýmsu hliðar afleiðingar né rakin í smáatriðum hvernig farið var að þessari opnun hagkerfisins. Þess í stað hefur verið reynt að benda á stöðuna eins og hún er í dag miðað við þær ákvarðanir sem teknar voru. Þetta er gert til þess að opna augu þeirra sem lesa að á Nýja Sjálandi er að finna afar spennandi rannsóknarefni fyrir þá sem leiða umræðuna um einka- og markaðsvæðingu á Íslandi.

Augljóst er að hún hefur haft sína kosti og galla og ef til vill væri hægt að taka mark á því það sem vel hefur tekist og varast það sem miður fór. Sem dæmi mætti skoða að fara svipaðar leiðir í landbúnaði og Nýja Sjáland og kannski myndum við þá hætta að horfa upp á lambakjötsfjöll vera hent í ruslið árlega í stað þess að gera íslensk lambakjöt að verðmætri útflutningsvöru.(4)

Eftirmáli
Ísland stendur á krossgötum. Æ meiri áhersla er lögð á einkavæðingu án þess að til grundvallar liggi vandlega útfærðar reglugerðir eða framtíðarsýn. Heilbrigðis- og skólakerfið þjáist af fjármunaskorti og ef fram fer sem horfir mun þjóðin verða neydd til að kaupa sér tryggingar til að standa undir útgjöldum til heilbrigðisþjónustu og senda börnin sín í einkaskóla til að þau hljóti þá menntun sem krafist er í svo þróuðu samfélagi sem ísland óumdeilanlega er.

Það sem því miður einkennir Ísland er rembingsháttur sem lýsir sér best í því að sífellt er verið að finna upp hjólið í stað þess að horfa á þær þjóðir sem lærðu að hjóla fyrir löngu og hafa nú þegar farið í gegnum það að hrufla á sér hnén og brjóta ef til vill eitt bein eða svo.

Ég óska þess að á nýju ári að Ísland megi læra af öðrum og að þegar Framsóknarflokkurinn tekur völdin þá megi hann standa undir nafni og bera okkur áfram í stað þess að vera trúr ímynd sinni, að standa og pissa upp í vinda framtíðarinnar.

– – – – –

(1) Ég legg til að hver sá sem les þessa grein finni sér stuttorðan hagfræðing og spyrji hann hvað opið hagkerfi sé. Þetta er mín útgáfa, njörvuð og einfölduð niður í eina setningu vegna plássleysis.
(2) Þó svo að í viðræðum við vanþróaða heiminn heimti Bandaríkin að aðrir taki upp opið hagkerfi án þess að þau ætli að leggja niður niðurgreiðslur sínar og tolla.
(3) Til gaman má geta að í Bretlandi, landinu sem Nýja Sjáland notaði sem viðmiðun í markaðsumbreytingum sínum, er að finna einhverja sárustu fátækt í heimi sé miðað við viðmiðanir.
(4) Undirritaður getur vottað fyrir það að nýsjálenskt lambakjöt stenst hinu íslenska ekki snúning hvað gæði eða ferskleika varðar. Auk þess er íslenska kindin muni fegurri á að líta.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand