Ég velti því oft fyrir mér hvort ég sé orðin galin þegar menn eru að tala um tölvur og upplýsingatækni sem nýjungar. Á sama tíma velti ég því fyrir mér hvort ég sé þá kannski alger nýjung líka, þó ég sé orðin amma, af því ég hef unnið við þessa tækni nánast alla mína starfsævi. En af því að ég veit að ég er engin sérstök nýjung og upplýsingatæknin ekki heldur tel ég að nauðsynlegt að við horfum með meiri alvöru á laga- og starfsumhverfi þessarar tækni. Hættum að tala um eitthvað „nýtt“ og förum að tala í alvöru. Ég velti því oft fyrir mér hvort ég sé orðin galin þegar menn eru að tala um tölvur og upplýsingatækni sem nýjungar. Á sama tíma velti ég því fyrir mér hvort ég sé þá kannski alger nýjung líka, þó ég sé orðin amma, af því ég hef unnið við þessa tækni nánast alla mína starfsævi. En af því að ég veit að ég er engin sérstök nýjung og upplýsingatæknin ekki heldur tel ég að nauðsynlegt að við horfum með meiri alvöru á laga- og starfsumhverfi þessarar tækni. Hættum að tala um eitthvað „nýtt“ og förum að tala í alvöru.
Öflug gagnasamkeppni út í sveit?
Þegar efni er sent milli tölva þá þarf ákveðin flutningskerfi til að standa undir þeim gagnaflutningum. Í dag er misjafnt hversu hraðvirka flutninga menn geta fengið og af því leiðir takmarkast það hvað hægt er að gera. Hraðinn er búsetutengdur í dag og fannst mér beinlínis hlægilegt þegar samgönguráðherra svaraði því til á Alþingi um daginn að hann ætlaði ekki að leggja stein í götu sprotafyrirtækja sem væru að koma á fót tengingum í fámennar byggðir með því að tryggja þangað hraðvirka gagnaflutninga á vegum Landssímans. Menn eru búnir að vera að brölta með tilraunir til að koma upp gervihnattarsendingum í nokkur ár og vandinn sá að tækjabúnaðurinn sem þarf til að koma þeim upp er afar kostnaðarsamt sem fámennar byggðir hafa alla jafnan ekki efni á. Finnst samgönguráðherranum í alvöru líklegt að hraðvirkar gagnasamgöngur í dreifðum byggðum verði tryggðar með því að bíða eftir að einkafyrirtæki komi og bjargi málum annað sé að leggja stein í götu einkarekstrar í landinu. Hví slekkur maðurinn þá ekki bara á öllum gagnaflutningum Landssímans? Eru þeir gagnaflutningar ekki neinn steinn í götu samkeppni í Reykjavík og á Akureyri? Hér held ég að samgönguráðherra hafi gersamlega misskilið hugmyndafræðina um framboð og eftirspurn sem og jafnréttishugtakið.
Má Jón Ólafsson eiga gagnasamgöngur Íslands?
Talandi um þetta gæluhugtak Sjálfstæðisflokksins um „frelsi einstaklingsins“ sem er alveg hárrétt að hafa í eintölu því þetta svokallaða „frelsi“ virðist vera á hendi svo fárra þegar upp er staðið að eðlilegt er að tala um þá í eintölu. Með einkavæðingu Landssímans hf mun gagnaflutningsnet Íslands selt, líklega einhverjum flokksgæðingi, fyrir fínan prís, sem selur það öðrum og græðir fúlgu. Þar með á einhver gagnasamgöngurnar. Finnst mönnum þá ekki eðlilegt að selja vegasamgöngurnar hæstbjóðanda? Þar með ætti til dæmis eitt bílaumboð alla vegina og aðrar bifreiðategundir fengju ekki að aka um þá nema fyrir okurverð. Þá væri nú auðvelt að selja þá tegund. Aðrir myndu líklega fara að reyna að búa til vegaspotta hér og þar og auglýsa „Kaupið AutoSaki á honum er hægt að aka frá Kópavogi til Reykjavíkur fyrir spottprís!“
Þetta er beinlínis skelfileg tilhugsun, stjórnarflokkarnir ætla í alvörunni að sjá til þess að gagnaflutningar landsmanna verði á einni hendi. Getum við þá verið örugg um að sá eigandi sé ekki að fylgjast með þeim gögnum til að koma ár sinni betur fyrir borð í hinu og þessu samhengi? Kannski kaupir Jón Ólafsson allar samgöngurnar, hann gæti þá fengið einhvern til að vakta allt efni frá hæstvirtum forsætisráðherra sem líklega yrði afar lukkulegur með að hafa sínar einkavæddu samgöngur þar. Eða hefur hann kannski skoðun á því hver má eiga samgöngurnar þó þær séu einkavæddar? Frelsi einstaklingsins í eintölu – en bara fyrir fáa.
Ruslpóstur
Annars er ég orðin langþreytt á því að bíða eftir lögum um ruslpóst í þessu landi og þótti vænt um að sjá að Björgvin G. Sigurðsson setti fram fyrirspurn um það mál um daginn. Svíar voru að ljúka við gerð lagafrumvarps um þetta mál. Ég er nefnilega alveg að drukkna í ruslpósti þrátt fyrir að vera með öflugar síur á póstinn minn. Ég vinn það mikið í gegnum pósthólfið að þetta virkilega tefur mig við vinnuna. Svo ekki sé talað um hversu mikið gagnarými þetta tekur á miðlurunum sem ég nota sem og pláss á gagnaflutningsleiðum.
Bandarísk lög um þetta efni má finna á www.spamlaws.com/us.html í Evrópu á www.spamlaws.com/eu.html og síðan annarsstaðar í heiminum á www.spamlaws.com/world.html.
Hér á Íslandi guma menn af því að vera einna fremstir á þessu sviði í heiminum og því ættum við að vera fremst í flokki nauðsynlegra lagasetninga í þessu vinnuumhverfi. En þó við eigum fólk á Íslandi sem er framarlega í þessum efnum þá er lagaumhverfið það hreint ekki.
Eftiröpun eða frumkvöðlar?
Talandi um stöðu okkar á sviði upplýsingatækni, við erum harla aftarlega á merinni í frumkvöðlastarfi á þessu sviði. Við eigum mannskap, tækni og möguleika en þeir eru ekki nýttir. Ríkisstjórnin hefur alls ekki haft hæfileika og dug til að nýta sér þann mannauð sem býr í fólkinu á þessu sviði. Lítið fjármagn til frumkvöðlastarfs hefur leitt til þess að við höfum misst talsvert af mannskap og fyrirtækjum til útlanda og ekki virðist nein bragarbót vera á því. Hraksmánarleg meðferð ríkisstjórnarinnar á frumkvöðlum í fjarvinnslu sýnir ekki nokkurn skilning á því hverju hægt er að fá áorkað með rafrænum samskiptum. Innihaldslaus loforð ráðamanna hafa sett margan mætan manninn á þessu sviði í fjárhagslega örbirgð.
Við erum með fólk sem er í hópi hinna fremstu í heiminum á þessu sviði en sú þekking og það hugvit nýtt landi og þjóð til gagns. Menn geta gumað á mannamótum yfir því að hafa lagt til fé, en ef borið er saman fjárútlát við ýmsar aðrar atvinnugreinar, þá er það heldur rýrt. Án þess að kasta nokkurri rýrð á aðrar framkvæmdir sem margar eru afar nauðsynlegar þá vil ég benda á að langt er frá því að svipað fjármagn sé sett í uppbyggingu á frumkvöðlastarfi í upplýsingatækni og til dæmis við álframleiðslu á Austurlandi, fjárbúskap í dreifðum byggðum, fiskvinnslu eða aðrar slíkar greinar.
Frumkvöðlar okkar í upplýsingatækni eru líklega eitt af okkar dýrmætasta fólki og það fólk sem ríður á að haldi búsetu sinni á Íslandi. Þetta fólk getur skapað nýjar atvinnugreinar, ný tækifæri jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Því er lífsnauðsynlegt að leggja talsvert fé í frumkvöðlastarf á þessu sviði þó eitthvað af því glatist. Í þessari grein býr stór hluti af framtíð þessa lands og með þessari tækni ákveðum við hvað við verðum í framtíðinni.