Útgerðarauðvaldið vanvirðir launafólk

utgerc3b0PISTILL Undanfarin ár hefur jafnan borið á hræðsluáróðri af hálfu útgerðarmanna varðandi hugsanlegar breytingar á kvótakerfinu. Hafa margir þeirra haldið uppi áróðri vegna mikilvægis þess að viðhaldið verði óbreyttu kerfi og hafa sumir þeirra jafnvel gengið svo langt að halda því fram við starfsmenn sína að verði kerfinu breytt muni þeir missa vinnuna.

utgerc3b0PISTILL Undanfarin ár hefur jafnan borið á hræðsluáróðri af hálfu útgerðarmanna varðandi hugsanlegar breytingar á kvótakerfinu. Hafa margir þeirra haldið uppi áróðri vegna mikilvægis þess að viðhaldið verði óbreyttu kerfi og hafa sumir þeirra jafnvel gengið svo langt að halda því fram við starfsmenn sína að verði kerfinu breytt muni þeir missa vinnuna.

Eins og flestum er kunnugt er Sjálfstæðisflokkurinn fremstur meðal jafningja í að halda hlífiskildi yfir óbreyttu kerfi og þar með tangarhaldi útgerðanna á fiskveiðiheimildunum til frjálsra afnota og veðsetningar þeirra. Öllum ætti að vera ljóst hvernig útgerðirnar hafa farið með þetta vald sitt. Dettur einhverjum í hug að kíló af óveiddum þorski sé 4.000 króna virði, jafnvel þó um ótakmörkuð afnot væri að ræða?

Þessa hagsmuni vernda útgerðarmennirnir með kjafti og klóm og hræðsluáróðurinn hefur verið eitt þeirra sterkasta vopn allt of lengi. Ferskt dæmi um þetta er HB Grandi sem hefur yfirráð yfir stórum hluta fiskveiðiheimildanna á Íslandsmiðum. Þetta stönduga fyrirtæki hefur þó ekki séð sér fært að standa við gerða kjarasamninga við launafólk sitt þrátt fyrir bókfærðan hagnað. Engu að síður gerast þeir svo brattir að ákveða „hófsamar“ arðgreiðslur til hluthafa sinna sem þeir telja réttlætanlegri en að launafólkið fái greitt í samræmi við kjarasamninga. Sú skerðing sem launafólkið hefur tekið á sig er tilfinnanleg og ekki síst á þeim erfiðu tímum sem við lifum nú með hárri verðbólgu og gríðarlega háu vaxtastigi.

Í yfirlýsingu sem birtist í gær (15. mars) á heimasíðu HB Granda reyna stjórnarformaður og formaður félagsins að réttlæta þetta auk þess sem gripið er til gamalkunnra aðferða. Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Félagið fagnar því að hafa undanfarna mánuði getað haldið uppi fullri vinnu í fiskiðjuverum félagsins í Reykjavík og á Akranesi, enda er efnahagslífinu mikilvægast að starfandi fyrirtækjum sé haldið í stöðugum rekstri.“ Verður ekki betur séð en að látið sé skína í að fólkið megi vera fegið með að hafa vinnu yfirleitt. Og hvernig er hægt að tryggja það? Jú, augljóslega með arðgreiðslum, samkvæmt þeim HB Granda mönnum. Þannig að nú má launafólkið hjá HB Granda vera þakklátt fyrir frábæra stjórnunarhætti fyrirtækisins sem með þessu tryggir þeim áframhaldandi atvinnu! Yfir þessu ætti því enginn að kvarta. Þetta er vægt dæmi um hræðsluáróður hagsmunaafla sem hefur verið notaður með góðum árangri allt of lengi.

Peningaöflin hafa náð að mergsjúga sjávarútveginn síðan hið frjálsa framsal var heimilað. Heilu byggðarlögin hafa verið lögð í rúst vegna gírugra fjárglæframanna sem tóku milljarða út úr greininni og skildu eftir himinháar skuldir sem auðlindin þarf nú að bera kostnaðinn af. Flateyri er skýrt dæmi um þetta. Svona er farið með auðlindina okkar sem við, íslenska þjóðin, áttum að njóta arðs af í einhverju formi. Nú er svo komið að enginn á að geta lokað augunum fyrir því að það hefur brugðist algerlega. Nú eiga hagsmunir venjulegs fólks að víkja enn eina ferðina svo hinir ríku geti viðhaldið auði sínum og áhrifum.

Í 1. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða stendur að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ekki verður séð að útgerðarfyrirtækin álíti að íslenska þjóðin hafi nokkuð með þessa auðlind að gera, heldur telja þau sig hafa frjálsan, ótakmarkaðan og óendanlegan ráðstöfunarrétt yfir þeim. Í ársskýrslu HB Granda fyrir árið 2007 stendur m.a.: „Keyptar aflaheimildir eru færðar til eignar í efnahagsreikningi á kostnaðarverði sem óefnislegar eignir með ótakmarkaðan nýtingartíma…“.

Þá kemur jafnframt fram í 2. málsl. 1. gr. að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu og tryggja með því trausta byggð í landinu. Ekki verður séð að úthlutun arðs til hluthafa á kostnað verkafólks sé til þess fallin að tryggja trausta byggð í landinu, enda hljóta mannsæmandi tekjur fólks á hverjum stað að vera ein meginforsenda fyrir því að byggð haldist við. Í 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða stendur svo að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 stendur svo orðrétt: „Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskistofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talin myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni.“ Af þessu má sjá að það var aldrei vilji löggjafans að einkaaðilar fengju óafturkallanleg yfirráð yfir auðlindinni. Engu að síður umgangast þessir aðilar auðlindina eins og sína einkaeign sem þeir geta ráðstafað um alla framtíð í eigin þágu hvernig sem þeir svo kjósa. Þessir menn hika ekki einu sinni við að ráðstafa henni fyrir opnum tjöldum til hagsmunaaðila (sem oftar en ekki eru þeir sjálfir) á kostnað launafólks.

Nú er svo komið að við getum ekki látið blekkjast lengur. Ein stærsta ástæðan fyrir því að svo illa er komið fyrir íslensku þjóðinni sem raunin er á, er kvótakerfið í þeirri mynd sem það er í í dag. Þessu verður að breyta og það verður ekki gert nema með Samfylkinguna í fararbroddi vinstri stjórnar eftir kosningar.

Þórður Már Jónsson, viðskiptalögfræðingur, mun skipa fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi Alþingiskosningum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand