Úrbætur á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þola enga bið – Sundabraut verður að fjármagna með sérstökum hætti

Það er mikilvægt fyrir höfuðborgina að Sundabrautin verði lögð. Fyrsti áfangi brautarinnar greiðir leið Grafarvogsbúa til annarra borgarhluta auk þess sem uppbygging í Gufunesi og Geldinganesi verður góður kostur. Það er mikilvægt fyrir höfuðborgina að Sundabrautin verði lögð. Fyrsti áfangi brautarinnar greiðir leið Grafarvogsbúa til annarra borgarhluta auk þess sem uppbygging í Gufunesi og Geldinganesi verður góður kostur.

Sundabraut verður að fjármagna sérstaklega
En Sundabrautin er líka dýr. Fyrsti áfangi hennar kostar líklega um 6-7 milljarða króna – á við stærstu jarðgangaframkvæmdir út á landi. Vegna þess hversu dýr þessi vegabót er hefur yfirleitt verið rætt um að hana þurfi að fjármagna sérstaklega. Að öðrum kosti myndi Sundabrautin þurrka upp allt fé til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu árum saman.

Þessu til stuðnings má benda á ummæli Halldórs Ásgrímssonar í Morgunblaðinu, 8. september 2003:

„”ÉG tel það vera eðlilegast að skipuleggja þetta mannvirki sem einkaframkvæmd og ég sé að fjármálaráðherra er jafnframt þeirrar skoðunar,” segir Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra um lagningu Sundabrautar. … Halldór segir að tiltölulega lítið fjármagn sé til þessara framkvæmda á langtímaáætlun í vegagerð og einkaframkvæmd flýti því aðgerðum. Hún greiði líka fyrir því að meira fjármagn verði til staðar í aðrar framkvæmdir…“

Tekið skal fram að einkaframkvæmd jafngildir alls ekki veggjöldum. Líklegri niðurstaða yrði sú að ríkið semdi við einkaaðila um að leggja veginn en borgaði aðilanum í staðinn ákveðna fjárhæð á ári.

Einnig má nefna þá hugsanlegu fjármögnunarleið að hluti af söluandvirði Símans renni til Sundabrautarverkefnisins.

Mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þola ekki meiri bið
Nú berast fregnir af því að Sundabraut hafi verið sett í forgang með þeim afleiðingum að mörg ár muni líða þar til ráðist verði í önnur mikilvæg verkefni, svo sem gerð mislægra gatnamóta á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Þetta er ekki viðunandi.

Sundabrautin á ekki og má ekki verða til þess að aðrar bráðnauðsynlegar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu tefjist. Þess vegna hefur einmitt verið talað um sérstakar fjármögnunarleiðir í sambandi við hana, samanber framangreinda umfjöllun.

Allir vita að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þola engan veginn þá umferð sem um þau fer. Ástandið þarna veldur ekki aðeins mikilli mengun, heldur fælir það líka fólk frá gatnamótunum og inn í íbúðagötur. Afleiðingar hins afkastalitla umferðarkerfis á þessum slóðum eru þær að fólk er mun lengur að komast leiðar sinnar en ella og er þá sama hvort það ferðast í einkabíl eða með almenningsvögnum. Verst af öllu er þó sú mikla hætta sem skapast á gatnamótunum. Þar verður fjöldi slysa og mikið eignatjón.

Úr öllum þessum vanda má draga til muna með því að ráðast í þá stórarðsömu framkvæmd að byggja þriggja hæða mislæg gatnamót þar sem umferð á bæði Miklubraut og Kringlumýrarbraut yrði í frjálsu flæði. Samhliða yrði aðstaða gangandi og hjólandi vegfarenda bætt með göngubrúm og undirgöngum.

Það verður að vinna samhliða að framkvæmdunum
Ég hvet því ráðherra, alþingismenn og borgarfulltrúa til að búa svo um hnútana með tryggri fjármögnun að Sundabraut og mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar geti byggst upp á svipuðum tíma. Með aðhaldi í öðrum opinberum framkvæmdum má vel koma báðum þessum lykilverkefnum við á næstu árum án hættu á ofþenslu.

Raunhæft ætti þannig að vera að stefna að því að úrbótum á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar yrði lokið innan 2-3 ára, en fyrsta áfanga Sundabrautar eftir 4-5 ár – enda er það umfangsmeira verk.

Það myndi verða jafnt höfuðborgarbúum sem og þeim fjölmörgu öðrum sem leið eiga um gatnakerfi borgarinnar til mikilla hagsbóta.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand