Til varnar frelsinu

,,Hin versta misgjörð sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta”. Svo hljóða orð John Stuart Mill í bókinni Frelsið. Frelsið er einmitt umræðuefni forsætisráðherra um áramót en hann telur frelsisbaráttuna að þessu sinni snúast um að verja frelsið gagnvart okkur sjálfum. Orð John Stuart Mill eru mikilvæg áminning til þeirra sem vilja ranglega halda því fram að fullyrðingar forsætisráðherra, um grófa misnotkun á fjölmiðlun, eigi eitthvað skylt við siðlega rökræðu. ,,Hin versta misgjörð sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta”. Svo hljóða orð John Stuart Mill í bókinni Frelsið. Frelsið er einmitt umræðuefni forsætisráðherra um áramót en hann telur frelsisbaráttuna að þessu sinni snúast um að verja frelsið gagnvart okkur sjálfum. Orð John Stuart Mill eru mikilvæg áminning til þeirra sem vilja ranglega halda því fram að fullyrðingar forsætisráðherra, um grófa misnotkun á fjölmiðlun, eigi eitthvað skylt við siðlega rökræðu.

Forsætisráðherra hefur brennimerkt andstæðinga sína sem siðspillta menn sem séu leynt og ljóst að ráðast gegn persónu sinni. Stór munur er á því að færa rök fyrir sínu máli og að uppnefna menn götustráka og lygara. Slíkar fullyrðingar færa engin sannindi fram í dagsljósið sama hve margir kjósa að trúa og taka undir fullyrðingarnar. Einu sannindin sem dregin eru fram eru þau að forsætisráðherra hafi tilfinningar og líði illa.

Rökræða stjórnmálanna
Forsætisráðherra var beðinn í útvarpsþættinum Hrafnaþing á Útvarpi Sögu um að nefna dæmi til að rökstyðja fullyrðingar sínar um misnotkun á Fréttablaðinu. Sagði hann enga þörf fyrir dæmi því misnotkunin blasi við fólki og líkti því við álíka sannindi og að jörðin væri ekki flöt heldur kringlótt. Rökin á bak við fullyrðingar hans voru sem sagt þau að hliðstæða væri milli þeirra sanninda að jörðin væri kringlótt og að Fréttablaðið væri gróflega misnotað af eigendum sínum. Jörðin er hins vegar ekki kringlótt heldur hnattlaga og benda má á að rök forsætisráðherra eiga frekar hliðstæðu í málflutningi þeirra sem töldu að jörðin væri flöt. Jú þeir sögðu; Það blasir við.

Misnotkun á Fréttablaðinu
Nemandi í Háskóla Íslands gerði lokaverkefni sitt um hlutleysi fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosningar árið 2003 og var niðurstaðan sú að Morgunblaðið og DV reyndust vera sérstaklega vilhöll Sjálfstæðisflokknum í fréttaflutningi en Fréttablaðið var nánast hlutlaust. Lokaverkefni þetta byggði á viðurkenndum aðferðum við slíkar mælingar sem verður í það minnsta að teljast nokkuð betri aðferð en að beita tilfinningarökum. Ef að meint misnotkun á fjölmiðli leiðir í raun til hlutleysis þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort ekki beri að gagnrýna frekar ábyrga stjórnun á fjölmiðlum, þ.e. ef hlutleysi er markmið í sjálfu sér.

Handstýrt auglýsingaflæði
Önnur fullyrðing forsætisráðherra er að ekki sé rekstrarlegur grundvöllur fyrir Fréttablaðinu og því sé haldið uppi með handstýrðu flæði auglýsinga. Af því dregur forsætisráðherra þá ályktun að Fréttablaðið sé rekið með önnur sjónarmið í huga en að skila hagnaði þ.e. að koma núverandi forsætisráðherra eða stjórn frá völdum. Ef fullyrðing forsætisráðherra stæðist, þá þýddi það í raun að 66% af 50 stærstu auglýsendum í dagblöðum væri handstýrt til að viðhalda rógsherferð gegn forsætisráðherra, af þeirri ástæðu einni að þeir auglýsa meira í Fréttablaðinu en Morgunblaðinu. Athyglisvert er að Landssími Íslands, sem er í ríkiseigu, er á meðal þeirra auglýsenda og sé þeirra auglýsingum handstýrt til Fréttablaðsins má ætla að samsærið sé jafnvel víðtækara en forsætisráðherra ætlar.

Frelsið þarf gagnrýna umræðu
Það er sorgleg staðreynd að næst æðsti ráðamaður þjóðarinnar skuli kjósa að brennimerkja andstæðinga sína með þessum hætti. Ef eitthvað er mikilvægt til að verja frelsið fyrir okkur sjálfum þá er það að æðstu ráðamenn tileinki sér röklega og siðlega umræðu, því það eru þeir sem hafa valdið hverju sinni. Ef tilfinningar þeirra stjórna stjórnmálaumræðu- og ákvarðanatöku þá er frelsinu sannarlega mikil hætta búin. Þegar forsætisráðherra biður aðra um að vera frjálsa af sjálfum sér, líkt og hann gerði í áramótaþættinum Kryddsíld, hlýtur hann að gera sömu kröfur til sjálfs sín. Eitt er víst að frelsið verður aldrei varið af mönnum sem eru fjötraðir af tilfinningahagsmunum og virðast ófærir um að bera virðingu fyrir röklegri umræðu. Það er jafn augljóst og að jörðin er kringlótt.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand