Ekki er ýkja langt síðan Menntaskólinn í Kópavogi ákvað að taka stórt skref í tölvumálum skólans og gera fartölvueign að skyldu. Það þykir nauðsynlegt vegna þess að kennsla fer að mestu fram á netinu. Þessi breyting átti að gera MK að brautryðjanda á sviði tæknimála framhaldsskólanna. Ekki liggur fyrir hvort MK sé einhverskonar brautryðjandi, en aðferðafræði þeirra er heldur betur athyglisverð. Nemendum er sett fyrir á sérstöku vefsvæði þar sem nemendur eiga að niðurhala og skila verkefnum. Hafir þú enga tölvu í tíma þarftu líklegast að fylgjast með á tölvuskjá sætisfélaga þíns og vinna verkefni tímans eftir skóla. Og víða er pottur brotinn, því ekki býður MK upp á að nemendur geti unnið verkefni innan skólans í lok dags, því skólahúsinu er lokað skömmu eftir síðustu kennslustund. Þeir sem ekki búa yfir háhraðatengingu heima fyrir, þurfa að reiða sig á aðra. Er þetta hið vinalega starfsumhverfi sem menntaskólar keppast við að búa nemendum sínum? Sögur fara af kennurum sem skamma efnalitla nýnema fyrir að hafa valið MK í ljósi þess að hafa ekki tök á að kaupa sér 150.000 kr. tölvu. Sumarið hefur kvatt okkur og skólarnir komnir af stað af fullum krafti. Auglýsingabæklingarnir streyma inn um bréfalúguna og ólíkt því sem áður var eru fartölvutilboð nú orðin hvað mest áberandi innan um þau skilaboð sem sérstaklega er beint að námsmönnum. Hver einasti banki býður upp á raðgreiðslur og rausnarlega afslætti sem eru gríðarlega freistandi í augum hins almenna framhaldsskólanema. Endingargóð rafhlaða, stórt minni, besta upplausn í heimi! Ókeypis taska fylgir! Og bíómiði!
Tölvi tölvi tölvi…
Vissulega nýtist tölvan þó flestum í námi enda nota allir skólar tölvur að einhverju leyti við kennslu. Skólarnir ganga þó mislangt í þeim efnum og ekki eru allir jafn róttækir í tölvukaupum. Flestar menntastofnanir búa yfir tölvuveri og geta þá jafnan gert kröfur til þess að ritgerðum og öðrum verkefnum sé skilað á tölvutæku formi. Flestir, ef ekki allir, geta vel unað við og þeir sem ekki eru svo heppnir að búa yfir góðri tölvu geta nýtt sér tölvukost skólans. Því gegna tölvur sífellt veigameira hlutverki í námi hins almenna nemanda og er sú þróun yfirleitt jákvæð.
Er þetta nú ekki óþarfi?
Ekki er ýkja langt síðan Menntaskólinn í Kópavogi ákvað að taka stórt skref í tölvumálum skólans og gera fartölvueign að skyldu. Það þykir nauðsynlegt vegna þess að kennsla fer að mestu fram á netinu. Þessi breyting átti að gera MK að brautryðjanda á sviði tæknimála framhaldsskólanna. Ekki liggur fyrir hvort MK sé einhverskonar brautryðjandi, en aðferðafræði þeirra er heldur betur athyglisverð. Nemendum er sett fyrir á sérstöku vefsvæði þar sem nemendur eiga að niðurhala og skila verkefnum. Hafir þú enga tölvu í tíma þarftu líklegast að fylgjast með á tölvuskjá sætisfélaga þíns og vinna verkefni tímans eftir skóla. Og víða er pottur brotinn, því ekki býður MK upp á að nemendur geti unnið verkefni innan skólans í lok dags, því skólahúsinu er lokað skömmu eftir síðustu kennslustund. Þeir sem ekki búa yfir háhraðatengingu heima fyrir, þurfa að reiða sig á aðra. Er þetta hið vinalega starfsumhverfi sem menntaskólar keppast við að búa nemendum sínum? Sögur fara af kennurum sem skamma efnalitla nýnema fyrir að hafa valið MK í ljósi þess að hafa ekki tök á að kaupa sér 150.000 kr. tölvu.
Skólarnir bera ábyrgðina, ekki nemendur!
Það er á ábyrgð skólanna að sjá nemendum fyrir tölvukosti meðan þær eru jafn dýrar og raun ber vitni. Í MH eru svokölluð „færanleg fartölvuver“ þar sem kennarar geta tölvuvætt venjulega kennslustofu með fartölvum á sérstökum vögnum. Ekkert mál er að deila tölvunni með sætisfélaga og sem stendur er MH með nokkra tugi tölva og þær eru í stöðugri notkun. Þetta er góð og hagnýt lausn og aðrir skólar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.
MK er hverfisskóli!
En bíðið hæg! MK gegnir hlutverki hverfisskóla, skóla sem íbúar Kópavogs vilja eða þurfa að sækja, enda eru vandræði síðasta vors langt frá því að vera gleymd. Í MK eru margir afbragðsnemendur sem ekki áttu þess kost að sækja aðra skóla í nágrannasveitarfélögum. Af hverju? Jú, fyrir sakir menntamálaráðherra, því ekki höfum við gleymt þeirri ringulreið sem ríkti í vor þegar hundruð 10. bekkinga þurftu gangast við menntaskóla sem þeim var úthutað af handahófi, oftar en ekki víðsfjarri þeirra heimabyggð. Fjölmargir Kópavogsbúar með yfir 7.5 í meðaleinkunn á samræmdum prófum gátu ekki fengið vist í mörgum menntaskólum Reykjavíkur og þuftu að una sáttir við MK. Síðan fengu þau bréf í pósti sem tilkynnti þeim um fartölvukaupin. Og þetta voru engar druslur sem þeim var gert að kaupa. Samkvæmt kröfum MK verða tölvurnar að búa yfir 256 mb minni, þráðlausu netkorti og um 30 GB hörðum diski. Slíka tölvu er ekki hægt að finna undir 150.000 krónum.
Fartölvur eru þó félagar okkar fullorðna fólksins
Mörgum þykir það e.t.v. ekki mikil fjárútlát og líta á góða tölvu sem fína fjárfestingu. Því er ég svo sannarlega sammála. Þessi grein er m.a.s. rituð á fartölvu! HP compac nx9005, og hún reynist mér afspyrnuvel í háskólanámi. Það gerði hún ekki í fyrra er ég stundaði nám í MH og get því af eigin raun fullyrt að vel er hægt að komast af án fartölva í menntaskólum. Einu sinni datt netsamband niður í MK og þ.a.l. varð lítið úr skóladeginum hjá þorra nemenda, enda höfðu kennarar geymt öll sín gögn á netinu. Er ekki hægt að prenta út verkefni og ljósrita í 20 eintökum? Ég leyfi mér að efast um að þessi stefna eigi sér eitthvað skylt við umhverfisvernd og pappírssparnað. Við erum orðin að þrælum tölvunnar.
Öh, mamma, ég á að vera með fartölvu…
Vísitölufjölskylda Kópavogsbæjar er ósköp venjuleg. Hún býr í fjögurra herbergja raðhúsi í Smárahverfinu og á bókasafnskort. Þau kjósa framsókn og halda með Breiðablik, en gefa HK stundum flöskur, eiga eina 3 ára borðtölvu og annað foreldrið vinnur mestmegnis á fyrirtækjafartölvuna. Þau búa yfir meðalgóðri ADSL-tengingu og una vel við sitt. Á að skylda þessa fjölskyldu (sem er alveg á kúpunni yfir krítarferðina í júlí) að kaupa glænýja fartölvu handa dótturinni sem ætlaði í MR en fékk bara 7.5 á samræmdu og verður þ.a.l. að ganga í MK? Takið eftir að Menntaskólinn í Kópavogi er ekki einkaskóli og getur ekki gert þessar kröfur til nemenda sinna! Og ennfremur höfum við heyrt af föður í Hjöllunum sem hefur þurft að sjá eftir miklu sparifé, enda á hann þrjú börn í MK!
Þetta er ekki tölvukeppni
Eigum við að setja það á herðar menntaskólanema að eyða öllum sumarvinnulaunum í rándýrar tölvur? Þegar verð á tölvum er komið undir 50.000 að meðaltali þá skulum við hugsa málið. Að þessu leyti skerðir skyldueign á fartölvum jafnrétti til náms. Menntaskólinn í Kópavogi ætti að endurskoða skyldufartölvukaup og taka nokkur smá skref afturábak til hins betra. Flýtum okkur hægt!